Ofbeldi Leigubílstjóri er grunaður um að hafa nauðgað konu.
Ofbeldi Leigubílstjóri er grunaður um að hafa nauðgað konu. — Morgunblaðið/Unnur Karen
Hermann Nökkvi Gunnarsson hng@mbl.is

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Daníel O. Einarsson, formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama, segir í samtali við Morgunblaðið að mikill fjöldi ábendinga hafi borist leigubílstjórum í félaginu um að nýir og reynslulausir leigubílstjórar, sem aka sjálfstætt, hafi farið fram með ofbeldisfullum hætti gagnvart farþegum. Fer ábendingunum fjölgandi.

Eins og greint hefur verið frá er leigubílstjóri grunaður um að hafa nauðgað konu ásamt öðrum manni í byrjun febrúar. Á laugardag kom svo í ljós að maðurinn, sem er hælisleitandi, keyrði fyrir City taxi Reykjavík og var svo tekinn úr umferð hjá því fyrirtæki um leið og framkvæmdastjórinn frétti af málinu. Daníel segir að það hafi aðeins verið tímaspursmál þar til mál sem þetta kæmi upp á yfirborðið.

„Það eru bara allir bílstjórar að heyra sömu sögurnar og sams konar dæmi. Það var bara tímaspursmál að það kæmi eitthvað svona hræðilegt í fréttir, en um leið og einn segir frá segja fleiri frá. Bara núna um þessa helgi dynja yfir mann sögur og maður getur varla keyrt fyrir þeim,“ segir Daníel.

Aðspurður hvers kyns sögur hann sé að tala um segir hann að um sé að ræða allra handa ofbeldi.

„Fólk er reitt og ég vil bara að þessu sé beint að stjórnvöldum sem eru búin að gera þessi mistök – að opna þetta svona,“ segir hann og vísar til breytinga á lögum um leigubílstjóra. Hann segir fólk óttast að stíga fram undir nafni og segja frá.

„Það er hrætt um sig í eigin landi að benda á sakirnar og þorir ekki að koma fram undir nafni en hvíslar þessu að okkur bílstjórum,“ segir Daníel.

Flest atvikin í miðbænum

Hann segir að fólk sem hafi lent í meintu ofbeldi hafi venjulega fengið far hjá leigubílstjórum sem svara ekki símaþjónustu leigubílastöðva og vinna almennt ekki hjá hefðbundnum leigubílafyrirtækjum. Þá segir hann að flest þessi atvik eigi sér stað í miðbænum.

Sigtryggur Arnar Magnússon, framkvæmdastjóri City Taxi, sagði í samtali við mbl.is um helgina að hvorki lögreglan né Samgöngustofa hefðu upplýst hann um að meintur nauðgari keyrði fyrir sitt fyrirtæki.

„Mér finnst þetta rosalega dapurlegt. Til hvers erum við með eftirlitsaðila eins og Samgöngustofu ef hvorki lögregla né yfirvöld treysta henni? Hvað með öll saklausu börnin sem setjast upp í leigubílana og þessir menn eru áfram í umferð því það var aldrei tilkynnt að þeir væru að gera einhverja hluti?“ sagði Sigtryggur.

Daníel segir að stjórnvöld upplýsi ekki um svona mál vegna persónuverndar og segir brotalamir vera á kerfinu. Þá tekur hann undir áhyggjur Sigtryggs og segir að nú sé óskað eftir ábendingum á abending@taxi.is ef fólk lendir í ofbeldisatvikum. Segir hann að þingmenn verði að bregðast fljótt við áður en skaðinn verði meiri.