Undirstöður Ný byggðalína á að tengja betur saman allt flutningskerfi landsins og skapa aukið svigrúm til að fullnýta virkjanir.
Undirstöður Ný byggðalína á að tengja betur saman allt flutningskerfi landsins og skapa aukið svigrúm til að fullnýta virkjanir. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mörg stór og fjármagnsfrek verkefni eru fram undan hjá Landsneti og mikilvægt að viðhalda fjárhagslegu heilbrigði fyrirtækisins svo það haldi áfram að njóta hagstæðra lánakjara. Þetta segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets en stjórn…

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Mörg stór og fjármagnsfrek verkefni eru fram undan hjá Landsneti og mikilvægt að viðhalda fjárhagslegu heilbrigði fyrirtækisins svo það haldi áfram að njóta hagstæðra lánakjara. Þetta segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets en stjórn félagsins samþykkti á fimmtudag ársreikning fyrir síðasta rekstrarár og stendur félagið vel að vígi þrátt fyrir að árinu 2023 hafi fylgt óvænt útgjöld.

„Bilun kom upp í sæstreng til Vestmannaeyja og þurftum við að ráðast í eina flóknustu og dýrustu viðgerð í sögu félagsins. Ekki er fyllilega ljóst hvað olli biluninni en hún varð rétt undan ströndinni, á sandrifi sem er á mikilli hreyfingu og reyndust aðstæður mjög erfiðar,“ útskýrir Guðmundur en auk þess að þurfa að leggja út fyrir viðgerðinni varð Landsnet að afskrifa hluta af virði hins upprunalega rafstrengs.

Jarðhræringar á Reykjanesinu hafa einnig ógnað innviðum í eigu Landsnets og segir Guðmundur að þar hafi verið nauðsynlegt að ráðast í framkvæmdir til að verja rafmagnsmöstur við Svartsengi og hlaupi kostnaðurinn á tugum milljóna króna. Reyndust varnirnar vel í eldgosinu sem varð fyrr í þessum mánuði og beindu hraunflæðinu í kringum tvö möstur nálægt Svartsengi. „Við eigum núna í kapphlaupi við tímann og vinnum að því að færa línuna til Svartsengis hærra í landið til að vera betur við því búin ef hraun rennur á svipuðum stað. Þá erum við að vinna með vísindamönnum og verkfræðingum að því að meta hugsanlegar varnir og breytingar á öllum okkar mannvirkjum á Reykjanesinu, og meðal annars endurskoða hönnun fyrirhugaðrar Suðurnesjalínu 2. Á þeirri línuleið eru það einkum tveir staðir þar sem gæti þurft að breyta hönnuninni með tilliti til mögulegs hraunflæðis.“

Ársreikningur 2023 sýnir m.a. að hagnaður Landsnets nam 25,6 milljónum dala, jafnvirði tæplega 3,5 milljarða króna, sem er lækkun frá árinu á undan þegar hagnaður nam 32,5 milljónum dala. Þá nam rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði 52,7 milljónum dala, eða jafnvirði tæplega 7,2 milljarða króna. Handbært fé í lok árs nam 54,3 milljónum bandaríkjadala en heildareignir voru metnar á 1.113,6 milljónir dala. Samkvæmt ársreikningi er eigið fé Landsnets 507 milljónir dala, eiginfjárhlutfall félagsins 45,6% og arðsemi eigin fjár 2023 var 5,2%. Er það tillaga stjórnar að félagið greiði eigendum um það bil 1,8 milljarða króna í arð, eða helming hagnaðar.

Skapar aukna orkugetu

Um verkefni komandi ára segir Guðmundur að með hliðsjón af hlutverki Landsnets verði megináherslur fyrirtækisins á bætt öryggi og markmið um orkuskipti. Hvað flutningskerfið varðar þurfi vissulega að huga sérstaklega að stöðunni á Reykjanesinu en einnig halda áfram að styrkja flutningskerfið um land allt. Mun Landsnet þurfa að ráðast í miklar fjárfestingar m.a. til að auka öryggið og bregðast við tilkomu nýrra orkugjafa, s.s. vindorkuvera sem reiknað er með að rísi víða um land. „Við höfum verið að auka fjárfestingar okkar í flutningskerfinu og sjáum fram á að þurfa að halda því áfram næstu áratugina. Það er gríðarlega mikilvægt að efla tengingar milli landshluta í flutningskerfinu og erum við langt komin á þeirri vegferð, sem við köllum nýja byggðalínu, og felur í sér að tengja betur saman allt flutningkerfi landsins frá Austfjörðum og alveg suður að Reykjanestá. Í dag erum við komin með nýja línu frá Fljótsdalsstöð til Akureyrar og felur næsti kafli í sér að halda áfram vestur á land og niður til Hvalfjarðar auk þess að reisa Suðurnesjalínu 2,“ útskýrir Guðmundur og bætir við að með þessu sé verið að tvöfalda flutningskerfi sem er um hálfrar aldar gamalt. „Þetta stóreykur heildarorkuöryggi Íslendinga, bæði gagnvart truflunum og einnig vegna mismunandi vatnsstöðu á landinu. Þetta skapar líka svigrúm til að fullnýta virkjanirnar í landinu, og þegar upp er staðið mun nýja byggðalínan mynda orkugetu í kerfinu sem jafnast á við Svartsengisvirkjun.“

Fjármögnunina sækir Landsnet einkum til Norræna fjárfestingarbankans, Evrópska fjárfestingabankans og inn á bandarískan skuldabréfamarkað, og segir Guðmundur að lánakjörin sem félagið nýtur séu einhver þau bestu sem völ er á. Er það því eitt helsta verkefni stjórnenda Landsnets að viðhalda góðri fjárhagsstöðu og langtímastöðugleika enda myndu versnandi lánakjör reynast mjög íþyngjandi. „Þannig högum við uppbyggingu flutningskerfisins með langtímasjónarmið að leiðarljósi og byggjum upp kerfið í takt við vaxandi orkuflutning og tekjur, og leitumst við að halda sveiflum í flutningskostnaði til heimila og fyrirtækja í lágmarki.“

Laga þarf reglurnar

Guðmundur minnir á að sterkara flutningskerfi skapi aukið svigrúm og sveigjanleika í orkukeðjunni sem sé mikilvægt öryggismál og nauðsynlegt til að markmið orkuskipta náist. Sér hann fyrir sér að uppbygging komandi ára og áratuga muni ekki síst snúast um að auka sveigjanleika í kerfinu, sem um leið muni kalla á ákveðna aðlögun í viðskiptaháttum á raforkumarkaði. Nefnir Guðmundur að orkuskipti muni t.d. kalla á að aðlagast sveiflum í raforkuframleiðslu með vindi, og breyttu eftirspurnarmynstri hjá heimilunum sem munu nýta raforku í auknum mæli til að knýja fjölskyldubílinn þegar verðið er hagstætt. „Það mun þurfa að laga viðskiptahættina ekki aðeins að þörfum stórnotendanna sem draga til sín orku 8.760 tíma á ári, heldur líka að nýjum orkuþörfum heimilanna, sem og orkuþörfum aðila í atvinnulífinu sem geta nýtt sveiflukenndara framboð orku til verðmætaframleiðslu. Við verðum að setja reglur fyrir þá sem stunda orkuviðskipti sem leiða til eðlilegrar uppbyggingar atvinnulífsins ásamt því að markmið um orkuskipti náist. Slíkar reglur er verið að setja um allan heim í sama tilgangi, og snúast að miklu leyti um gagnsæi og traust á því að allir hafi sömu upplýsingarnar um stöðu orkukerfisins á sama tíma. Það er risastórt orkuöryggismál og geta heimilin og minni fyrirtækin ekki áfram unað við þá stöðu sem uppi er núna vegna bágrar stöðu vatnsmiðlana.“