Kjarnorkuvopn Hugmyndir um að Þjóðverjar eða ESB komi sér upp kjarnorkuvopnum hafa ekki átt upp á pallborðið til þessa í þýskum stjórnmálum.
Kjarnorkuvopn Hugmyndir um að Þjóðverjar eða ESB komi sér upp kjarnorkuvopnum hafa ekki átt upp á pallborðið til þessa í þýskum stjórnmálum. — AFP/John MacDougall
Nokkur umræða hefur verið síðustu daga í Þýskalandi um það hvort Þjóðverjar gætu neyðst til þess að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Katarina Barley, leiðtogi þýskra jafnaðarmanna (SPD) á Evrópuþinginu, opnaði á umræðuna á þriðjudaginn var, en þá sagði …

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Nokkur umræða hefur verið síðustu daga í Þýskalandi um það hvort Þjóðverjar gætu neyðst til þess að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Katarina Barley, leiðtogi þýskra jafnaðarmanna (SPD) á Evrópuþinginu, opnaði á umræðuna á þriðjudaginn var, en þá sagði hún í viðtali við þýska dagblaðið Der Tagesspiegel að Þjóðverjar gætu þurft að ræða þennan möguleika, ef Bandaríkjamenn drægju sig út úr Atlantshafsbandalaginu eða ákvæðu að verja ekki bandamenn sína gegn Rússum.

Umræðan á rætur sínar í ummælum Donalds Trump, sem nú er fremstur í forvali Repúblikanaflokksins fyrir næstu forsetakosningar, en hann sagði á kosningafundi um þar síðustu helgi að hann hefði tjáð ónafngreindum evrópskum þjóðarleiðtoga að Bandaríkin myndu ekki koma ríkjum til varnar sem ekki hefðu „greitt“ nóg til Atlantshafsbandalagsins, og að hann myndi í raun hvetja Rússa áfram ef að þeir réðust á þau ríki.

Ummæli Trumps leiddu til ýmissa viðbragða í Evrópu, en í grunninn var litið á þau sem merki um að vaxandi einangrunarhyggja væri nú uppi í bandarískum stjórnmálum og því væri ekki fyllilega hægt að treysta því að Bandaríkjamenn myndu svara kallinu ef eitthvert aðildarríki bandalagsins virkjaði 5. grein þess.

Svör Barley vöktu þegar mikið umtal í þýskum stjórnmálum, ekki síst á vinstri vængnum, en hún fékk stuðning frá Sigmar Gabriel, fyrrverandi utanríkisráðherra og leiðtoga SPD, sem sagði fyrirsjáanlegt að Bandaríkin myndu ekki verja Evrópu til frambúðar, og að tímabært væri að ræða hvernig hægt yrði að bæta upp fyrir það.

Christian Lindner, fjármálaráðherra og leiðtogi frjálslyndra demókrata, ákvað að stökkva einnig á vagninn, en hann skrifaði grein í dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung þar sem hann sagði tímabært að íhuga evrópsk kjarnorkuvopn, en slíkt gæti m.a. verið gert í samvinnu við kjarnorkuveldin Frakka og Breta.

Sagði Lindner að Bretar og Frakkar gætu þurft að taka á sig stærra hlutverk við að viðhalda fælingarmætti Evrópu, og spurði þá um leið hvaða framlag Þjóðverjar gætu veitt til þessa hlutverks. Sagði Lindner að Þjóðverjar ættu í það minnsta að ræða við Emmanuel Macron Frakklandsforseta um aukið samstarf í kjarnorkumálum.

Óvíst hver hefði stjórnina

Þær hugmyndir sem heyrst hafa í umræðunni eiga það flestar sameiginlegt, að þó að Þjóðverjar yrðu í raun drifkrafturinn á bak við hinn „nýja fælingarmátt“ Evrópu myndu vopnin ekki vera á þeirra valdi, heldur yrðu þau hluti af „samevrópskum vörnum“.

En hvernig myndi það virka? Franziska Stärk, sérfræðingur í kjarnorkuvopnum, sagði t.d. við Deutsche Welle að hún væri efins um þær hugmyndir að ESB gæti komið sér upp kjarnorkuvopnum, þar sem sambandið væri ekki beinlínis þekkt fyrir hraða ákvarðanatöku í utanríkismálum.

Markus Kaim, sérfræðingur við þýsku SWP-stofnunina í öryggis- og varnarmálum, sagði við AFP-fréttastofuna að svo lengi sem „Bandaríki Evrópu“ væru ekki til gæti hugmyndin ekki gengið upp. „Hver ætti að hafa kóðana til þess að varpa evrópskri sprengju? Forseti framkvæmdastjórnarinnar í Brussel, eða einn eða jafnvel allir leiðtogar aðildarríkjanna 27?“ spurði Kaim.

Hinn möguleikinn væri sá, að Frakkar, sem nú eru með þriðja stærsta kjarnorkuvopnabúr heimsins, myndu stíga upp og breiða „kjarnorkuregnhlíf“ sína yfir Evrópu alla. Slíkar hugmyndir þykja hins vegar langsóttar, þar sem Frakkar þyrftu þá að endurhugsa allt skipulag á kjarnorkuvopnaflota sínum og stækka vopnabúrið enn frekar.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari og Boris Pistorius varnarmálaráðherra hafa báðir sagt umræðuna ótímabæra og Pistorius sagði raunar að hún ætti ekki að eiga sér stað fyrir opnum tjöldum. Ljóst er hins vegar að spurningin um hvernig sinna eigi vörnum Evrópu ef Bandaríkjanna nýtur ekki við mun ekki hverfa á næstunni, sama hvernig forsetakosningarnar í nóvember fara.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson