Bóksala Prentaðar bækur aftur á uppleið eftir mögur síðustu ár.
Bóksala Prentaðar bækur aftur á uppleið eftir mögur síðustu ár. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is

Baksvið

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Bókaútgefendur og bóksalar eru sáttir við söluna á síðasta ári en þessa dagana er verið að leggja lokahönd á uppgjör jólabókaflóðsins. Útlit er fyrir að sala á prentuðum bókum hafi aukist á milli ára sem kemur nokkuð á óvart miðað við þróunina síðustu ár þegar mestur vöxtur hefur verið í hljóðbókum en þær prentuðu hafa frekar gefið eftir.

Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, greindi frá stöðu mála á aðalfundi félagsins á dögunum. Þar kom fram að þó ekki liggi fyrir endanlegar tölur séu vísbendingar um að söluaukning á prentuðum bókum nemi 2% frá 2022 til 2023.

„Barnabækur seldust í fleiri eintökum árið 2023 heldur en 2022 og freistandi er að draga þá ályktun að slakur árangur okkar sem birtist í niðurstöðum í PISA í byrjun desember 2023 og lífleg umræða í framhaldi af því hafi haft hér einhver áhrif. Þessa aukningu metum við svo að sé um 5% miðað við árið á undan,“ segir Heiðar Ingi.

Hann segir að það hafi hins vegar valdið vonbrigðum að sala á skáldverkum hafi dregist saman um 5% frá árinu á undan. „Samdrátturinn er jafn mikill eða svipaður hvort sem litið er á íslensk eða þýdd skáldverk miðað við árið 2022. Sala í flokknum óskáldað efni í fyrra jókst um 3% frá árinu á undan, þrátt fyrir umtalsvert minni útgáfu í þessum flokkum miðað við fyrri ár. Þetta er þó sá flokkur sem við teljum að hafi mest dregist saman í sölu undanfarin ár.“

Heildarveltan hefur aukist

Hann ítrekar að þessar niðurstöður byggi enn sem komið er aðeins á vísbendingum en ekki tölfræðilegum staðreyndum. Þessar vísbendingar séu þó mjög jákvæðar. Hagstofa Íslands tekur saman tölur um heildarveltu bókaútgáfunnar og birtir á tveggja mánaða fresti. Ekki liggja fyrir niðurstöður vegna nóvember og desember á síðasta ári, söluhæstu mánaðanna.

„Fyrstu tíu mánuði ársins er aukning á veltu á milli ára á öllum tímabilunum. Minnst er hún í júlí-október eða ríflega 8% en mest er hún í mars-júní eða 26%. Veltutölur jólavertíðarinnar fyrir nóvember og desember í fyrra liggja ekki fyrir og því erfitt að segja nokkuð til um það hvernig árið kemur út í heild sinni. En ef við gerum ráð fyrir að salan þessa síðustu tvo mánuði hafi verið sú sama og árið áður þá myndi heildaraukningin á síðasta ári mælast rétt tæp 9,6%,“ segir Heiðar Ingi.

Ingimar Jónsson forstjóri Pennans segir að bóksala hafi gengið ágætlega í verslunum Pennans/Eymundsson árið 2023. „Árið hjá okkur var bara ágætt. Mesti vöxturinn var reyndar í erlendum bókum,“ segir hann.

Barnabækur tóku við sér

Sala í flokknum íslenskar bækur jókst um tæp 5% en þar eru meðtaldar ferðamannabækur sem gefnar eru út af íslenskum útgefendum. Athygli vekur að hjá Pennanum/Eymundsson jókst sala á íslenskum skáldverkum á milli ára, þvert á vísbendingar Félags íslenskra bókaútgefenda. Jafnframt er athyglisvert að sala á kiljum heldur velli þar á bæ. Talsverð umræða hefur verið um samdrátt í kiljusölu á liðnum misserum en Ingimar upplýsir að heildarsala þeirra standi í stað á milli ára. Meira seldist af íslenskum kiljum árið 2023 en 2022 en sala á þýddum kiljum dróst á móti lítillega saman. Þá segir Ingimar að sala á barnabókum hafi verið á niðurleið framan af ári og heilt yfir hafi verið lítils háttar samdráttur í þeim flokki. „En salan tók vel við sér seint á árinu,“ segir Ingimar og tekur undir að umræða um niðurstöður PISA-könnunarinnar kunni að hafa sitt að segja um það.

Barnabækur tóku kipp

Viðsnúningur

Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, segir að viðsnúningur virðist hafa orðið í sölu á barnabókum eftir að fréttir birtust af lökum árangri íslenskra ungmenna í PISA-könnuninni. Salan hafði dregist saman frá fyrri hluta síðasta árs en tók kipp síðla árs. Þetta staðfesta sölutölur og upplýsingar frá starfsfólki bókaverslana.

„Það var fínt að PISA minnti okkur á það hlutverk allra foreldra að halda bókum að börnum. Rannsóknir sýna að lesskilningur og bókmenntaáhugi barna getur skipt máli fyrir velferð þeirra í lífinu. Barnabókaútgáfa hér er mjög öflug, bæði innlend og á þýðingum, og endurgreiðslan og barnabókasjóðurinn Auður hefur hleypt nýju lífi í hana. Næsta skref er að efla innkaup bókasafna, sérstaklega skólabókasafna. Bókasöfnin geta verið hryggjarsúla þess að halda bókum að börnum af erlendu bergi brotnum og þeim sem eru ekki með sterkan fjárhagslegan eða félagslegan bakgrunn.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon