Björn Bjarnason fæddist 20. mars 1951 í Reykjavík. Hann lést á líknardeild Landspítalans 23. maí 2023.

Foreldrar hans voru Bjarni Björnsson, f. 6.6. 1914, d. 17.3. 1977, og Ólöf Jónsdóttir, f. 24.11. 1913, d. 6.11. 2006. Bróðir Björns er Jón Bjarnason, f. 11.3. 1948.

Björn ólst upp í Laugarneshverfinu og síðar í Löngubrekku 17, Kópavogi, þar sem hann átti heima lengst af.

Björn kláraði gagnfræðaskóla verknáms og síðan bifreiðasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Hann starfaði við bílaviðgerðir og vélgæslu, sem sendibílstjóri og vaktmaður þar til hann veiktist.

Björn hafði áhuga á bátum og smíðaði sér hraðbátinn Tinna KÓ-17 og sinnti hann ýmsum verkefnum m.a. björgun og aðstoð við köfun.

Útför fór fram í kyrrþey 31. maí 2023.

Minning um góðan vin.

Einn af mínum bestu vinum lést 31. maí sl. og alltaf skal maður vera óundirbúinn. Björn Bjarnason, eða Bjössi, var tryggur vinur og skipti þá engu hvort við hittumst oft eða einhver tími leið á milli.

Við kynntumst á þeim árum þegar báðir voru í bíla(veseni)kaupum og keyrðum rúntinn á Reykjavík eins og vera ber. Ferðumst um landið „fyrir“ brúarsmíði yfir Skeiðará. Ókum bara sömu leið til baka. 1972 tókum við okkur til og ferðuðumst frá Danmörku til Ítalíu um mörg lönd á þremur vikum. Ef ég hafði áhyggjur af að við værum að villast sagði Bjössi bara, það liggja allar leiðir til Rómar, og þar við sat. Við komumst allt sem við stefndum á.

Eftir að ég giftist var hann tíður gestur hjá okkur hjónum og oft sátum við langt fram á nótt bara að blaðra um hitt og þetta, t.d. leystum við heimsmálin oft. Hann kom alltaf á aðfangadag með pakka fyrir strákana mína sem þeir kunnu svo sannarlega að meta.

Minning um þennan góða dreng hlýjar og ég er viss um að þar tala ég fyrir hönd allra sem þekktu hann. Við vorum báðir afar andlega þenkjandi og eftir að hann veiktist af parkinson fyrir nokkrum árum töluðum við mjög oft í síma og þá 2-3 tíma í einu. Auðvitað bar margt á góma en veikindin voru honum erfið, fannst hann ekkert geta lengur og það létti á að ræða málin.

Ég fyrir mína parta þakka guði fyrir að hafa eignast Bjössa sem vin, hann mun ætíð eiga pláss í mínu hjarta. Far í friði, minn kæri vinur.

Þinn vinur,

Guðmundur Gíslason (Addi).