Betri samgöngur hafa skilað miklum útgjöldum og verri samgöngum

Í liðinni viku fór fram í borgarstjórn umræða um stöðu samgöngusáttmálans svokallaða í tilefni af nýlegri skýrslu Betri samgangna ohf. Fyrir umræðunni stóð Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og þrír aðrir borgarfulltrúar þess flokks blönduðu sér í hana. Þar fyrir utan tók núverandi borgarstjóri, Einar Þorsteinsson, til máls en þegar hann hafði lokið máli sínu kvaddi sér einnig hljóðs fyrrverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, og taldi ljóslega að nokkuð vantaði upp á svör eftirmannsins sem þyrfti að bæta úr.

Það er út af fyrir sig áhugavert og ekki síst umhugsunarvert fyrir eftirmanninn, en um efnisatriði málsins var athyglisvert að fylgjast með þeirri talnaleikfimi sem borgarstjórinn fyrrverandi bauð borgarbúum upp á. Í máli hans kom meðal annars fram að Fossvogsbrú hefði ekki margfaldast í verði heldur „aðeins“ um það bil tvöfaldast. Var þar miðað við fyrsta boð í gerð brúarinnar og verðlagsuppbætur en ekki þær áætlanir sem gengið var út frá þegar verkefnið var samþykkt sem hluti af samgöngusáttmálanum fyrir nær fimm árum. Með slíkum aðferðum er í raun verið að segja að mat á kostnaði með hliðsjón af áætlunum hafi enga þýðingu og þar með að áætlanir hafi enga þýðingu. Er þá eins gott að sleppa því að gera kostnaðaráætlanir áður en ákveðið er að ráðast í framkvæmdir, þær verða hvort eð er að engu hafðar og skipta engu máli þegar verkefnið er metið á seinni stigum eða þegar afstaða er tekin til þess hvort halda skuli áfram með verkefnið.

Þeir sem hlýddu á umræðurnar hafa væntanlega furðað sig á að engin svör fengust við því í hvað þeir 3,4 milljarðar króna sem þegar hafa verið settir í borgarlínuna hafa farið. Þetta er lýsandi fyrir ábyrgðarleysið við samgöngusáttmálann, yfirstjórn borgarinnar hefur ekki hugmynd um hvernig fyrirbærið Betri samgöngur ohf. ver þeim fjármunum sem borgin ásamt öðrum dælir í það fyrirtæki. Og þar er ekki um lágar fjárhæðir að ræða, í fyrrnefndri skýrslu kemur fram að á fyrstu rúmu fjórum árum starfseminnar hafi ríkissjóður sett 13 milljarða í fyrirtækið og sveitarfélögin 5,5 milljarða, eða samtals 18,5 milljarða. Eins og borgarbúar og nærsveitamenn þekkja vel þá er árangurinn verri samgöngur á starfstíma þessa fyrirtækis og gildistíma samgöngusáttmálans. Umferð hefur þyngst mjög en ekki lést, sem kemur ekki á óvart þegar áhersla samgöngusáttmálans er að óhóflega stórum hluta á þá samgöngumáta sem almenningur nýtir sér lítið eða ekki en allt of lítið á þann samgöngumáta sem almenningur hefur helst valið sér, fjölskyldubílinn. Þannig má sjá að innan við helmingur þeirra fjármuna sem Betri samgöngur ohf. lögðu í framkvæmdir á fyrstu fjóru árunum fóru í stofnvegi, eða 6,2 milljarðar, á sama tíma og 3,4 milljarðar fóru í borgarlínu sem engu hefur skilað og yfirstjórn borgarinnar er eins og fyrr segir ókunnugt um hvernig var varið.

Í ræðu málshefjanda var sláandi upptalning á sleifarlaginu í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins undir formerkjum samgöngusáttmálans. Hver stór framkvæmdin á fætur annarri hefur tafist árum saman og er ekki enn orðin að veruleika. Þar fyrir utan er ekki enn búið að taka stórar ákvarðanir, svo sem um Miklubrautarstokk eða -göng sem er marglofað úr kosningum en hefur reynst óraunhæft, jafnvel í samhengi samgöngusáttmálans með borgarlínu í aðalhlutverki. Þá er allt óvíst um Sundabraut, hvar hún á að vera eða hvernig á að leggja hana. Þar er um að ræða framkvæmd sem myndi skila miklum samgöngubótum fyrir höfuðborgarsvæðið allt og nágrenni þess en á sama tíma er ætlunin að ana áfram með brú fyrir fáa – og ekki einu sinni bílaumferð – yfir Fossvoginn fyrir í það minnsta níu milljarða króna en líklega mun hærri fjárhæð. Þá fjármuni mætti setja í að hefjast handa við Sundabraut, en því miður er enginn merkjanlegur áhugi á þeirri framkvæmd, ólíkt „krúnudjásni borgarlínunnar“, sem mun vera það heiti sem Betri samgöngur ohf. hafa valið þeirri montframkvæmd, eins og málshefjandi benti á í umræðunum í borgarstjórn.

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi fjallaði um það sem sjaldan er rætt í borgarstjórn, en það er að það er almenningur, skattgreiðendur, sem fær reikninginn fyrir óráðsíunni. Þess vegna þurfi við endurmat samgöngusáttmálans að taka til athugunar hvort þörf sé á Fossvogsbrú eða til dæmis Sæbrautarstokki, sem hefur nífaldast í 27 milljarða frá fyrstu áætlunum, en er enn á dagskrá.

Vitaskuld hlýtur endurmat að fela í sér að slíkar framkvæmdir séu raunverulega endurmetnar. Það getur ekki verið jafn hagkvæmt að gera Sæbrautarstokk fyrir 27 milljarða eins og fyrir þrjá milljarða. Sama gildir um Fossvogsbrúna. Hún var eflaust aldrei hagkvæm en er víðs fjarri því í dag. Segja má að það veki ákveðnar vonir að innviðaráðherra hafi sagt frá því að hann hafi óskað eftir því að framúrkeyrsla Fossvogsbrúar yrði skoðuð í ráðuneytinu, og sömuleiðis að núverandi borgarstjóri hafi í umræðunum sagst hafa „hrokkið dálítið við“ þegar tölurnar um brúna Öldu fóru að koma í ljós. En það er ekki nóg að skoða eða hrökkva við; stundum þarf að lyfta sér upp úr hjólförunum og taka nýja stefnu þegar sú sem maður er á leiðir mann bersýnilega út í ógöngur.