Stuldur Málverk Van Goghs er komið í leitirnar og verður brátt til sýnis.
Stuldur Málverk Van Goghs er komið í leitirnar og verður brátt til sýnis.
Málverk eftir Vincent van Gogh sem kom í leitirnar síðasta haust eftir að því hafði verið stolið árið 2020 verður loks til sýnis á ný. Verkið sem um ræðir, „De pastorie in Nuenen in het voorjaar“ eða „Prestssetursgarðurinn í Nuenen að vori“ frá…

Málverk eftir Vincent van Gogh sem kom í leitirnar síðasta haust eftir að því hafði verið stolið árið 2020 verður loks til sýnis á ný. Verkið sem um ræðir, „De pastorie in Nuenen in het voorjaar“ eða „Prestssetursgarðurinn í Nuenen að vori“ frá 1884, verður til sýnis á Groninger-safninu í Hollandi frá 29. mars.

Verkinu var, samkvæmt frétt ARTnews, stolið frá Singer Laren-safninu í Hollandi í innbroti 30. mars 2020 og var lengi vel týnt þrátt fyrir að ræningjarnir hefðu náðst og væru bak við lás og slá. Arthur Brand, þekktur myndlistarspæjari, fékk verkið í hendurnar síðla árs 2023 eftir að óþekktur maður bankaði á dyrnar á heimili hans og rétti honum stóran IKEA-poka. Hinn ókunnugi hljóp síðan á brott. Fundur mannanna hafði verið skipulagður fyrir fram og lögreglu gert viðvart. Brand birti í kjölfarið myndband þar sem hann opnar pokann. Þar leyndist verkið og Brand segir: „Þetta er hann. Vincent van Gogh er kominn aftur. Þvílíkur dagur.“ Verkið er sagt skarta djúpri rispu eftir meðferð ræningjanna.