Atvinnuhúsnæði Alls bjuggu 27 manns á áfangaheimilinu Betra lífi þar sem eldur kom upp 17. febrúar í fyrra.
Atvinnuhúsnæði Alls bjuggu 27 manns á áfangaheimilinu Betra lífi þar sem eldur kom upp 17. febrúar í fyrra. — Morgunblaðið/Eggert
Atli Steinn Guðmundsson atlisteinn@mbl.is Árið 2022 var áætlað að alls 2.474 einstaklingar samtals byggju í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Árnessýslu og Akureyri og nærsveitum. Kemur þetta fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni þingmanni Pírata sem lagt var fram á Alþingi á þriðjudaginn.

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Árið 2022 var áætlað að alls 2.474 einstaklingar samtals byggju í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Árnessýslu og Akureyri og nærsveitum. Kemur þetta fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni þingmanni Pírata sem lagt var fram á Alþingi á þriðjudaginn.

Í nóvember lagði innviðaráðherra fram frumvarp um breytingar á nokkrum lögum með það fyrir augum að efla brunavarnir og öryggi fólks sem býr í atvinnuhúsnæði. Varð frumvarp þetta að lögum í desember.

„Þessar breytingar komu inn í lög um brunavarnir á síðasta degi þingsins fyrir jól,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, við Morgunblaðið og segir lagabreytinguna hafa veitt slökkviliði aukna möguleika á að glíma við búsetu fólks í atvinnuhúsnæði með tilliti til brunavarna.

Umfangsmikil verkefni

„Núna er meðal annars hægt að skrá búsetu í atvinnuhúsnæði þannig að við getum þá fengið upplýsingar frá Þjóðskrá um hvort búið sé í viðkomandi húsi og þegar fram líða stundir ætti að verða til ágætisgagnagrunnur sem tengist þá beint inn á Neyðarlínuna og við fáum þá upplýsingar um, þegar við förum í verkefni, hvort búið sé í viðkomandi húsnæði eða ekki,“ útskýrir slökkviliðsstjóri.

Segir hann hafa fjölgað í slökkviliðinu og aukamannskapur verið fenginn inn fyrir áramót til að fara í eftirlit á þessum vettvangi af krafti. „Þetta eru umfangsmikil verkefni og oft flókin af því að húsin eru hönnuð fyrir aðra notkun og þá þarf að taka tillit til margra hluta, til dæmis þess að um tvær óháðar flóttaleiðir sé að ræða og viðvörunarkerfi. Þetta er eitthvað sem við erum að fara í núna síðan lögunum var breytt,“ segir Jón Viðar.

Aðra breytingu segir hann snúa að eftirliti með húsnæði sem hannað hafi verið sem íbúðarhúsnæði en svo breytt á þann veg, oft með umfangsmiklum aðgerðum, að hreinlega sé um gistiheimili að ræða.

„Við höfum ekki haft heimild til að fara inn í íbúðarhúsnæði. Við létum reyna á það í gildistíð gömlu laganna og okkur var hafnað en nú voru gerðar þær breytingar að sé það mat slökkviliðsstjóra að [íbúðarhúsnæði] sé hættulegt er hægt að fara tvær leiðir. Meginleiðin er sú að fá úrskurð dómara sem hefur þá tvo sólarhringa til að úrskurða um hvort við megum fara inn,“ segir Jón Viðar.

Sé mál hins vegar þannig vaxið að úrbætur þoli enga bið geti slökkvilið nú farið inn í íbúðarhúsnæði án úrskurðar. „Þetta eru svona stóru breytingarnar sem gerðar voru í kringum þetta verkefni,“ segir hann enn fremur.

Ráðandi hópur erlendur

Hann segir aukna eftirspurn gera það að verkum að búseta fólks í húsnæði skráðu sem atvinnuhúsnæði hafi færst í vöxt. „Það er bara eftirspurnin sem ræður og þá er það ekkert endilega fólk af erlendu bergi brotið, það er blandað bara, en ráðandi hópurinn þar er erlendur,“ segir Jón Viðar.

Enn fremur spurði þingmaðurinn um fjölda þeirra tilvika frá árinu 2010 er bruni hefði orðið í iðnaðarhúsnæði sem búið var í og svaraði ráðherra því til – með fyrirvara um að eingöngu væru tekin með tilvik sem staðfesta mætti með gögnum – að þau væru 41.

Voru öll tilvikin á höfuðborgarsvæðinu, 27 í Reykjavík og sjö í Hafnarfirði og Kópavogi, hvoru bæjarfélagi um sig. Í Reykjavík voru brunarnir flestir árin 2012, 2016 og 2023, fjórir brunar hvert ár.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson