Brjóstmyndir Listaverk Musée de l'Homme þar sem hluta af brjóstmyndasafni þess var raðað upp á misháa stalla. Hér má meðal annars sjá myndir af Truganini, Asnath Eleonoru Elisabeth og Bjarna Johnsen.
Brjóstmyndir Listaverk Musée de l'Homme þar sem hluta af brjóstmyndasafni þess var raðað upp á misháa stalla. Hér má meðal annars sjá myndir af Truganini, Asnath Eleonoru Elisabeth og Bjarna Johnsen. — Ljósmynd/Kristín Loftsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Söfnin þrjú Öll þessi söfn sem hér hefur verið minnst á hafa tekið miklum breytingum frá stofnun þeirra. Kanarísafnið hefur á síðari árum lagt aukna áherslu á efnismenningu frumbyggja Kanarí og í hljóðleiðsögn um Verneau herbergið þegar ég fór…

Söfnin þrjú

Öll þessi söfn sem hér hefur verið minnst á hafa tekið miklum breytingum frá stofnun þeirra. Kanarísafnið hefur á síðari árum lagt aukna áherslu á efnismenningu frumbyggja Kanarí og í hljóðleiðsögn um Verneau herbergið þegar ég fór þangað árið 2019 var tekið fram að það byggi á úreltum kynþáttavísindum. Aðstaða safnsins í ráðhúsinu varð fljótlega of þröng og var safnið flutt þaðan árið 1923 yfir á heimili Chil y Naranjo, sem ánafnaði safninu húsið eftir dauða sinn. Safnið enduropnaði þar árið 1930 en önnur nærliggjandi hús voru einnig tekin undir safnið til þess að hýsa safnkost þess. Safnið í Madrid hefur verið stækkað og húsnæðið mótað til þess að svara þörfum safns í dag með fjölbreyttum og breytilegum sýningum, þrátt fyrir að eitt sýningarrýmið sé notað til að gefa innsýn í fortíð safnsins. Þessi tvö söfn innan spænska ríkisins eiga það sameiginlegt að í tveimur herbergjum þessa nútímalegu safna er næstum eins og gengið sé aftur í tímann. Í Verneau herberginu er framsetningin svipuð og var í einum meginsal Kanarísafnsins, þar sem röð hauskúpa skapar umgerð um gifshöfuðin og vekur upp spurningar um tilgang þeirra, sem og tilfinningu fyrir nálægð við fortíðina. Mannfræðisafnið í Madrid hefur hins vegar stillt upp ákveðnum brjóstmyndum og „risanum“, sem gerði safnið svo frægt á sínum tíma, í einu herbergi árið 2021 þar sem gestir sjá upphaf safnsins sem hluta af sögu kynþáttavísinda í Evrópu.

Musée d'Ethnographie du Trocadéro er ekki til lengur í upprunalegri mynd. Mannfræðingurinn Paul Rivet tók við safninu árið 1928 og ákvað að leggja það niður. Þegar hér var komið sögu var mannfræðin orðin sérstakt fræðasvið sem byggði á ákveðnum kenningum og aðferðafræði. Hún hafði breyst mikið frá fyrri tíma en kannski var það mikilvægasta sem stóð eftir af mannfræði nítjándu aldar áhuginn á að skoða merkingu þess að vera manneskja frá breiðu sjónarhorni. Nafn safnsins vísar í slíka áherslu, þrátt fyrir að vera vissulega karllægt.

Í staðinn fyrir furðustofuna Trocadéro vildi Rivet búa til þverfaglegt safn úr safnkostinum sem næði utan um allan fjölbreytileika manneskjunnar. Safnkostur Musée de l'Homme var það sem áður hafði tilheyrt Trocadéro, en einnig fékk hið endurbætta safn muni frá Muséum National d'Histoire Naturelle. Löngu síðar var safnkosti Musée de l'Homme reyndar skipt upp í listmuni og nytjamuni sem hefur vakið upp erfiðar spurningar um hlutverk safna og hvernig eigi að flokka og skilgreina muni sem koma frá samfélögum utan Evrópu, en inn á það verður ekki komið hér.

Árið 1937 þegar Musée de l'Homme var formlega stofnað leitaðist safnið við að segja róttæka og framsækna sögu, sögu sem gekk í raun þvert á þær hugmyndir sem þá voru hátt á lofti í Evrópu og áttu eftir að valda miklum skaða og hryllingi. Nasismi var í sókn og seinni heimsstyrjöldin á næsta leyti. Rivet taldi að markmið safnsins ætti að vera að sýna almenningi og öðrum að menning væri alls staðar jöfn og hið sama ætti við um ólíka kynþætti. Musée de l'Homme varð mikilvægur vettvangur til að móta og kynna rannsóknir sem töluðu gegn kynþáttahyggju þess tíma, sem var þá í algleymi í Evrópu. Kynþáttahyggjan byggði á sterkri útlendingaandúð og áherslu á hreinleika kynþátta. Þegar seinna stríðið braust út var safnið með margvíslegum hætti mikilvægt í andspyrnuhreyfingunni meðan á hernámi Frakklands stóð, þar sem lykilstarfsmenn safnsins voru virkir í andspyrnu gegn nasisma. Undir lok stríðsins þurfti Rivet þó að flýja land og nokkrir starfsmenn safnsins voru handteknir og líflátnir eða sendir í fangabúðir. Rivet hafði stofnað tímarit árið 1937 til að berjast á móti kynþáttafordómum og reyndi fyrir stríð að ráða til safnsins gyðinga og fólk frá Austur-Evrópu sem hafði orðið fyrir fordómum. Á því tímabili voru kynþáttafordómar vel að merkja alls ekki eitthvað sem einkenndi nasista sérstaklega heldur miklu frekar hluti af hversdagslegri þekkingu og sýn fólks í Evrópu, eins og kemur fram í þessari bók.

Þrátt fyrir að safnið hafi tekið afdráttarlausa afstöðu gegn kynþáttafordómum hefur verið bent á að það setti ekki spurningarmerki við nýlendu- og heimsvaldastefnu Frakklands, sem þó var mikilvæg ástæða fyrir stofnun þess. Trúin á framgang og hlutleysi vísinda var sterk og þrátt fyrir að gagnrýna kynþáttahyggju og þróunarhugmyndir sá þetta fræðafólk ekki þetta samhengi sem vinna þeirra átti sér stað í. Á þeim tíma sem safnið var stofnað var ný kynslóð mannfræðinga að stíga fram í Frakklandi undir handleiðslu Rivets og annars mjög þekkts fræðimanns, Marcel Mauss, en hún var knúin áfram af hugsjónum sem snérust meðal annars um að vinna á móti fordómum. Sagnfræðingurinn Alice Conklin bendir á að það hafi því ekki verið tilviljun að mjög margt af þessu unga fólki lét lífið í seinni heimsstyrjöldinni.

Eins og mörg önnur söfn byggir Musée de l'Homme á margþættri sögu sem flækist oft fyrir. Þegar stjörnufræðingurinn Carl Sagan heimsótti safnið á áttunda áratug tuttugustu aldar fór hann inn fyrir sýningarsalinn þar sem finna má geymslur og ýmis önnur rými fyrir innra starf safnsins. Hann lýsti því sem hann sá þar sem óreglulegu samansafni alls konar hluta. Hlutirnir, sagði hann, virtust ekki vera hlutir sem voru varðveittir vegna þess að þeir voru áhugaverðir heldur vegna þess að þeir hefðu einhvern tímann þótt áhugaverðir. Þetta minnir óneitanlega á furðustofurnar sem misstu mikilvægi sitt og merkingu með tímanum. Þegar Carl Sagan fór enn lengra í geymslurnar baksviðs sá hann krukkur í hillu með höfðum einstaklinga varðveittum í formalíni, höfðum sem þóttu væntanlega einhvern tímann mikilvæg fyrir framþróun vísinda. Maður með yfirvaraskegg, þrjú lítil barnshöfuð saman í einni krukku og höfuð lítillar stúlku, mögulega enn með eyrnalokkana sína og hálsfesti. Hvað skyldu skipverjar landkönnuðaskipanna hafa hugsað, velti Sagan fyrir sér, þegar þeir komu þessum líkamsleifum afhöfðaðra einstaklinga fyrir með öðrum farmi og fluttu til Parísar? Stóð þeim á sama vegna þess að í flestum tilfellum var um að ræða dökka einstaklinga frá fjarlægum þjóðfélögum sem þeir litu á sem gjörólíka sjálfum sér? Vísindasagnfræðingurinn og vinur Sagans, Stephen Jay Gould, heimsótti einnig geymslurnar í Musée de l'Homme. Þar sá hann meðal annars heilann úr Broca í krukku, ásamt fleiri krukkum sem geymdu heila manna sem þóttu á sínum tíma hafa verið merkir vísindamenn og áttu það einnig sammerkt að vera hvítir karlmenn. Þar sá hann einnig – einni hillu ofar – krukku með kynfærum Baartmans, ásamt kynfærum tveggja annarra kvenna sem einnig komu frá slóðum fjarlægum Frakklandi. Gould benti á að hlutirnir fyrir framan hann, í þessu litla rými á afviknum stað á safninu, kölluðu í raun fram ákveðinn kjarna í sögu kynþáttafordóma og vísindahugsunar nítjándu aldar. Hvergi mátti finna heila úr konum í þessu safni líkamshluta og því síður kynfæri hvítra karla.