Sigurgeir Njarðar Kristjánsson fæddist í Höfða í Ytri-Njarðvík 20. júní 1937. Hann lést á Hrafnistu Hlévangi 28. janúar 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Guðmundína Ingvarsdóttir, f. 21. ágúst 1909, d. 11. september 2005, og Kristján Árni Guðmundsson, f. 7. júlí 1906, d. 1 júlí 1977.

Systkini Sigurgeirs: Kristjana Sjöfn, f. 1932, d. 1933, Ólafur Ingvi, f. 1933, d. 2024, Sjöfn, f. 1934, Guðmundur Garðar, f. 1935, d. 1972, Eygló, f. 1942, d. 1996, Kristján, f. 1946, d. 2011, Edda, f. 1951, Viðar, f. 1956.

Hinn 20. júlí 1963 kvæntist Sigurgeir Pálínu Gísladóttur, f. 19. júní 1938. Foreldrar hennar voru Sigurrós Scheving Hallgrímsdóttir, f. 17. júlí 1908, d. 3. mars 1983, og Gísli Guðmundsson, f. 20. mars 1903, d. 10. janúar 1983.

Dóttir Sigurgeirs og Pálínu er Linda, f. 1966. Eiginmaður hennar er Ármann Jóhannsson. Dætur þeirra eru Íris Björk og Eydís Rós og þau eiga tvö barnabörn.

Fyrir átti Sigurgeir Birnu Borg, f. 1956, móðir hennar var Íshildur Þrá Einarsdóttir Söring. Börn Birnu eru Kristín, Klara, Sigurður og Ómar Guðbrandsbörn. Birna á tíu barnabörn og eitt barnabarnabarn.

Sigurgeir og Pálína hófu búskap í Njarðvík en fluttu 1968 í Hafnarfjörð, þar sem þau bjuggu til 1979 er þau fluttu aftur til Njarðvíkur. Þau fluttu aftur til Hafnarfjarðar 2011 og bjuggu þar til 2020, er þau komu enn aftur til Njarðvíkur.

Sigurgeir hóf störf hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli 1953 og starfaði fyrst á vörulager og við smíðar til 1958, er hann hóf nám í húsgagnasmíði. Lauk hann sveinsprófi 1962 og starfaði þá við smíðar hjá Varnarliðinu til 1965 er hann hóf störf hjá Slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli og flugþjónustudeild þess þar til hann fór á eftirlaun.

Útför Sigurgeirs Njarðars fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 19. febrúar 2024, klukkan 13.

Elsku afi. Nú ert þú farinn frá okkur en eftir sitja ótal minningar, minningar sem eru okkur systrum afar kærar. Við systurnar eigum það sameiginlegt að okkar fyrstu minningar um þig eru frá því þegar þið amma bjugguð á Holtsgötunni. Þú varst oft að vinna að einhverju sniðugu í bílskúrnum en svo komstu upp í kaffi. Það er okkur systrum báðum afar minnisstætt þegar þú kenndir okkur að dýfa matarkexi í kaffi. Auðvitað drukkum við ekki kaffið, en lungamjúkt matarkexið átum við upp til agna.

Gjafmildi þín er minnisstæð, okkur mátti aldrei vanta neitt og oftar en ekki laumaðir þú að okkur smá aur þegar við vorum í heimsókn. Það var akkúrat þannig sem þú orðaðir það, „smá aur“, þó það hafi yfirleitt verið um að minnsta kosti 5.000 kr. að ræða sem okkur þótti vera miklu meira en „smá aur“. Okkur þótti líka alltaf gaman þegar þið amma komuð frá útlöndum en þá leyndist ávallt eitthvað í töskunum handa okkur, hvort sem það voru föt, skór eða nammi úr Fríhöfninni.

Þú varst líka lúmskur stríðnispúki og þótti þér gaman að stríða okkur systrum með því að Njarðvík væri miklu betri í körfu en Keflavík. Þá skein í gegn Njarðvíkingurinn í þér og Keflvíkingurinn í okkur systrum, sérstaklega þegar við æfðum stoltar körfu með Keflavík. Þú sóttir okkur stundum á æfingar og það er okkur sérlega minnisstætt að oftar en ekki var slökkt á útvarpinu í bílnum og þú raulandi lag í staðinn. Okkur þótti það ansi fyndið þá en í dag er það kær minning.

Snyrtimennska þín var alltaf til fyrirmyndar. Við eigum ófáar minningar af kvöldverðum um helgar þar sem grillað lambalæri var á borðum og ís í eftirrétt, helst með íssósu og ískexi. Það er okkur báðum minnisstætt að þú dróst ávallt fram spariskóna og jafnvel jakkafatavesti á slíkum kvöldum, og voru skórnir að sjálfsögðu stífpússaðir.

Minningarnar eru svo sannarlega dýrmætar, allar minningarnar úr hjólhýsinu ykkar ömmu í Vaðnesinu, Spánarferðirnar með ykkur og ferðalögin en líka allar hversdagsstundirnar. Það var gaman að koma til ykkar í hjólhýsið. Alltaf varst þú að dytta að lóðinni, smíða eitthvað, þvo bílinn og gera fínt, en þú gafst þér líka tíma til þess að pútta á túninu og taka leik með okkur. Það má ekki gleyma hversdagsstundunum, augnablikum sem voru kannski ómerkileg meðan á þeim stóð, sem við þó hugsum hlýtt til í dag. Svo sem að fara í heimsókn til ykkar, koma í pössun, fikta aðeins í hljómborðinu hjá þér og borða saman pönnsur sem amma hafði skellt í.

Við systurnar vorum báðar svo lánsamar að eignast okkar fyrstu börn í lok síðasta árs með nokkurra daga millibili. Við vildum óska þess að þú hefðir hitt krílin okkar og fengið að sjá langafabörnin þín vaxa og dafna. Við trúum því að þú fylgist með okkur, við munum hugsa hlýtt til þín og segja krílunum okkar sögur af langafa sínum. Við söknum þín, elsku afi. Hvíldu í friði.

Þínar afastelpur,

Íris Björk og Eydís Rós.

Til bróður míns Sigurgeirs Njarðar Kristjánssonar sem genginn er á braut 86 ára gamall. Ég læt hugann reika aftur til 1959, ég 3 ára og Geiri 22 ára að koma frá Álaborg, hann hafði fært mér bláan bolla með gylltri rönd og brúnar stuttbuxur með axlaböndum úr Moleskinni. Þetta voru fyrstu minningarnar sem ég átti af stóra bróður. Þegar ég hugsa til baka kom stíllinn, fagurkerinn í Geira, fram. Stundir okkar urðu fleiri, hann kenndi mér að keyra bíl, þá var ég átta ára, og naut þess að leiðbeina mér. Kenndi mér réttu aðferðina við að hnýta öngul á línu og veiðar í vatni. Það var ekkert aldursbil á milli okkar, þannig var það alla tíð. Það voru allir jafningjar hjá Geira.

Ég minnist fjölskyldudagana hjá Slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli, ferðalaga með starfsfélögum hans, þar sem ég fékk oft að fljóta með, einnig þegar mér leiddist á sunnudögum, þá var hringt upp á stöð og spurt hvort ég mætti koma í heimsókn, það stóð aldrei á svari; komdu bróðir. Mikið leit maður upp til hans, stórglæsilegur og bar einkennisbúninginn vel, ávallt snyrtilegur til fara svo af bar. Heima fyrir var allt fágað og fínt og alltaf verið að breyta og bæta, þetta var Geiri. Bílarnir hans alltaf hreinir og stífbónaðir með Mjallarbóni frá Frigg. Vandvirkur, orðgætinn og kom eins fram við alla, ekkert aldursbil, hvorki á vinnustað né heima fyrir. Ég var svo heppinn að þó svo að skilið hafi á milli okkar 19 ár vorum við jafningjar.

Geiri hafði beðið mig að aðstoða sig við að innrétta Kjarrmóa 19. Ég kveið svolítið fyrir því í fyrstu, því ég vissi að Geiri var vandvirkur og góður smiður, en það voru óþarfa áhyggjur, því strax lét hann mig leiða verkið. Þessi tími sem við áttum saman var mér dýrmætur. Alltaf þegar minnst var á Geira þá kom Palla á eftir. Geiri og Palla voru samrýnd hjón alla tíð. Fagurkerar í öllu og höfðingjar heim að sækja.

Það hefur verið mér erfitt að sjá fyrirmynd minni hraka ár frá ári af völdum Parkinsonsjúkdómsins. Þó svo að heilinn hafi starfað eðlilega og minnið verið gott fram á síðasta dag hrakaði líkamanum hratt eftir að hann fékk greiningu árið 2018. Þetta er erfiður sjúkdómur og hlífir fáum sem hann fá, hann er ólæknanlegur. En þessi sjúkdómur var búinn að marka sín spor löngu áður. Ljóst var að Geiri var búinn að bera þennan sjúkdóm í mörg ár. En lífið er oft einkennilegt, mikil tengsl eru á milli bræðra, nú er ég kominn með þennan skaðvald Parkinsonsjúkdóminn hryllilega. Ég ætla að halda honum sem lengst í skefjum með æfingum og réttri lyfjagjöf ásamt jákvæðu hugarfari, en Geiri fékk of seint greiningu og því fór sem fór.

Ég mun minnast hans sem stórs persónuleika, snyrtimennis og fagurkera og ekki síst sem góðs bróður. Elsku Palla, Linda, Birna Borg og fjölskyldur, megi góður guð styrkja ykkur og varðveita. Við skulum geyma í hjarta okkar allar þær fallegu minningar sem við eigum um Sigurgeir Njarðar. Þakka fyrir samfylgdina, kæri bróðir, og sjáumst síðar.

Viðar Kristjánsson.

Kæri frændi. Böndin bresta og allt tekur enda um síðir. Ég kveð þig með söknuði og þakklátur fyrir góð kynni og hlýlegar minningar úr bernsku.

Mikill er sá maður sem ekki glatar barnshjarta sínu, og eru það eru orð að sönnu þegar ég minnist Sigurgeirs frænda míns. Í minningunni sé ég fyrir mér kraftalega vaxinn mann sem talaði hátt og hló á meðan hann grínaðist í okkur krökkunum í fjölskylduboðum hjá Höfðafjölskyldunni.

Geiri, eins og hann var ávallt kallaður, og Palla konan hans bjuggu á fallegu heimili á Holtsgötunni í Njarðvík þar sem allt var upp á 10 og snyrtimennskan í fyrirrúmi en þangað sótti ég mikið sem barn, bankaði upp á og sníkti kex og/eða nammi. Á þessu fallega heimili var bakgarðurinn gróðri vaxinn og styttan af sólúrinu merkileg sjón fyrir ungan dreng.

Garðurinn hjá Geira og Pöllu var mér einnig oft felustaður þegar við krakkarnir í hverfinu vorum úti í feluleikjum á kvöldin, verandi við eina af lífæðargötum Ytri-Njarðvíkur og túnið þar fyrir framan oftar en ekki leiksvæðið okkar.

Geiri starfaði lengst af í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli og fannst mér það með eindæmum merkilegt að Geiri frændi starfaði þar og gaukaði hann nokkrum sinnum að mér gömlum merkjum af einkennisbúningnum sínum sem ég svo notaði í grímubúning sem slökkviliðsmaður á öskudaginn.

Síðasta skipti sem ég hitti hann var síðastliðið sumar, en þar hitti ég hann fyrir tilviljun á dvalarheimilinu Hlévangi. Þau samskipti þykir mér mjög vænt um en þar skiptumst við á nokkrum orðum og þegar ég gaf mig á tal við hann mundi hann vel eftir mér þó svo að sjúkdómurinn hafi vel verið farinn að segja til sín.

Ég hugsa með hlýhug til Geira frænda sem alltaf reyndist mér góður frændi sem ég leit mikið upp til sem barn. Ég votta Pöllu, börnum, barnabörnum og mökum þeirra mína dýpstu samúð.

Bjarki Már Viðarsson.

Í dag er borinn til grafar vinur minn og frændi Sigurgeir Kristjánsson frá Höfða Njarðvík.

Það má segja að ég hafi kynnst Sigurgeir, eða Geira eins og hann var kallaður af okkur félögunum, af alvöru er ég hóf störf í Slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli þegar herinn var og hét, ég réð mig til vinnu hjá flugvallarþjónustudeild varnarliðsins og byrjaði mitt starf undir hans verkstjórn.

Geiri var mjög ákveðinn maður og frábær verkstjóri, hann vildi öllum vel en vildi líka hafa góðan aga á mannskap og hlutina í lagi og báru öll tæki og aðbúnaður vinnustaðarins þess merki, þau voru ávallt hrein og í lagi, honum var alltaf mikið í mun að öryggisreglur vinnustaðarins væru virtar.

Sigurgeir var mjög orðheppinn maður sem sá alltaf björtu hliðarnar á öllu, ég man t.d. eftir því eitt árið er ég var að selja Kananum bíla að erfitt var stundum um vik fyrir mig að svara í síma vegna vinnu minnar þannig að ég setti bara aukanúmer á auglýsinguna, en það var skrifstofunúmer frænda sem ég titlaði í auglýsingunni á góðri ísl-ensku Mr. Kriss, aðstoðarmaður bílasala. Nú, einn daginn gerist það að hringt er í skrifstofusímanúmer Sigurgeirs og hann spurður út í vissan bíl sem ég var að selja. Karlgreyið kom algjörlega af fjöllum og kannaðist ekki við neitt nema að þá spyr Kaninn í símanum Sigurgeir hvort hann vissi hver Sjonni Boss væri og hvort hann væri ekki í vinnu. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um framhaldið nema að mínum ferli hjá Varnarliðinu sem bílasala notaðra bíla lauk þann dag.

Það gerðist svo margt á þessum frábæra vinnustað okkar frænda að einfalt væri að skrifa um það góða bók eins og endurminningar af samheldnum hópi manna með góðmennsku og traust að leiðarljósi, nokkuð sem ég er afar þakklátur að hafa verið aðnjótandi þessi ár hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Kæri frændi, með söknuði en jafnframt þakklæti fyrir allt kveð ég þig.

Aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð og megi góður guð verma minningu Sigurgeirs Kristjánssonar.

Sigurjón
Hafsteinsson.