[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sveinn Aron Guðjohnsen var á skotskónum hjá Hansa Rostock þegar liðið gerði jafntefli við Hamburg, 2:2, á heimavelli í þýsku B-deildinni í knattspyrnu á laugardag. Var þetta fyrsta mark Sveins fyrir liðið í hans þriðja leik og fyrsta byrjunarliðsleik

Sveinn Aron Guðjohnsen var á skotskónum hjá Hansa Rostock þegar liðið gerði jafntefli við Hamburg, 2:2, á heimavelli í þýsku B-deildinni í knattspyrnu á laugardag. Var þetta fyrsta mark Sveins fyrir liðið í hans þriðja leik og fyrsta byrjunarliðsleik. Lék hann allan leikinn. Hansa er í harðri fallbaráttu og er sem stendur í 16. sæti af 18 liðum með 22 stig.

Teitur Örn Einarsson átti góðan leik fyrir Flensburg þegar liðið lagði Rhein-Neckar Löwen örugglega að velli, 35:26, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Teitur skoraði sex mörk og gaf tvær stoðsendingar og var markahæstur hjá Flensburg. Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað hjá Löwen. Flensburg er í 3. sæti deildarinnar með 32 stig og Löwen í 10. sæti með 18 stig.

Orri Gunnarsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, lék vel fyrir Swans Gmunden þegar liðið hafði betur gegn Graz USBC, 94:77, í austurrísku úrvalsdeildinni á laugardag. Orri var þriðji stigahæstur í liði Swans með 15 stig, tvö fráköst og fjórar stoðsendingar á tæpum 27 mínútum. Swans hafnaði í öðru sæti deildarinnar og er því með heimavallarrétt í úrslitakeppni sex efstu liðanna um austurríska meistaratitilinn.

Stiven Tobar Valencia, landsliðsmaður í handknattleik, var jafn markahæstur þegar lið hans Benfica hrósaði sigri gegn Porto, 28:27, í portúgölsku 1. deildinni í gær. Stiven skoraði sex mörk í leiknum líkt og tveir leikmenn Porto. Benfica er í 3. sæti deildarinnar.

Jón Daði Böðvarsson bjargaði stigi fyrir Bolton Wanderers í jafntefli gegn Charlton Athletic, 3:3, í ensku C-deildinni í knattspyrnu á laugardag. Jón Daði kom inn á sem varamaður í hálfleik og jafnaði metin í 3:3 á 71. mínútu. Bolton er í 3. sæti C-deildarinnar í harðri baráttu um að komast beint upp í B-deild, sem tvö efstu liðin gera.

Hilmar Pétursson, landsliðsmaður í körfuknattleik, átti góðan leik fyrir Münster þegar liðið hafði betur gegn Bochum, 90:83, í þýsku B-deildinni á laugardag. Hilmar skoraði 17 stig, tók fjögur fráköst og gaf þrjár stoðsendingar á 23 mínútum. Münster er í 8. sæti deildarinnar, síðasta sætinu fyrir umspil um laust sæti í úrvalsdeild.

Kolbeinn Þórðarson reyndist hetja Gautaborgar þegar úrvalsdeildarliðið lenti í stökustu vandræðum með C-deildarlið United Nordic í 1. umferð 4. riðils sænsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í gær. Kolbeinn lék allan leikinn og tryggði Gautaborg dramatískan 4:3-sigur með marki á fimmtu mínútu uppbótartíma. Markvörðurinn Adam Ingi Benediktsson var ekki í leikmannahópi Gautaborgar.

Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handknattleik, átti stórleik fyrir Magdeburg þegar liðið tapaði óvænt fyrir Hannover-Burgdorf, 28:27, í þýsku 1. deildinni í gær. Ómar Ingi skoraði sjö mörk og gaf auk þess sjö stoðsendingar. Janus Daði Smárason og Gísli Þorgeir Kristjánsson komust ekki á blað hjá Magdeburg en Janus Daði gaf eina stoðsendingu. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf. Magdeburg er í 2. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Füchse Berlín.

Andri Lucas Guðjohnsen skoraði fyrra mark Íslendingaliðs Lyngby þegar það tapaði 3:2 fyrir Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Andri Lucas lék allan leikinn líkt og Kolbeinn Birgir Finnsson. Sævar Atli Magnússon kom inn á sem varamaður á 62. mínútu. Lyngby er í 8. sæti af 12 liðum deildarinnar með 20 stig.

Óttar Magnús Karlsson skoraði tvívegis fyrir Vis Pesaro þegar liðið lagði Pescara að velli, 4:0, í ítölsku C-deildinni í knattspyrnu í gærkvöldi. Óttar er með tíu mörk í 16 deildarleikjum til þessa.

Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði Bayern München og landsliðs Íslands í knattspyrnu, var á skotskónum þegar Bayern lagði Essen að velli, 2:0, í þýsku 1. deildinni í gær. Glódís kom Bæjurum á bragðið á 54. mínútu. Þýskalandsmeistarar Bayern eru á toppi deildarinnar með 36 stig, einu stigi fyrir ofan Wolfsburg, sem Sveindís Jane Jónsdóttir leikur með.