Kostnaður við framkvæmd Söngvakeppninnar á RÚV verður um 125 milljónir króna. Það er sambærilegur kostnaður og í fyrra „að teknu tilliti til verð- og launahækkana“, að sögn Rúnars Freys Gíslasonar framkvæmdastjóra Söngvakeppninnar

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Kostnaður við framkvæmd Söngvakeppninnar á RÚV verður um 125 milljónir króna. Það er sambærilegur kostnaður og í fyrra „að teknu tilliti til verð- og launahækkana“, að sögn Rúnars Freys Gíslasonar framkvæmdastjóra Söngvakeppninnar. Ekki liggur fyrir áætlun um kostnað við þátttöku í lokakeppni Eurovision í Málmey í maí. „Við munum skoða það þegar ákvörðun verður tekin um þátttöku eða ekki. Hún verður tekin eftir að Söngvakeppni lýkur.“

Undanúrslitakvöldin tvö fara fram á nýjum stað þetta árið, í kvikmyndaveri í Fossaleyni, og var það fyrra síðasta laugardagskvöld. Salurinn tekur um 530 áhorfendur í sæti að sögn Rúnars. Fjölskyldurennslið svokallaða og úrslitakvöldið fara hins vegar fram í Laugardalshöll og þar eru sæti fyrir um 2.300 manns á hvorum viðburðinum. Athygli vekur að miðaverð hefur verið hækkað á milli ára. Miðaverð á undanúrslitakvöldin er á bilinu 3.790 krónur til 4.790 krónur en í fyrra var miðaverð 3.490 krónur til 4.490 krónur. Ódýrustu miðarnir hækka því um tæp 9% milli ára. Miðar á úrslitakvöldið sjálft kosta nú á bilinu 6.790 til 7.790 krónur en í fyrra kostuðu þeir 7.490 krónur.

„Við gerum ráð fyrir því að tekjur af miðasölu verði eilítið meiri en síðustu ár vegna meira sætaframboðs í núverandi húsum, en miðaverðið tekur mið af mismunandi uppsetningu húsanna hvað varðar verðsvæði (A- og B-svæði) og verðlagsbreytingar. Á móti kemur aukinn kostnaður við að þurfa að vera á tveimur stöðum,“ segir Rúnar Freyr.

Hann segir aðspurður að kostnaður við skemmtiatriði á Söngvakeppninni verði um fjórar milljónir króna. Það er sambærilegt við síðastliðin ár. Hins vegar verða engin erlend skemmtiatriði í keppninni í ár en síðustu ár hafa komið hingað þekkt nöfn úr Eurovision frá fyrri árum.

Rúnar Freyr var að endingu spurður hvort fyrir liggi áætlun um það hversu miklar tekjur RÚV kann að hafa af Söngvakeppninni og Eurovision á móti kostnaði við framkvæmd og dagskrárgerð.

„Á síðasta ári var samanlagður kostnaður við Söngvakeppnina og Eurovision um 150 milljónir og heildartekjur af miðasölu, símakosningu, útgáfu, auglýsingum og kostunum fóru nálægt því að dekka þennan kostnað, og er það svipað og verið hefur undangengin ár.“ hdm@mbl.is