Ljósmóðir Guðlaug Pálsdóttir hér með sitt níunda barnabarn sem hún tók á móti í desember síðastliðnum.
Ljósmóðir Guðlaug Pálsdóttir hér með sitt níunda barnabarn sem hún tók á móti í desember síðastliðnum.
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Fædd börn á Íslandi á árinu 2023 voru um 4.300. Þetta má lesa úr tölum Hagstofu Íslands og starfsemisupplýsingum Landspítalans. Samkvæmt opinberum tölum Hagstofu fæddust 3.300 börn á landinu öllu á tímabilinu janúar til október í fyrra. Staðfestar tölur fyrir síðasta ársfjórðunginn liggja ekki fyrir en sé umrætt tímabil árið 2022 haft til hliðsjónar voru fæðingar á landinu þá 1.040. Út frá því er framangreind námunduð summa um fjölda fæðinga í fyrra fengin.

Fæðingar á mánuði oft um 250

Fæðingar á Landspítalanum í fyrra voru 3.217 og árið 2022 voru þær 3.157. Ljósmæður sjúkrahússins sinna um 70% fæðinga af landinu öllu. Börn alin á fæðingardeildinni við Hringbraut í Reykjavík voru í október síðastliðnum 262, 246 í nóvember og 240 í desember. Tölur þessar eru annars nokkuð svipaðar yfir lengri tíma; fjöldi fæðinga á spítalanum í mánuði er gjarnan öðrum hvorum megin við 250.

Á Íslandi fæddist 4.391 barn árið 2022. Árið 2021 voru þau talsvert fleiri eða 4.879. Engin ein skýring á barnasprengju umrætt ár liggur fyrir. Þó hefur verið bent á að meðan samfélagið var í rólegum gír á tímum sóttvarna á covid-tímanum 2020-2021 hafi ungt fólk á barneignaaldri, það er 25-35 ára, farið að hugsa öðruvísi og fundist tilvalið að fjölga sér.

Einnig má nefna að í ládeyðunni eftir efnahagshrunið – 2009 og 2010 – voru fædd börn í landinu um 5.000 hvort ár en verulega færri árin þar á eftir. Hugsanlegt er því að kreppan á umræddum árum hafi hreyft við fólki og aukið áhuga þess á að eignast börn og skapa fjölskyldu.

Hægt að nýta orlofið í tvö ár

Útgjöld fæðingarorlofssjóðs Vinnumálastofnunar á sl. ári voru tæpir 22,8 milljarðar. kr. Í því sambandi er rétt að minna á að fæðingarorlof er hægt að nýta í tvö ár frá fæðingu barns. Það þýðir að tölur fyrir fæðingarárin 2022 og 2023 eru til bráðabirgða. Réttindi sem til urðu árið 2023 detta út í lok árs 2025.

„Vaninn er að eftir því sem líður á tímann fjölgi feðrum sem tekið hafa fæðingarorlof,“ segir Leó Örn Þorleifsson, sviðsstjóri hjá Vinnumálastofnun, við Morgunblaðið.

Orlof hvors foreldris 180 dagar

Árið 2021 gengu í gildi ný lög um fæðingar- og foreldraorlof. Samkvæmt þeim lögum er sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig fæðingarárið 2021 og þaðan í frá sex mánuðir en heimilt er að framselja 1,5 mánuði til hins foreldrisins.

Hvað fæðingarorlof varðar er miðað við að hver mánuður telji 30 daga. Ef tekið er hefðbundið mál með tveimur foreldrum þá reiknast 12 mánuðir sem 360 dagar eða 180 dagar á hvort foreldri. Raunin er hins vegar sú að stór hluti þeirra daga sem hægt er að framselja til hins foreldrisins fer frá feðrum til mæðra. Í hefðbundnu máli eru 135 dagar alveg bundnir við annað foreldrið en hitt getur þá tekið 225 daga. Greiðslur í fæðingarorlofti miðast við laun sem foreldrar höfðu mánuðina fyrir fæðingu barns, en verða þó að hámarki 600 þús. kr.

Guðlaug Pálsdóttir hefur verið á ljósmóðurvakt í meira en 30 ár

Fæðingar koma oft í lotum

„Fæðing barns er alltaf mikið ævintýri og ljósmóðurstarfið er í eðli sínu afar fallegt,“ segir Guðlaug Pálsdóttir. Hún er ein fjölda ljósmæðra sem starfa á fæðingarvakt Landspítalans og hefur verið í starfinu frá 1993. „Ég var komin í að minnsta kosti þriggja stafa tölu þegar ég hætti að telja ljósubörnin mín. Síðan er langt um liðið og alltaf hækkar talan.“

Oft er ys og þys á fæðingarvaktinni. „Já, fæðingarnar koma oft eiginlega í lotum, hvernig sem á því stendur. Stundum er mikið að gera í nokkra daga og fjöldi fæðandi kvenna kemur inn eða þá að á vaktinni er mikið álag í nokkrar klukkustundir. Svo dettur allt í dúnalogn á milli,“ segir Guðlaug og heldur áfram:

„Konur af erlendum uppruna eru orðnar talsverður hluti skjólstæðinga okkar ljósmæðra. Margar kvennanna geta líka verið með undirliggjandi sjúkdóma eins og sykursýki. Allt slíkt þarf að hafa í huga í fæðingarferlinu, sem æ oftar er gangsett vegna ástands móður. Stundum þurfa móðir og barn því að vera nokkra daga á sjúkrahúsinu. Sé allt eðlilegt fara foreldrar og barn heim um það bil sólarhring eftir fæðingu. Til okkar eru öll velkomin; fæðandi konur hvaðan sem er af landinu.“

Að fá að taka á móti barni eru alltaf mikil forréttindi segir Guðlaug, sem sjálf á fjögur börn. Barnabörnin eru níu og hún er ljósmóðir þeirra allra. Hið yngsta, stúlka, fæddist í desember sl.