60 ára Sigurbergur ólst upp á Reykjalundi í Mosfellssveit þar sem foreldrar hans unnu en var einnig mikið í sveit hjá afa sínum og ömmu á Garðskagavita sem krakki. Hann lauk læknisprófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1990 og doktorsprófi frá Háskólanum í Gautaborg árið 2000

60 ára Sigurbergur ólst upp á Reykjalundi í Mosfellssveit þar sem foreldrar hans unnu en var einnig mikið í sveit hjá afa sínum og ömmu á Garðskagavita sem krakki. Hann lauk læknisprófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1990 og doktorsprófi frá Háskólanum í Gautaborg árið 2000. Auk þess hefur hann meistarapróf í stjórnun innan heilbrigðiskerfisins og lýðheilsu frá Háskóla Reykjavíkur. Hann starfaði í Gautaborg í átta ár en var ráðinn sem sérfræðingur á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala Fossvogi árið 2002 og síðan yfirlæknir en er núna yfirlæknir á gjörgæsludeildinni á Hringbraut frá 2015. Hann hefur einnig verið prófessor við Háskóla Íslands frá 2021.

Sigurbergur sinnir því stjórnunarstörfum, klínísku starfi, kennslu og rannsóknum. „Ég hef verið heppinn að fá að starfa með mörgu góðu fólki bæði klínískt og að ýmsum rannsóknum. Við erum núna í grunnrannsóknum að kanna áhrif öndunarvélarmeðferðar á lungnavef. Slík meðferð veldur miklu álagi á lungun og getur verið skaðleg og við erum að leita leiða til að styrkja lungnavefinn svo hann þoli öndunarvélarmeðferðina betur. Svo höfum við verið með ýmsar faraldsfræðilegar rannsóknir eins og varðandi sýklasótt sem þarfnast innlagnar á gjörgæslu, og kannað algengi hennar og meðferðarárangur hérna heima frá ýmsum sjónarhornum. Nýlega höfum við skipulagt heilsueflandi feril í samvinnu Landspítalans og Heilsugæslunnar til að bæta ástand sjúklinga fyrir liðskiptaaðgerðir og sjáum að þannig höfum við getað dregið úr hættu á skurðsýkingum.“

Sigurbergur var í lúðrasveitum sem krakki og hefur spilað á ýmis blásturshljóðfæri gegnum tíðina. „Ég er núna með félögum mínum í litlu bandi þar sem ég spila á saxófón og svo er ég í Karlakórnum Stefni.“

Önnur áhugamál Sigurbergs eru útivist. Hann stundar skíði, fjallgöngur og sund en hann synti út í Viðey, fram og til baka, síðastliðið sumar. Hann er núna staddur á gönguskíðaferðalagi í Austurríki.


Fjölskylda Eiginkona Sigurbergs er Guðrún Jónasdóttir, f. 1964, hjúkrunarfræðingur. Þau eru búsett í Reykjavík. Börn þeirra eru Snorri, f. 1992, Ásdís, f. 1994, Dagur, f. 1999, og Hildur, f. 2002, Foreldrar Sigurbergs: Hjónin Kári Sigurbergsson, f. 1934, gigtarlæknir, búsettur í Reykjavík, og Karítas Kristjánsdóttir, f. 1941, d. 2013, hjúkrunarfræðingur.