Ferðaþjónusta Nýta athygli sem Ísland fær vegna eldgosa, segir í viðtalinu við Ásgeir Baldurs og Birtu Ísólfsdóttur.
Ferðaþjónusta Nýta athygli sem Ísland fær vegna eldgosa, segir í viðtalinu við Ásgeir Baldurs og Birtu Ísólfsdóttur. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jafnvægi er að nýju komið á bókanir í Íslandsferðir, en í baksegl sló í kjölfar eldgosa við Grindavík nærri áramótum. „Nú er mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna að nýta á uppbyggilegan máta þá athygli sem landið fær vegna eldgosa og hugsa fram á…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Jafnvægi er að nýju komið á bókanir í Íslandsferðir, en í baksegl sló í kjölfar eldgosa við Grindavík nærri áramótum. „Nú er mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna að nýta á uppbyggilegan máta þá athygli sem landið fær vegna eldgosa og hugsa fram á við,“ segir Ásgeir Baldurs, framkvæmdastjóri Arctic Adventure.

„Flest bendir til þess að við séum komin inn í tímabil eldsumbrota sem við vitum ekki hvað kemur til með að vara lengi. Því skiptir miklu að vanda til verka og að öryggi ferðamanna sem njóta íslenskrar náttúru sé ávallt í fyrirrúmi. Nú eru eldgosin orðin alls sex og því er hvert nýtt gos ekki sama stórfréttin og áður. En eðlilega sköpuðu þessi umbrot fyrst í stað ugg sem ferðaþjónustan fann vel. Mikilvægast er nú að mæta þeim sem þurftu að yfirgefa heimabyggð sína í Grindavík. En svo kemur allt hitt. Flest sem velja Ísland koma hingað til að skoða stórbrotna náttúru. Myndir af landinu sem sjást svo víða hafa ótrúlegan áhrifamátt.“

Upplifun og ævintýri

Arctic Adventures er eitt af stærri ferðaþjónustufyrirtækjum landsins. Í núverandi mynd hefur það verið starfrækt frá 2014, en sagan nær talsvert lengra aftur. Á vegum fyrirtækisins er margvíslegt í boði sem snýr að upplifun og ævintýrum. Þar má nefna köfun og snorkl í Silfru, vélsleðaferðir, heimsóknir í manngerða sem náttúrulega íshella, gönguferðir um hálendisslóðir, starfsemi óbyggðaseturs og hringferðir um landið svo eitthvað sé nefnt. Þá rekur fyrirtækið hótel á nokkrum stöðum.

Alls um 300 manns starfa hjá fyrirtækinu, sem er með í útgerð sinni um 100 bíla, stóra sem smáa, og 90 vélsleða svo nokkuð sé nefnt. Þjónustuframboðið er í stöðugri þróun og fylgst er vel með stefnum og straumum. Samkeppnin er hörð við t.d. Nepal, Grænland, Norður-Noreg og Alaska.

Hundruð þúsunda ferðamanna, að stórum hluta Bandaríkjamenn, koma á ári hverju í þær ferðir eða pakka sem Arctic Adventures býður. Eftir heimsfaraldur eru Kínverjar líka farnir að koma aftur til Íslands í talsverðum mæli. Einmitt nú eru margir frá Kína á Íslandi í kringum áramót kínverska tímatalsins.

Innviðauppbygging fylgi fjölda ferðamanna

„Mikill og vaxandi fjöldi ferðamanna sem kemur til Íslands er ekki vandamál. Þó þarf að vanda til verka og gæta þess að innviðauppbygging fylgi fjölda ferðamanna,“ segir Ásgeir Baldurs. „Vissulega mætti fólk þó dreifast betur um landið og fara enn víðar, enda óteljandi náttúruperlur og möguleikar í öllum landshlutum. Hins vegar hafa vissir staðir hér verið kynntir svo rækilega að þeim er ekki sleppt svo glatt. Fólki sem kemur að utan finnst sjálfsagt í Íslandsferð að fara á Þingvelli, Gullfoss, Geysi, í Jökulsárlón og komast í ýmsa spennandi upplifun í náttúrunni eins og við bjóðum. Þetta er alveg sama og að í París fer fólk í Eiffelturninn og í Egyptalandi heilla píramídarnir í Gisa.“

Gæði og öryggismál séu á hreinu

Sumt í framboði Arctic Adventures er starfsemi sem heimafólk á stöðum úti á landi setti á fót. Þetta eru dæmi sem virkuðu vel og urðu í fyllingu tímans áhugaverð tækifæri stærri fyrirtækja. Slík hafa líka kraft til að þróa starfsemina lengra áfram í samræmi við kröfur um góða þjónustu, öryggi og náttúruvernd.

„Í núverandi mynd er ferðaþjónustan á Íslandi ung atvinnugrein. Þessu hafa fylgt ýmsir vaxtarverkir, en gæðamálin þurfa að vera á hreinu. Einkunnagjöf á vefjum eins og Tripadvisor og Booking.com hefur mikið að segja því þar talar fólk um sína reynslu. Þar fer fram hreinskiptin umræða um áfangastaði og upplifanir ferðamanna og fagmennska í greininni hefur aukist með umræðu og samkeppni. Annað er ekki í boði,“ segir Birta Ísólfsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og markaðsmála hjá Arctic Adventures.

„Ferðamenn spyrja mikið um öryggismálin, til dæmis í jöklaferðum. Margir sem til Íslands koma og ferðast með okkur fara í nokkurra daga skipulagðar ferðir umhverfis landið sem eru settar saman með ýmsu móti. En þar gildir bæði af okkar hálfu og ferðaheildsala að rétt og vel sé staðið að öllum málum. Svo sjáum við líka í viðskiptum að ferðamenn til dæmis frá Bandaríkjunum dveljast hér skemur en áður. Strax eftir covid var stopp þeirra hér 8-9 dagar en er nú gjarnan 5-7 dagar. Þetta fólk eyðir líka minni peningum hér en áður; fyrir 2-3 árum var fólk tilbúið að setja um 600 bandaríkjadali í afþreyingu á ferðalögum en nú er þessi tala komin niður í um 250 dali. Verðnæmni er mikil og því þarf ferðaþjónustan að fylgjast með,“ segir Birta.

Sumir nýir áfangastaðir verða óvænt til

Eitt af því vinsælasta hjá Arctic Adventures í dag eru ferðir að íshellum í Kötlujökli, skammt fyrir austan Vík í Mýrdal. Lögmálum náttúrunnar samkvæmt er sá staður síbreytilegur; hvelfingar í klakanum koma og fara og sólarljós bregður sífellt nýjum svip á staðinn.

„Hellarnir í Kötlujökli eru orðnir einn af okkar vinsælustu áfangastöðum,“ tiltekur Birta. Sama megi segja um til dæmis Reynisfjöru og Stuðlagil austur á landi, sem kom í orðsins fyllstu merkingu upp úr kafinu þegar rennsli Jöklu var breytt vegna virkjunar. Mikil fegurð og tækifæri eru fólgin í síbreytilegri náttúru og umhverfi landsins.

„Sumt gerist mjög óvænt,“ segir Ásgeir. „Fjaðrárgljúfur við Kirkjubæjarklaustur varð þekkt af myndbandi með Justin Bieber og þangað koma nú um milli 200-300 þúsund manns á ári. Þá hefur íshellirinn á Langjökli, sem útbúinn var á vegum okkar, komið sterkur inn. Raufarhólshellir í Þrengslum, nærri Þorlákshöfn, með allri sinni litadýrð vekur líka mikla athygli. En þar þurfti líka að taka til hendi og lagfæra margt svo staðurinn yrði aðgengilegur.“

Aðgöngugjöld verði innheimt á helstu ferðamannastöðum

Framtíðina telur Ásgeir þá að aðgöngugjöld í einhverri mynd verði innheimt á helstu ferðamannastöðum landsins. Öðruvísi sé tæplega hægt að viðhalda innviðum og byggja upp. Ágæt reynsla af aðgöngugjaldi hafi á síðustu árum fengist við Kerið í Grímsnesi, en Arctic Adventures tók rekstur þar og starfsemi yfir á síðasta ári. Tækifærin hjá Arctic Adventures í dag séu fjölmörg. Stefnan sé að skapa ábyrgt og öruggt aðgengi að áfangastöðum í íslenskri náttúru og bjóða upp á sjálfbæra og vistvæna ferðaþjónustu.

„Upplifun ferðafólks af viðkomustöðum og afþreyingu verður að vera sterk. Þetta er líkast því að skrifað sé handrit að leikverki og þá skiptir sviðsmyndin miklu. Síðan gildir líka að gefa fólki með óvenjulegar hugmyndir lausan tauminn. Ég var að vinna norður á Húsavík fyrir um 30 árum þegar hótelstjórinn þar fékk trillusjómann til þess að taka ferðamenn með sér út á Skjálfanda og sýna þeim hvali sem þar svömluðu. Þetta þótti óvenjulegt, virkaði þó vel og framhaldið þekkir flestir,“ segir Ásgeir Baldurs að síðustu.

Hver eru þau?

Ásgeir Baldurs er fæddur 1972. Hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, meðal annars sem stjórnandi í trygginga- og fjárfestingastarfsemi. Tók við sem framkvæmdastjóri Arctic Adventures. Formaður aðalstjórnar Breiðabliks.

Birta Ísólfsdóttir er fædd 1988. Framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og þjónustuupplifunar hjá Arctic Adventures. Hún er með próf í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands og stundaði meistaranám við sama skóla. Starfaði áður við margvíslega hönnun hjá NTC og 66°Norður.