Flutningar Síðustu kassarnir fluttir úr Grindavík en hjónin flytja aftur í apríl.
Flutningar Síðustu kassarnir fluttir úr Grindavík en hjónin flytja aftur í apríl. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Þessar fréttir voru alveg æðislegar,“ segir Hólmfríður Georgsdóttir og vísar þar til ánægjulegs símtals frá dóttur sinni. Í kjölfar viðtals við Hólmfríði í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins, þar sem hún spurði meðal annars hversu lengi…

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

„Þessar fréttir voru alveg æðislegar,“ segir Hólmfríður Georgsdóttir og vísar þar til ánægjulegs símtals frá dóttur sinni. Í kjölfar viðtals við Hólmfríði í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins, þar sem hún spurði meðal annars hversu lengi gamla fólkið í Grindavík þyrfti að bíða eftir varanlegu húsnæði, fékk Rósa, dóttir Hólmfríðar, símtal utan úr bæ sem svaraði þeirri spurningu. „Þessa íbúð fáum við 1. apríl og fáum að vera þar í eitt ár,“ segir Hólmfríður og þakklætið leynir sér ekki í rödd hennar.

Þau hjónin Hólmfríður og Árni hafa haldið til í sumarhúsi í Ölfusborgum á vegum Verkalýðsfélags Akraness, síðan fólki var gert að yfirgefa Grindavíkurbæ í nóvember á síðasta ári. Hólmfríður segir þau láta vel af vistinni, allur aðbúnaður sé til fyrirmyndar þótt vissulega hafi verið svolítið kalt í frostatíðinni undanfarið. Segir hún alla þjónustu mjög góða í kringum þá tugi sumarhúsa sem á svæðinu eru og undirstrikar með aðdáun að einn maður sinni byggðinni allan ársins hring. „Ég vil koma á framfæri góðum þökkum til Verkalýðsfélags Akraness. Hér áttum við að fá að vera til 15. janúar en fengum síðar góðfúslegt leyfi hjá formanni verkalýðsfélagsins til að vera alveg til 1. maí.“

Þá vill Hólmfríður einnig þakka Morgunblaðinu – segist telja að ef ekki hefði verið fyrir heimsókn blaðamanns og ljósmyndara væru húsnæðismál þeirra hjóna enn í lausu lofti. „Þið eigið það sem þið eigið,“ segir hún glöð í bragði.

Aftur á Suðurnesin

Óvænt símtal færði eldri hjónum öruggt húsnæði.

Hafa dvalið í góðu yfirlæti í sumarhúsi í Ölfusborgum.

Eru þakklát Verkalýðsfélagi Akraness og umsjónarmanni sumarhúsabyggðar.

Heimsókn blaðamanns og ljósmyndara Morgunblaðsins til Grindavíkur í síðustu viku gerði gæfumuninn.