Björg Friðriksdóttir fæddist í Winnipeg í Kanada 24. mars 1926. Hún lést á Dvalarheimilinu Hvammi, Húsavík, 2. febrúar 2024. Skírnarnafn hennar var Gertrud Beata Björg.

Foreldrar hennar voru hjónin Gertrud Friðriksson, fædd Nielsen, kennari og organisti, f. 15. febrúar 1902, d. 27. desember 1986, og Friðrik A. Friðriksson, prófastur á Húsavík, f. 17. júní 1886, d. 16. nóvember 1981. Systkini Bjargar eru Örn, f. 1927, d. 2016, Aldís, f. 1932, og Birna, f. 1938.

Eiginmaður Bjargar var Ingvar Kristinn Þórarinsson, bóksali og kennari á Húsavík, f. 5. maí 1924, d. 7. apríl 1999. Foreldrar hans voru Sigríður Oddný Ingvarsdóttir, ljósmyndari og húsmóðir, f. 1889, d. 1972, og Þórarinn Stefánsson, bóksali og hreppstjóri, f. 1878, d. 1965.

Börn Bjargar og Ingvars eru Stefán Örn, f. 27. júlí 1956, búsettur í Noregi, og Sigríður, f. 11. maí 1961, búsett í Reykjavík. Uppeldisdóttir þeirra er Lilja Sigurðardóttir, f. 6. júní 1948, búsett á Húsavík.

Eiginkona Stefáns Arnar er Sigríður Þ. Harðardóttir, f. 29. júlí 1956. Þau eiga fimm börn, Halldór, Guðrúnu Björgu, Örnu Sigríði, Ernu Svövu og Söru Ruth. Eiginmaður Sigríðar er Guðmundur A. Jónsson, f. 24. nóvember 1954. Þau eiga þrjú börn, Björgu, Ingvar Kristin og Guðna Pál. Eiginmaður Lilju er Dagbjartur Sigtryggsson, f. 18. ágúst 1942. Þau eiga fjóra syni, Sigurð Pétur, Sigtrygg Heiðar, Ingvar Berg og Dag Svein. Barnabarnabörn Bjargar eru 29 og barnabarnabarnabörnin tvö.

Björg bjó fyrstu ár ævinnar með foreldrum sínum og bróður í Vesturheimi þar sem faðir hennar var um árabil prestur hjá íslenskum söfnuðum í Kanada og síðar í Bandaríkjunum. Fjölskyldan flutti til Húsavíkur sumarið 1933, eftir ársdvöl í Kaupmannahöfn.

Björg varð stúdent frá MA 1945 og trúlofaðist Ingvari þann vetur, en þau gengu í hjónaband 21. júní 1947.

Þau byggðu sér hús við Höfðabrekku sem fékk númerið 9. Björg var virk í ýmsum félögum, söng- og leikstarfsemi; kvenfélaginu, slysavarnafélaginu, skátafélaginu, Leikfélagi Húsavíkur og Soroptimistaklúbbi Húsavíkur. Hún starfaði í Bókaverslun Þórarins Stefánssonar ásamt því að leysa af í kennslu við Gagnfræðaskólann á Húsavík og leika á orgel Húsavíkurkirkju í afleysingum.

Á síðari árum kom Björg að stofnun kórs eldri borgara á Húsavík, Sólseturskórnum, þar sem hún sá um undirleik og raddþjálfun.

Björg og Ingvar voru einstaklega tónelsk hjón og stóðu að mörgum tónleikum á Húsavík um árabil. Þau voru meðlimir í Tónakvartettinum, sem var stofnaður árið 1963. Björg sá um að kenna raddir og leika undir á píanó; Ingvar söng, ásamt Stefáni Þórarinssyni bróður sínum, Eysteini Sigurjónssyni og Stefáni Sörenssyni. Kvartettinn starfaði í um sex ár við góðan orðstír, hélt fjölmarga tónleika og gerði upptökur fyrir útvarp og sjónvarp. Safndiskur með upptökum Tónakvartettsins var gefinn út árið 2003.

Útför hennar verður gerð frá Húsavíkurkirkju í dag, 19. febrúar 2024, klukkan 13.

Elsku amma. Amma Bibba á Húsavík. Það er erfitt að hugsa til þess að framvegis verði það ekki fastur liður í ferðum okkar bræðra norður til Húsavíkur að heimsækja þig. Alltaf tókstu á móti okkur með opnum örmum. Sem litlir pollar að fá að gista hjá ömmu og afa í stóra húsinu í Höfðabrekku 9, sem unglingar og fengum þá oftar en ekki að gista í svefnsófanum í stofunni í Litla-Hvammi eða í seinni tíð eftir að þú fórst inn á Hvamm.

Maður fann vel á þér hvað þér fannst erfitt að þurfa sætta þig við að geta ekki hýst okkur lengur eftir að þú fórst inn á Hvamm. En á sama tíma var það líka léttir fyrir þig að vera komin á svona öruggan og hlýjan stað sem Hvammur er. Gestrisni þín var bara svo mikil.

Heimsóknirnar urðu margar þótt manni sárni að þær hafi ekki orðið enn fleiri.

Í dag hugsum við hlýtt til allra góðu stundanna og heimsóknanna. Þú varst mikill húmoristi og aldrei vantaði þig svörin. Alveg fram á síðustu heimsókn minnumst við þess að þú hafir ruglað eitthvað og við ákveðið að spila með til að valda ekki enn frekari ruglingi, þá horfðir þú á okkur og sagðir: „Hvað ertu nú að bulla,“ og glottir.

Það er erfitt að kveðja þig elsku amma, það verður tómlegt að fara norður og fá ekki að heimsækja þig, halda í hönd þína og fara yfir daginn og veginn. Fá okkur einn apaís, nokkrar fílakaramellur eða pólómyntur yfir spjalli.

Takk fyrir allt elsku amma, takk fyrir að kenna okkur að strauja skyrturnar okkar og festa tölur með nál og tvinna. Takk fyrir allar æskuminningarnar sem eru svo sterkar, Cafe creme-vindlalyktin, dönsku krossgátublöðin þar sem við fengum að eiga stafaruglið, bíltúrarnir á Lancernum sem þér þótti svo vænt um, heita lifrarkæfan þín og allar stundirnar við matarborðið. Megum til með að nefna alla hádegisverðina sem þú bauðst okkur svo oft í og þá var mikilvægt að skipuleggja sig vel svo maður gæti smakkað á öllu.

Elsku amma, njóttu þess nú að vera komin til afa, byrjuð að prjóna aftur og spila á píanóið. Skálar svo í Gammel Dansk eins og þér einni er lagið.

Minning þín mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Ingvar Kristinn Guðmundsson, Guðni Páll Guðmundsson.

Elsku amma.

Takk fyrir allar góðu minningarnar. Takk fyrir vítamínglösin, prjóna- og saumakennsluna, fyrir súkkulaðikökurnar með gafflamynstrinu og allar skemmtilegu samverustundirnar. Takk fyrir óendanlegt magn af ullarpeysum og sokkum sem hefur yljað stórum og smáum árum saman, og gerir enn.

Við systkinin erum þakklát fyrir hlýjuna, lærdóminn, dökka húmorinn og afskiptasemina sem öll var bundin umhyggju í okkar garð.

Hvíl í friði kæra amma.

Halldór, Guðrún Björg, Arna Sigga, Erna Svava og Sara Ruth Stefánsbörn.

Hjá ömmu Bibbu og afa Ingvari í Höfðabrekku var minn eftirlætisstaður og ég elskaði að vera hjá þeim. Ég var ekki gömul þegar ég fór ein í flug og hlakkaði til að hitta ömmu á flugstöðinni. Tíminn leið svo alveg áreynslulaust, í hversdagslegri og notalegri samveru. Ég fór aftur heim, en við vorum pennavinir svo ég fékk reglulega bréf með daufri vindlalykt með skrift sem var erfitt að ráða í. Þegar ég kom norður beið mín appelsínukaka á eldhúsbekknum, en lúxusinn var samveran. Við amma nutum samvistanna, hún var skipulögð og ótrúlega iðin og fann fyrir mig verkefni en skipaði mér líka að leggja mig. Hún sparaði vatnið í kaffið, kenndi mér að hella upp á og leyfði mér að steikja vöfflurnar þegar við fengum gesti. Hún lagði kapal og leysti danskar krossgátur. Ég æfði mig á píanóið og við spiluðum saman fjórhent. Við hlustuðum á tónlist, lásum bækur. Hún vissi alltaf hver söng síðasta lag fyrir hádegisfréttir.

Hún spurði mig álits á ýmsum málum og hafði áhuga á því hvað ég hafði til málanna að leggja. Hún sagði mér sögur af sjálfri sér, sínum stórmerkilega uppvexti, ferðalögum heimsálfa á milli og hló að hallærissögum af sjálfri sér. Hún hringdi í vinkonur sínar, systur og frænkur og ég lærði dönsku með því að hlusta og þylja upp eftir henni í huganum. Hún var alltaf að leggja drög að einhverju, láta sig hlakka til næsta ferðalags, flokka myndir og bréf.

Síðustu árin heimsótti ég ömmu til að njóta samvista við hana, sækja blöðin í bókabúðina og ræða um allt og ekkert. Ég fékk að vera í fullu fæði á Hvammi og sitja með henni og láta dagana líða. Ég sagði henni sögur af stelpunum mínum og við skoðuðum gamlar myndir og hún sagði mér sögur af sínu fólki.

Tárin trítluðu niður kinnarnar þegar keyrt var frá Húsavík og það mun trúlega ekki breytast, en tárin eru full þakklætis fyrir tímann sem ég fékk, ástina og kærleikann sem mér var sýndur.

Björg Þórsdóttir.

Foreldrar Bibbu og systkini voru eina fjölskyldan á Norðurlandi sem við Akureyringarnir kölluðum frændfólk okkar. Ættirnar náðu að vísu ekki saman fyrr en í 6. eða 7. ættlið, en amma Bibbu hafði tekið að sér móður mína fimm ára gamla og alið upp til fullorðinsára og þess vegna var Bibba óumdeilanlega frænka mín.

Þegar ég minnist Bibbu frænku leita á hugann ótal bjartar minningar. Bibba kallaði mig sumarstrákinn sinn, því ég var hjá þeim Ingvari í „fóstri“ öll sumur frá tveggja til tíu ára aldurs. Þessara sumra minnist ég með miklu þakklæti.

Ingvar kenndi á vetrum og vann ýmsa vinnu á sumrum, auk þess að sinna rekstri bókabúðarinnar, en Bibba sá um heimilið. Þannig var það bara í þá daga. Þetta kom sér vel, því oft var gestkvæmt á heimilinu, ættingjar, vinir, stjórnmálamenn, flestir sjálfstæðismenn, og listafólk. Bibba tók því ætíð með jafnaðargeði og myndarskap þegar Ingvar hringdi og boðaði gesti í mat eða kaffi eftir klukkutíma.

Eftir að sumardvölum mínum lauk fann ég oft tilefni til að dvelja hjá Bibbu og Ingvari í lengri eða skemmri tíma. Ég fann ýmsar átyllur, t.d. að hjálpa til í bókabúðinni fyrir jólin og við vörutalninguna um áramótin, eða að lesa fyrir próf í upplestarfríum með aðgangi að aðstoð ef á þurfti að halda og raunar var ég hjá þeim í hálfan annan vetur þegar ég fór hraðferð í gegnum gagnfræðaskóla. Aldrei varð ég var við annað en elskusemi og velvild þrátt fyrir þennan ágang og tilætlunarsemi.

Ég var svo lánsamur að vera viðstaddur fyrstu æfingu Tónakvartettsins, um páska 1963. Þar hófst mikið ævintýri sem gaf öllum félögunum mikla gleði. Ég held að ég geti fullyrt að Bibba hafi stjórnað strákunum með mildi en þó festu. Tónlistarspekingar hafa hrósað öruggum og fáguðum píanóundirleiknum en sjálf var hún alveg undrandi á eigin frammistöðu, „ég lærði aldrei neitt nema það litla sem mamma kenndi mér“. Það er mikið lán að til skuli vera upptökur frá æfingum og tónleikum sem snillingar tengdir fjölskyldunni hafa gert aðgengilegar almenningi. Og við, afkomendur, frændur, frænkur og vinir, getum áfram hresst upp á sálartetrið með því að hlusta á bræðurna teygja á tenórnum og Bibbu toga þá áfram með undirleiknum.

Um leið og við þökkum fyrir að hafa átt Bibbu að ástvini sendum við Eydís innilegar samúðarkveðjur til Stefáns Arnar, Sigríðar, Lilju og fjölskyldna þeirra.

Snorri Pétursson.

Það er ekki auðvelt að færa í orð þau áhrif sem Björg móðursystir okkar hefur markað í lífi okkar systkinanna. Frá því við fyrst munum eftir okkur hefur Bibba verið fastur punktur í tilveru okkar. Við ólumst upp í Höfðabrekkunni og heimili þeirra Ingvars var alla tíð okkar annað heimili. Við höfum trúlega alltaf litið á það sem sjálfsagðan hlut, enda aldrei látin finna annað. Það öryggi, skjól og sú kjölfesta sem heimili þeirra var okkur systkinum þegar við ung að aldri misstum föður okkar verður aldrei fullþakkað. Eftir að við fjölskyldan fluttum frá Húsavík áttum við ætíð athvarf í Höfðabrekkunni hjá þeim, hvort sem var til skemmri dvalar eða sumarlangt. Bibba og fjölskyldan í Höfðabrekku 9 er samofin flestum okkar bernskuminningum í gleði og í sorg, á hátíðum og í hversdagslífinu. Fjölskyldurnar saman á aðfangadagskvöld, til skiptis í Höfðabrekku 9 og 13, var órjúfanleg hefð. Þar voru danskar jólahefðir móðurömmu okkar í hávegum hafðar.

Bibba var húsmóðir í fyllstu merkingu þess orðs og skemmtileg heim að sækja. Heimili þeirra Ingvars var menningarheimili og hún virtist alltaf undir það búin að taka á móti gestum, enda var fyrirvari ekki alltaf langur en allir voru aufúsugestir í Höfðabrekku 9. Tónlist skipaði stóran sess í lífi þeirra hjóna. Þau stofnuðu ásamt vinum Tónakvartettinn, sem Bibba stjórnaði og lék með söng þeirra á píanó. Segja má að þetta sé nokkuð lýsandi fyrir Bibbu. Sem elsta systir var hún vön að taka stjórnina, en hvort sem hún var í hlutverki stjórnanda eða undirleikara í lífinu skilaði hún sínu hlutverki af einstakri alúð. Æfingar Tónakvartettsins fóru fram á heimili þeirra Ingvars. Þau hjónin höfðu sömuleiðis um árabil veg og vanda af því að fá tónlistarfólk til Húsavíkur til að halda tónleika.

Oftar en ekki var tónlistarfólkinu boðið heim til veislu eftir tónleika og skipti þá engu hvort um var að ræða einstaklinga eða heilu kórana. Við krakkarnir fengum að hjálpa til við miðasölu eða í eldhúsinu hjá Bibbu og andinn sem fylgdi þessum menningarviðburðum hefur án efa haft mótandi áhrif á okkur sem fengum að njóta. Það lýsir gestrisni Bibbu vel að eftir einn slíkan viðburð, þar sem erlendur kór kom við sögu, spurði kórmeðlimur hvort þau gætu tekið með sér það sem eftir væri af veitingunum. Bibba horfði nokkuð hissa á spyrjandann en sagði svo „jú auðvitað“ og svo var kökuafgöngum pakkað niður sem nesti og afhent gestunum með mikilli gleði.

Sameiningartákn og tryggð voru meðal lýsandi orða sem Aldís, móðir okkar, hafði yfir eftir andlát Bibbu. Það eru orð að sönnu. Líf þeirra systra hefur verið samofið. Síðustu ár hafa þær báðar notið vistar á dvalarheimilinu Hvammi á Húsavík og samband þeirra alla tíð einkennst af einlægri og gagnkvæmri umhyggju.

Þær hittust oft á dag. Það var skraflað og skrafað og til að gera góðan dag betri kom fyrir að skálað væri í staupi af Gammel Dansk.

Við viljum þakka Bibbu fyrir endalausa góðvild í okkar garð og fyrir ljúfa samfylgd.

Geirþrúður, Guðbjörg og Ari Páll.

Sum atvik falla manni aldrei úr minni. Eitt slíkt upplifðum við hjónin sumarið 1966. Þá hafði verið afráðið að við flyttum til Húsavíkur um haustið. Og til að átta okkur á hvað biði okkar skutumst við norður á Húsavík um verslunarmannahelgina til að líta á staðinn, skoða húsnæðið sem beið okkar og fleiri praktísk atriði. Ég hafði áður hitt Ingvar Þórarinsson bóksala.

Við litum því við í Bókabúð Þórarins Stefánssonar. Okkur mætti einstaklega glaðlegt viðmót hjá þeim hjónum, Björgu og Ingvari, sem voru önnum kafin í ótrúlega litlu rými í gömlu bókabúðinni, yfirfullri af vörum. Eftir smá spjall var okkur boðið að koma til þeirra í kvöldmat. Eftirminnilegt kvöld, því eftir kvöldmatinn sögðu þau okkur að Tónakvartettinn ætlaði að vera með æfingu hjá þeim á eftir og okkur væri velkomið að sitja róleg og hlusta á æfinguna. Auðvitað höfðum við aldrei heyrt minnst á Tónakvartettinn á Húsavík og væntingarnar eftir því. En þvílík upplifun.

Allir geislandi af lífsgleði og sönggleði, þeir Ingvar og Stefán Þórarinssynir, Eysteinn Sigurjónsson og Stefán Sörensson og Björg var stjórnandinn og undirleikarinn. Við áttuðum okkur strax á að hér voru listamenn á landsmælikvarða á ferð, enda varð Tónakvartettinn innan tíðar landsfrægur og að verðleikum. Það var liðið langt fram á kvöld þegar æfingunni lauk og þá áttum við eftir að tjalda. „Tjalda! Ykkur er velkomið að liggja í kjallaranum hjá okkur,“ sögðu þau hjón.

Þetta var upphafið að vináttu sem aldrei hefur rofnað og ekki borið skugga á. Björg og Ingvar voru örlátar manneskjur sem báru hag heimabæjarins mjög fyrir brjósti og studdu alveg sérstaklega við listalífið.

Þannig stóðu þau um margra ára skeið fyrir tónleikahaldi í Húsavíkurkirkju með mörgu fremsta tónlistarfólki þjóðarinnar og öllum boðið til þeirrar veislu. Því miður var þeim sjaldnast fullþakkað fyrir að standa fyrir þessum listviðburðum. En þannig var bæjarbragurinn þá að mörgum reyndist erfitt að meta góðverk þeirra sem ekki voru „réttum megin“ í pólitíkinni.

Björg mætti ýmsu mótlæti á langri ævi. Erfiðast var þegar Ingvar veiktist af parkinsonsjúkdómnum. Það varð langdregin glíma en Ingvar lést fyrir tæpum 25 árum. Það var því margt sem Björg þurfti að takast á við meðan á veikindum Ingvars stóð og eins eftir fráfall hans. En þá sem oftar kom í ljós úr hverju Björg var gerð og gekk hún frá öllum málum með fullri reisn. Vegna breyttrar búsetu okkar urðu samverustundirnar færri hin síðari ár.

En alltaf var jafn gaman að hittast og Björg hélt andlegri reisn alveg undir það síðasta og alltaf jafn gefandi að rifja upp gamlar samverustundir þegar við hittumst, enda geislaði lífsorkan af Björgu allt undir það síðasta.

Að Björgu genginni kveðjum við merka konu sem setti mark sitt á mannlífið á Húsavík um áratuga skeið. Við hjónin vottum börnum Bjargar og öllum nákomnum okkar dýpstu samúð.

Blessuð veri minning Bjargar Friðriksdóttur.

Gísli G.
Auðunsson.

hinsta kveðja

Ég kveð þig í hljóði

vil þakka þér allt.

Minningarnar streyma

í huga mér þúsundfalt.

Kvenskörungur varst þú

alltaf hrein og bein

þoldir hvort vol né vein

varst aldrei svifasein.

Gestrisni og kraftur

skynsemi þín og máttur

veittu mér innblástur

þannig var þinn háttur.

Ég veit þú ert hvíldinni fegin

elsku Bibba mín

hvíl þú í friði

þess óskar tengdadóttir þín.

Sigríður (Sigga).