Kúluvarp Erna Sóley Gunnarsdóttir setti mótsmet í kúluvarpi á Meistaramóti Íslands en var þrátt fyrir það tæpum metra frá eigin Íslandsmeti.
Kúluvarp Erna Sóley Gunnarsdóttir setti mótsmet í kúluvarpi á Meistaramóti Íslands en var þrátt fyrir það tæpum metra frá eigin Íslandsmeti. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjögur mótsmet féllu á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum innanhúss í Laugardalshöll sem fram fór um helgina. Í gær setti Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR mótsmet í kúluvarpi. Erna Sóley bar höfuð og herðar yfir mótherja sína og kastaði kúlunni lengst 16,94 metra

Frjálsar

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Fjögur mótsmet féllu á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum innanhúss í Laugardalshöll sem fram fór um helgina.

Í gær setti Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR mótsmet í kúluvarpi.

Erna Sóley bar höfuð og herðar yfir mótherja sína og kastaði kúlunni lengst 16,94 metra.

Það er þó töluvert frá Íslandsmeti hennar innanhúss, sem er 17,92 metrar. Íslandsmet hennar í kúluvarpi utanhúss er 17,39 metrar.

Öll metin hjá konum

Hin 18 ára gamla Júlía Kristín Jóhannesdóttir úr Breiðabliki kom fyrst í mark á 8,56 sekúndum í 60 metra grindahlaupi, sem er hennar besti tími auk þess að vera mótsmet.

Halldóra Huld Ingvarsdóttir úr FH náði einnig sínum besta árangri er hún hrósaði sigri í 3.000 metra hlaupi.

Halldóra Huld, sem er 35 ára gömul, kom langfyrst í mark á tímanum 9:47,56 og setti mótsmet.

Í 1.500 metra hlaupi kvenna á laugardag gerði hin 18 ára gamla Embla Margrét Hreimsdóttir úr FH sér lítið fyrir og sló 14 ára gamalt mótsmet er hún kom í mark á tímanum 4:33,79. Var það um leið hennar besti tími í greininni.

Besti árangur Guðna Vals

Á laugardag stóð Guðni Valur Guðnason úr ÍR uppi sem sigurvegari í kúluvarpi og náði þar sínu besta kasti á ferlinum innanhúss.

Guðni Valur kastaði kúlunni lengst 18,93 metra, náði því í sjöttu atrennu, og bætti sinn besta árangur um þrjá sentimetra.

Sérgrein hans er kringlukast, þar sem Guðni Valur á Íslandsmetið utanhúss. Metið er 69,35 metrar og það setti hann árið 2020.

Kolbeinn og Irma sigursæl

Í 60 metra hlaupi á laugardag kom Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH fyrstur í mark á tímanum 6,86 sekúndum. Íslandsmet hans í greininni er 6,68 sekúndur.

Í 200 metra hlaupi í gær kom Kolbeinn fyrstur í mark á 22,21 sekúndu. Er það nokkru frá Íslandsmeti hans í greininni, sem er 21,03 sekúndur.

Irma Gunnarsdóttir úr FH bar sigur úr býtum í langstökki í gær þegar hún stökk lengst 6,18 metra.

Lengst hefur Irma stokkið 6,45 metra í langstökki innanhúss. Það gerði hún á stórmóti ÍR fyrir tæpum mánuði. Á laugardag vann Irma einnig í þrístökki með því að stökkva lengst 13,30 metra. Íslandsmet hennar í greininni er 13,36 metrar.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR kom fyrst í mark í 400 metra hlaupi á laugardag er hún hljóp á 55,72 sekúndum.

Í hástökki kvenna á laugardag reyndist Birta María Haraldsdóttir úr FH hlutskörpust er hún stökk hæst 1,74 metra.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson