Börn Það vekur athygli að 42,2% umsóknir bárust frá Reykjavík.
Börn Það vekur athygli að 42,2% umsóknir bárust frá Reykjavík. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Umsóknum í meðferðarúrræði Barna- og fjölskyldustofu fjölgaði um 32,7% á milli áranna 2022 og 2023. Þetta kemur fram í samantekt Barna- og fjölskyldustofu fyrir árin 2020 til 2023. Samtals voru umsóknir í meðferðarúrræði á síðasta ári 211 talsins

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Umsóknum í meðferðarúrræði Barna- og fjölskyldustofu fjölgaði um 32,7% á milli áranna 2022 og 2023.

Þetta kemur fram í samantekt Barna- og fjölskyldustofu fyrir árin 2020 til 2023.

Samtals voru umsóknir í meðferðarúrræði á síðasta ári 211 talsins. Munaði þar mest um umsóknir í MST en þær voru 156 talsins á síðasta ári. MST er fjölkerfameðferð fyrir fjölskyldur barna sem glíma við hegðunarvandamál.

Óbreyttur fjöldi umsækjenda

Umsóknir um meðferð á meðferðarheimilinu Stuðlum voru 32 talsins á síðasta ári. Hélst fjöldinn milli ára óbreyttur. Umsóknir um meðferð á öðrum meðferðarheimilum, Lækjarbakka, Laugalandi og Bjargey, voru 23 talsins en þær voru 16 árið áður.

Það vekur athygli að ólíkt fyrri árum bárust flestar umsóknir um meðferð frá Reykjavík eða um 42,2% af umsóknunum. Fleiri umsóknir bárust vegna drengja en stúlkna.

Beiðnum um tímabundið og varanlegt fóstur fækkar en umsóknum um styrkt fóstur fjölgar. Á síðasta ári voru umsóknir um tímabundið fóstur 79, sjö umsóknum færri en árið áður. Umsóknir um varanlegt fóstur voru níu árið 2023 og drógust saman úr 19 frá árinu áður. Umsóknum um styrkt fóstur fjölgaði um 15 milli ára en þær voru 53 talsins á síðasta ári. Umsóknum um leyfi til að gerast fósturforeldrar fjölgaði úr 52 árið 2022 í 69 umsóknir á síðasta ári. 55% af þeim umsóknum bárust frá höfuðborgarsvæðinu.

Höf.: Kári Freyr Kristinsson