Ragnheiður Drífa Steinþórsdóttir fæddist á Stokkseyri í Árnessýslu 3. janúar 1948. Hún lést 20. janúar 2024 á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík.

Foreldrar hennar voru Dagbjört Sigurðardóttir á Stokkseyri, f. 3.9. 1924, d. 23.8. 2005, og Steinþór Jasonarson frá Vorsabæ í Flóa, f. 5.8. 1911, d. 24.8. 1955. Seinni maður Dagbjartar var Ágúst Guðbrandsson, f. 1.8. 1921, d. 13.11. 2005. Drífa var önnur í röð átta systkina en þau eru auk hennar Hólmfríður, Kristín og Jason, börn Steinþórs, og Guðbrandur Stígur, Guðríður Bjarney, nú látin, Sigríður Inga og Dagrún Mjöll, börn Ágústs.

Drífa fluttist unglingur til Ingvars Sigurðarsonar móðurbróður síns í Reykjavík og tók þar landspróf í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Hún hóf störf hjá Ríkisútvarpinu 16 ára gömul, fyrst á innheimtudeild, varð síðar aðalgjaldkeri og vann að kjaramálum af hálfu starfsmanna. Jafnhliða þeim störfum sá hún um óskalagaþáttinn Lög unga fólksins frá 1971 til 1977. Hún sótti lýðháskóla í Noregi veturinn 1967 til 1968 og dvaldi í Kaupmannahöfn sumarið 1968. Hún giftist Sverri Eðvaldssyni raftæknifræðingi, f. 8.5. 1952, d. 14.12. 2023. Börn þeirra eru: 1) Dagbjört Lára lífeindafræðingur, f. 2.12. 1974, d. 28.12. 2019, maki: David Charles Kempf, f. 1966. Þau skildu. Sonur þeirra er Daniel Michael, f. 7.8. 1994. Sambúðarkona hans í San Diego, Kaliforníu er Shakara Thompson, f. 2.11. 1994. Dóttir þeirra er Nova, f. 20.2. 2022. 2) Björgvin Daði rafiðnfræðingur, f. 6.1. 1978, maki: Helena Ketilsdóttir, f. 1975. Synir þeirra eru Hrannar Þór Rósarson, f. 18.2. 1997, og Heiðmar Örn, f. 11.7. 2006.

Drífa og Sverrir fluttust til Noregs 1977 en sneru heim um sjö árum síðar og skildu um svipað leyti. Drífa starfaði á fjármálaskrifstofu Ríkisútvarpsins til 1994 þegar hún lét af störfum vegna andlegra veikinda. Seinni eiginmaður Drífu er Logi Hjartarson, um langt skeið starfsmaður álversins í Straumsvík, f. 19.9. 1962. Þau Drífa kynntust fyrst á geðdeild Landspítalans, hófu sambúð sumarið 1993 og giftust í Stokkseyrarkirkju 3. september aldamótaárið 2000. Þau bjuggu lengst af í Vesturbæ Reykjavíkur og áttu saman ástríka og góða tíma um þriggja áratuga skeið.

Útför Drífu fer fram frá Neskirkju í dag, 19. febrúar 2024, klukkan 13.

Ragnheiður Drífa, eða Drífa eins og hún var alltaf kölluð af vinum og vandamönnum, kom inn í fjölskylduna mína sumarið 1993. Þá þróaðist vinskapur Loga bróður míns og Drífu yfir í djúpt, eldheitt ástarsamband sem entist til hinstu stundar. Drífa smellpassaði inn í rauðkollafjölskylduna í Fossvoginum og oft fannst mér eins og hún hefði alltaf verið á meðal okkar. Ég kynntist Drífu smám saman og komst fljótt að því hversu litríkan persónuleika hún hafði að geyma. Hún var eldklár, einstaklega hreinskilin og glettin. Maður þurfti aldrei að hafa áhyggjur af því að Drífa segði ekki sína meiningu, færi eins og köttur í kringum heitan graut væri hún spurð álits á einhverju. Hún var óhrædd við að tjá sig um allt á milli himins og jarðar og það gat brotist fram á ólíklegustu stundum. Ég var svo heppin að fá að vera svaramaður bróður míns í brúðkaupi þeirra Loga haustið 2000, en það fór fram á Stokkseyri, heimabæ Drífu. Sárafáir voru viðstaddir, því þannig vildu brúðhjónin haga athöfninni. Þegar presturinn fór yfir heiti brúðarinnar og minntist á að fylgjast að í einu og öllu brá Drífa skjótt við og sagði eitthvað á þessa leið (tilvitnun eftir breysku minni): „Bíddu, bíddu, á ég að hlýða öllu sem Logi segir? Nei, svo langt get ég ekki gengið þótt ég elski hann út af lífinu!“ Stórfemínistanum Drífu var nóg boðið. Um þetta spunnust smá rökræður á milli hennar og prestsins sem sannfærði Drífu um að ekki þyrfti að taka heitin alveg bókstaflega og allt fór vel. Hjúskaparsáttmálinn var staðfestur og við svifum öll út í haustsólina með kankvíst bros á vör.

Það var einstaklega gaman að gleðja Drífu. Hún var hrifnæm og þakklát og sýndi það vel í verki. Hvort sem hún fékk eitt lítið kerti, eyrnalokka eða stórgjöf var hún alltaf jafn glöð og ánægð, skein eins og sól í heiði. Eins fannst henni sérdeilis gaman að skreppa á kaffihús eða „teríu“ eins og hún kallaði það jafnan, bara rétt að fá sér kaffi og köku í góðum félagsskap. Ég held að hún hafi lifað lengi á litlum ánægjustundum af þessu tagi.

En Drífa glímdi við mikla erfiðleika og áföllin voru stór. Hún var ófeimin við að ræða andleg veikindi sín og kom m.a. fram í flottu viðtali í sjónvarpsþætti um geðmál þar sem hún ræddi hispurslaust um upplifun sína af geðsveiflum. Stundum langaði hana helst að kveðja þessa jarðvist en alltaf reis hún upp aftur og barðist við vanlíðan og áföll með Loga sinn sér við hlið. Stærsta höggið var missir Dagbjartar Láru, dóttur Drífu, sem lést langt um aldur fram. Þá vorum við eflaust mörg sem héldum að Drífa myndi brotna, enda þær mæðgur mjög nánar, en henni tókst að vinna sig í gegnum sorgina, a.m.k. að læra að lifa með henni.

Miklir persónuleikar skapa meira tómarúm en aðrir þegar þeir kveðja. Við sem eftir sitjum yljum okkur við minningar um hlátur, bros og skondin tilsvör elsku Drífu. Ég kveð mágkonu mína með hlýju og söknuði og vona að hún sé komin í fang Dagbjartanna sinna, móður og dóttur, í annarri vídd.

Margrét Helga
Hjartardóttir.