Menning Vonast er eftir að hægt verði að taka tankana í gagnið í sumar.
Menning Vonast er eftir að hægt verði að taka tankana í gagnið í sumar. — Morgunblaðið/Hafþór Heiðarsson
Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) hlutu styrk að fjárhæð kr. 15.000.000 til að ráðast í framkvæmdir á lýsistönkunum á Raufarhöfn. „Tilgangur verkefnisins er að gefa gömlum byggingum á Raufarhöfn hlutverk, efla…

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) hlutu styrk að fjárhæð kr. 15.000.000 til að ráðast í framkvæmdir á lýsistönkunum á Raufarhöfn.

„Tilgangur verkefnisins er að gefa gömlum byggingum á Raufarhöfn hlutverk, efla menningarlíf, laða að nýtt fólk og ferðamenn,“ segir Nanna Steina Höskuldsdóttir, verkefnastjóri hjá SSNE á Raufarhöfn, í samtali við Morgunblaðið.

Tankarnir voru byggðir 1938 til 1940 og er sambærilega tanka að finna á tveimur öðrum stöðum á landinu.

„Við fengum þennan styrk núna til að opna tankana. Setja hurðir á þá báða, laga þakið og rífa rör í gólfinu,“ segir Nanna og bætir við að koma þurfi upp góðri lýsingu að innan en að tankarnir verði hráir.

„Strax og það er búið ætti að vera hægt að nota þá undir listsýningar, tónleikahald og ýmsa menningarviðburði.“ Nanna segir hljómgrunninn inni í tönkunum góðan sem henti vel fyrir tónleikahald.

Síldarvinnsla ríkisins lokaði verksmiðjunni á Raufarhöfn upp úr aldamótum og voru tankarnir þrifnir í kjölfarið.

„Svo hafa þeir bara staðið auðir síðan.“

Nanna segir íbúa hafa haft margar hugmyndir um hvað skyldi koma í tankana.

„Þetta er vonandi fyrsta skrefið af mörgum,“ segir Nanna aðspurð. „Til að byrja með er það framtíðin. Svo veit maður aldrei hvað kemur eftir það,“ segir Nanna. Nefnir hún sem dæmi þá hugmynd að setja kaffihús á milli tankanna og tengja þá.

Spurð hvenær búast megi við að hægt verði að taka tankana í gagnið svarar Nanna að það verði vonandi sem fyrst. „Vonandi í júní, við vonum að þetta verði tilbúið í sumar.“

Verkefnið er í samstarfi við sveitarfélagið Norðurþing og fyrirtækið Gjólu sem er í eigu Ásdísar Thoroddsen.