Heili Fornar veirur hafa leikið þýðingarmikið hlutverk í þróun heilans.
Heili Fornar veirur hafa leikið þýðingarmikið hlutverk í þróun heilans. — Ljósmynd/Colourbox
Fornar veirur, sem sýktu hryggdýr fyrir milljónum ára, eru taldar hafa leikið lykilhlutverk í þróun mannsheilans og líkamsstærð. Þetta kemur fram í grein, sem birt var í tímaritinu Cell í síðustu viku um rannsókn á uppruna mýlis, en það er hvítt,…

Fornar veirur, sem sýktu hryggdýr fyrir milljónum ára, eru taldar hafa leikið lykilhlutverk í þróun mannsheilans og líkamsstærð.

Þetta kemur fram í grein, sem birt var í tímaritinu Cell í síðustu viku um rannsókn á uppruna mýlis, en það er hvítt, fitukennt efni utan um suma langa taugaþræði sem flytja taugaboð frá taugafrumum til annarra frumna í líkamanum.

Höfundar greinarinnar segja að genaröð, ættuð er frá svonefndum retróveirum sem ráðast inn í genamengi hýsilsins, skipti sköpum við framleiðslu mýlis og þá genaröð sé nú að finna í spendýrum, froskdýrum og fiskum.

Robin Franklin, taugavísindamaður hjá Altos Labs-Cambridge-vísindastofnuninni og aðalhöfundur greinarinnar, segir við AFP-fréttastofuna að í þróunarsögunni hafi ávallt verið „þrýstingur“ á að láta taugaþræði leiða taugaboð hraðar.

„Því hraðari sem leiðnin er, þeim mun hraðari viðbrögð,“ segir hann. Slíkt sé bæði hagfellt fyrir rándýr, sem reyna að ná bráð, og bráðina sem reynir að flýja.

Mýli greiðir fyrir slíkri taugaleiðni án þess að þvermál taugafrumna þurfi að stækka og því geta þær þjappast betur saman. Mýli veitir einnig stuðning, sem þýðir að taugar geta lengst og þannig stutt lengri útlimi.

360 milljón ár

Rannsóknir vísindamanna undir stjórn Franklins leiddu í ljós að genaröð sem hefur þróast frá innrænni retróveiru hafi lengi leynst í erfðamengi hryggdýra. Talið er að þessi genaröð hafi fyrst birst fyrir um 360 milljónum ára og tengist líklega frumunum sem framleiða mýli.

„Margir líta á veirur sem sóttkveikjur sem valda sjúkdómum,“ segir Franklin. Raunveruleikinn sé hins vegar mun flóknari og á ýmsum tímabilum þróunarsögunnar hafi retróveirur farið inn í erfðamengi og orðið samþættar kynfrumum mismunandi tegunda og þannig borist áfram til komandi kynslóða.

Eitt þekkt dæmi um slíkt er fylgjan, sem flest spendýr eiga sameiginlega, en uppruni hennar er rakinn til sýkils sem hefur greypst inn í erfðamengi okkar í fjarlægri fortíð. gummi@mbl.is