GÓSS Sigríður með bræðrunum Guðmundi Óskari og Sigurði Guðmundssonum í Flatey á Breiðafirði.
GÓSS Sigríður með bræðrunum Guðmundi Óskari og Sigurði Guðmundssonum í Flatey á Breiðafirði. — Ljósmynd/GÓSS
Lengi hefur staðið til að tríóið GÓSS héldi tónleika í Landnámssetrinu í Borgarnesi og það verður loks að veruleika klukkan 20.30 næstkomandi föstudag, 23. febrúar. „Okkur hefur oft verið boðið að koma en það hefur ekki gengið upp fyrr en nú,“ segir Sigríður Thorlacius söngkona

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Lengi hefur staðið til að tríóið GÓSS héldi tónleika í Landnámssetrinu í Borgarnesi og það verður loks að veruleika klukkan 20.30 næstkomandi föstudag, 23. febrúar. „Okkur hefur oft verið boðið að koma en það hefur ekki gengið upp fyrr en nú,“ segir Sigríður Thorlacius söngkona. „Við ætlum að spila bland af því sem við höfum spilað í gegnum tíðina, lög eftir okkur, önnur íslensk sönglög og fleira og svo laumum við inn einhverju nýju. Við aðlögum prógrammið árstímanum og bjóðum upp á bland í poka.“

Bræðurnir Guðmundur Óskar og Sigurður Guðmundssynir stofnuðu GÓSS með Sigríði 2017. „Okkur langaði til að fara út á land og spila, svo einfalt var það,“ segir Sigríður um byrjunina. „Við Guðmundur höfðum farið með Hjaltalín og spilað á fallegum stöðum og Siggi hafði gert það með Hjálmunum, þannig að við höfðum ekki alltaf verið í bænum en okkur þrjú langaði til að fara saman á landsbyggðarrúnt.“ Þau hafi verið samstarfsfólk á alla kanta og þeir bræður og því hafi verið hæg heimatökin. Þrjú saman væri líka heppilegur fjöldi, því þau gætu farið á einum bíl með allt sitt hafurstask. „Þetta var nokkuð handhægt, en þótt við værum frekar sein í allri skipulagningu náðum við að bóka hring, þetta var mjög gaman og við höfum því haldið þessu áfram.“

Góssentíð, fyrsta breiðskífa GÓSS, kom út 2019. Hún vakti töluverða athygli og var tilnefnd sem Plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Sigríður segir að þau hafi velt fyrir sér að gefa út aðra plötu. Þau hittist reglulega, fái sér kaffi, spili og syngi auk þess sem þau hafi komið saman fyrir jól með sérstaka dagskrá. „Svo er alltaf eitthvað þess á milli en helsta dagskrá okkar er sumartengd.“

Þegar Sigríður var lítil langaði hana til að verða óperusöngkona en það risti ekki djúpt. „Mig langaði líka að vera leikkona, dýralæknir, eignlega allt í heiminum.“ Hún var í klassísku söngnámi samfara námi í menntaskóla og eftir að hafa dvalið í París um hríð skipti hún yfir í Tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist úr djassdeildinni. „Þegar ég var í tónlistarskólanum byrjaði ég að syngja með samnemendum mínum, fór síðan í hljómsveitina Hjaltalín og eitt leiddi af öðru. Söngur að atvinnu var ekki ákvörðun heldur varð að veruleika jafnt og þétt eftir að ég var beðin að syngja í ýmsum athöfnum. Þá áttaði ég mig á því að ég gæti unnið fyrir mér með söng. Það hefur verið algjör gjöf.“

Sem fyrr segir hefur GÓSS fyrst og fremst haldið tónleika víða um land á sumrin, þegar þríeykið hefur ekki verið upptekið í öðrum verkefnum. Sigríður segir að þau séu farin að hugsa um hvað þau ætli að gera saman í sumar en hafi ekki skipulagt neitt enn. Þau geri samt ráð fyrir að halda í hefðina; fara allan hringinn eða í styttri ferðir. „Við höfum ekki planað neitt en förum örugglega út fyrir bæinn og spilum hér og þar.“