Jón Jens Kristjánsson skrifar á Boðnarmjöð: Ronaldo-fjölskyldan brjáluð eftir að rassinn var tekinn af henni. Sjáðu mistökin sem blaðið gerði. Sjá DV: Yfir ljósmyndum verður oft lítill klassi um líkamsparta er gjarnan spurt illt er að deila einum rassi ef hann er síðan tekinn burt

Jón Jens Kristjánsson skrifar á Boðnarmjöð: Ronaldo-fjölskyldan brjáluð eftir að rassinn var tekinn af henni. Sjáðu mistökin sem blaðið gerði. Sjá DV:

Yfir ljósmyndum verður oft lítill klassi

um líkamsparta er gjarnan spurt

illt er að deila einum rassi

ef hann er síðan tekinn burt.

Davíð Hjálmar Haraldsson leggur fyrir vísnagátu til skemmtunar: Eitt lausnarorð en útskýrið mismunandi merkingu í hverri línu:

Feitt og þunnt og fölt og dökkt.

Forvitin því hnika til.

Iðnin fær á flótta stökkt.

Fá þá öll að gera skil.

Limra eftir Gunnar J. Straumland:

Gunnar var glaðsinna maður,

grunnhygginn, hraður en staður,

unni að kíma

og kunni að ríma

þunnildisþvaður og blaður.

Eyjólfur Ó. Eyjólfsson skrifar: Í gærmorgun fylgdist ég með því í sjónvarpinu hvernig hraunið læddist að litlum ljósastaur og lukti hann logagreipum. Þegar ljós staursins slokknaði skyndilega greip mig undarlegur tregi:

Þótt staurinn í storminum frjósi

stendur hann hampandi ljósi

um heldimma nótt

hugdjarfur þótt

hlutskipti annað hann kjósi.

Um björgun er fánýtt að fjasa

er forlögin við manni blasa

og veikur og meyr

hann visnar og deyr

eins og varnarlaust smábarn á Gasa.

Limra eftir Helga Ingólfsson:

Í húsinu handan við Jörva

var haft eftir bóndanum Tjörva:

„Mitt sjálfdauða ket

sem krásir ég et

með klípu af þránuðum Smjörva.“

Limra eftir Jón Ingvar Jónsson:

Er Friðrekur jarðskjálftann fann

á flótta þá óðara rann

og barðist á millum

bóka úr hillum

uns Biblían rotaði hann.

Eyjólfur Óskar Eyjólfsson yrkir: Hugsanir og þras:

„Ég þrasa og þess vegna er ég

því ég þoli' ekki heimsku það sver ég“

mælti Hallbjörn en þá

segir Hildibjörg Gná:

„Ég hugsa og þess vegna fer ég.“