Karl Friðriksson
Karl Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tækni getur verið öflugt tæki til að efla lýðræði en er á sama tíma hugsanleg ógn við það. Eitt er víst að hraði tæknibreytinga mun aukast.

Karl Friðriksson og Sævar Kristinsson

Allar líkur eru á því að tækniþróun næstu ára muni hafa veruleg áhrif á lýðræðisþróun en óvíst er hversu hratt breytingarnar muni verða. Fyrir liggja ýmsar tæknilausnir sem geta fært kjósendur nær ákvörðunum um bætt samfélag. Íhaldssemi ráðandi afla á hverjum tíma hefur hins vegar oft verið mikil og hagsmunagæsla einstakra hópa sömuleiðis og því eru meiri líkur en ella á að breytingar geti dregist á langinn. Ekki má misskilja þessi orð þannig að íhaldssemi á þessu sviði sé ekki góð, því það er hún að vissu marki en má að sama skapi ekki ganga úr hófi fram. Í breytingum sem þessum þarf að tryggja að gagnrýnin umræða eigi sér stað um álitamál og gætt sé að öryggi og aðgengi allra.

Tökum þátt í að móta lýðræðið

Dagana 21.-23. febrúar næstkomandi verður haldin alþjóðleg ráðstefna í Reykjavík undir yfirskriftinni Futures of Democracies eða Framtíðir lýðræðis. Ráðstefnan er haldin á vegum Framtíðarseturs Íslands og Alþjóðasambands framtíðarfræðinga (World Futures Studies Federation, WFSF). Á ráðstefnunni verða haldin áhugaverð erindi en meginhluti ráðstefnunnar er settur undir vinnustofur þar sem stefnt er að virku samtali milli þátttakenda.

Skoðum allar hliðar málsins

Bent hefur verið á að tækni geti skapað félagslegt og stafrænt misrétti, skautun og sundrungu. Með því geta skapast stafrænar gjár meðal þjóðfélagsþegna og þannig grafið undan félagslegri samheldni og trausti. Einnig hefur verið sýnt fram á að nýting tækni, til dæmis á formi samfélagsmiðla, geti haft áhrif á sjálfsmynd, gildi og menningu fólks og þar með tilfinningar þess og hegðun.

Á sama tíma geta tæknilausnir bætt lýðræðislega og borgaralega þátttöku með því að bjóða upp á nýjar leiðir og hugsun. Nefna má í því samhengi bætt aðgengi að upplýsingum til að laða fram ólík sjónarmið og virkja hugmyndir um sameiginlegar aðgerðir. Þannig er hægt að nýta tæknilausnir meðal annars til að skapa yfirgripsmikla og gagnvirka upplifun sem fræðir kjósendur um pólitísk málefni, frambjóðendur og stefnur. Með því að laða fram ólíkar birtingarmyndir komandi framtíða getur tæknin búið til sýndarrými og vettvang sem auðvelda samskipti og samvinnu milli fólks á mismunandi stöðum og menningarheimum.

Pólitísk þreyta

Kjörsókn í mörgum vestrænum ríkjum hefur dalað. Kvartað er undan erfiðleikum við að ná til minnihlutahópa samfélagsins enda er þjóðfélagið orðið fjölbreyttara í dag en áður. Bent hefur verið á nauðsyn lýðræðislegrar nýsköpunar til að örva áhuga og vitund fólks á mikilvægi þess að sjónarmið allra fái að njóta sín.

Það þarf margt að koma til, svo að skilvirk þátttaka náist um einstök þjóðfélagsmál. Tækni getur verið öflugt tæki til að efla lýðræði en er á sama tíma hugsanleg ógn við það. Eitt er víst; tækniþróun í framtíðinni verður hraðari en verið hefur. Spurningin er hins vegar hvort við viljum nýta hana á ábyrgan hátt og móta siðferðislegan og lagalegan ramma um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir eða munum við „stinga höfðinu í sandinn“ með tilheyrandi vandamálum fyrir komandi kynslóðir?

Höfundar eru framtíðarfræðingar.