Í Hvannhólmanum Karen ásamt Pétri, Jóni og foreldrum sínum.
Í Hvannhólmanum Karen ásamt Pétri, Jóni og foreldrum sínum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Karen Elísabet Stephensen Halldórsdóttir er fædd 19. febrúar 1974 og ólst upp í Kópavogi, fyrst á Hlíðarveginum og svo í Hvannhólma þar sem hún býr enn í dag með dætrum sínum og þrjóskum 12 ára hundi sem heitir Þula

Karen Elísabet Stephensen Halldórsdóttir er fædd 19. febrúar 1974 og ólst upp í Kópavogi, fyrst á Hlíðarveginum og svo í Hvannhólma þar sem hún býr enn í dag með dætrum sínum og þrjóskum 12 ára hundi sem heitir Þula.

Á unglingsárum starfaði hún sem verkstæðispúki í Steypustöðinni þar sem bræður hennar höfðu einnig unnið. „Það var ekkert gefið eftir, þótt ég væri stelpa, pabbi sá engan mun á mér og bræðrum mínum þegar kom að vinnu. Mömmu leist nú ekkert á þetta, enda var ég þarna frá 13 ára aldri fram undir tvítugt, og með mér óx smá harðjaxlaskel til að lifa af í umhverfi með 30 körlum sem fannst þeir alltaf þurfa að tékka hvað ég þyldi. Fallegasta hrós sem ég hef fengið var frá verkstjóranum sem spurður var hvernig „stelpan“ stæði sig. Þá svaraði hann að hún væri besti vinnumaður sem hann hefði haft.

Seinna fór ég að vinna á Kópavogsvelli og staldraði líka við í tómatatínslu á Geysi eitt sumar. Ég fór í Digranesskóla, þaðan í nokkra menntaskóla þar sem það var alltaf eitthvert rótleysi á mér en lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla. Eftir það fór ég að vinna hjá BM flutningum í smátíma. Datt svo í barneignir og samhliða því lauk ég BA-gráðu í sálfræði og meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands.“

Karen endaði svo í pólitík og sat í bæjarstjórn Kópavogs 2014-2022. „Þeim störfum fylgdu ýmis áhugaverð trúnaðarstörf í þágu bæjarbúa. Ég hef alltaf litið á það sem forréttindi að starfa í almannaþágu og ég tók hlutverk mitt mjög alvarlega. Störf við stjórnmál eru í raun þjónustustörf og það tók meira og minna yfir allt mitt líf, þar sem ég reyndi alltaf að vera til þjónustu reiðubúin eins og skátarnir. Pólitíkin er sérstakt umhverfi sem mótaði mig bæði til góðs og ills.“

Karen sat í bæjarráði allan tímann sem hún var í bæjarstjórn, ásamt því að hafa verið formaður í velferðarráði, lista- og menningarráði og öldungaráði. Einnig sat hún í barnavernd, skólanefnd og leikskólanefnd. Samhliða þessu var hún kjörin í ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs Sambands íslenskra sveitarfélaga 2011-2022. Hún sat í stjórn Strætós 2018-2022 og var varamaður í Lánasjóði íslenskra sveitarfélaga 2019-2022. „Ég datt einnig inn sem varamaður á þing í einhver skipti á árunum 2015-2020.“

Frá árinu 2013 hefur Karen starfað hjá Raftækjasölunni ehf. sem skrifstofustjóri. „Ég sé um alla pappírsvinnu s.s. sölu, laun og bókhald. Fyrirtækið er í eigu bróður míns og í því starfa um tíu flottir rafvirkjar.

Eftir að ég hætti í pólitík og við andlát beggja foreldra minna sem létust með sex mánaða millibili hafði ég allt í einu rosa mikinn tíma. Stelpurnar mínar, sem eru yndi mitt og líf, voru orðnar vel sjálfstæðar og þurftu ekki mikið uppeldi og þá datt mér í hug að skrá mig í leiðsögunám hjá Endurmenntun HÍ. Ég hef í raun ekki hugmynd um hvernig mér datt þetta í hug. Fannst ég bara verða að snúa lífinu við og prufa nýja hluti, ætlaði mér alls ekki að starfa við þetta.

Ég kláraði námið með frábærum hópi af fólki og ákvað að henda inn umsókn hjá Atlantik og sjá til. Ég slapp ekki og fékk símtal um að bara skella mér í túra. Ég gleymi ekki fyrstu ferðinni, algerlega að deyja úr stressi. En þetta reddaðist og ég fann að þetta átti vel við mig. Ég er núna samhliða skrifstofustarfinu að fara með hópa frá Teiti ehf. ásamt því að vera búin að bóka mig í allt sumar hjá Atlantik.

Það eru alger forréttindi að geta skipt sér svona niður á milli tölvunnar og svo útiveru með ferðamönnum sem vilja kynnast Íslandi og okkar menningu. Maður kynnist landinu sínu svo óendanlega vel þegar maður sér það með augum ferðamanna. Allir þessir möguleikar sem eru hér, sérstaða þjóðarinnar og menning er svo merkileg þegar maður þarf að segja frá því.

Ég tók ákvörðun um að prufa nýja hluti og ég hef svo sannarlega gert það undanfarið og ég lít á lífið sem ævintýri og reyni alltaf að segja já frekar en nei. Ég tók einnig upp á því í fyrravor að skella mér á grásleppuveiðar með kærastanum mínum. Sem var ákveðin sturlun og menn höfðu ekki mikla trú á mér þegar ég mætti á höfnina með gervineglur. En ég kláraði þetta og fannst þetta með því skemmtilegasta sem ég hef gert, en algerlega það erfiðasta. Mér skilst að ég hafi nú alveg staðið mig. Í frítímanum tók ég upp á því að spila golf. Ég er algerlega komin með bakteríuna og þessi útivist og góður félagsskapur er hrein dásemd. Er samt frekar léleg ennþá og verð kannski alltaf byrjandi.

Ég nýt þess að fylgjast með fjölskyldu minni, sem stækkaði óvænt í september 2019 þegar til mín fluttust þau Leó Karenarson Amiri og Parizad Sedigh sem eru flóttamenn frá Íran. Þau urðu fljótlega hluti af minni fjölskyldu og kynni okkar hafa gert mig að betri manneskju ásamt því að ég fæ að kalla litla strákinn þeirra Sam Baltasar ömmustrák. Þau flýja hingað frá klerkastjórninni í Íran, í leit að frjálsu og mannúðlegu samfélagi. Þau starfa bæði hjá Olís og vona ég að þau nái brátt að fá íslenskan ríkisborgararétt.“

Fjölskylda

Dætur Karenar með fv. maka, Sigurði Erni Sigurðssyni, f. 20.5. 1971, eru 1) Júlía Vilborg Stephensen Sigurðardóttir, f. 9.1. 2001, í meistaranámi við lagadeild HR, 2) Elísa Helga Sigurðardóttir, f. 1.9. 2005, nemi við Fjölbrautaskólann í Garðabæ.

Karen er í sambandi með Guðmundi Geirdal sjómanni, f. 10.7. 1965.

Bræður Karenar eru Þorsteinn Halldórsson, f. 19.7. 1960; Jón Ólafur Halldórsson, f. 22.1. 1962, ráðgjafi og fv. forstjóri Olís, og Pétur Hákon Halldórsson, f. 6.6. 1967, rafvirkjameistari og eigandi Raftækjasölunnar ehf.

Foreldrar Karenar voru hjónin Halldór Jónsson, f. 3.11. 1937, d. 17.5. 2022, verkfræðingur og forstjóri Steypustöðvarinnar, og Steinunn Helga Sigurðardóttir, f. 6.6. 1937, d. 6.1. 2023, húsfreyja. Þau voru búsett í Kópavogi.