Hljóðblöndun Snert hörpu mína, himinborna dís, orti skáldið.
Hljóðblöndun Snert hörpu mína, himinborna dís, orti skáldið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Opnun tilboða í kjölfar útboðs Ríkiskaupa í innkaup á hljóðblöndunarborðum fyrir tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu fór fram á miðvikudaginn en kostnaðaráætlun vegna innkaupanna var 160 milljónir króna

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Opnun tilboða í kjölfar útboðs Ríkiskaupa í innkaup á hljóðblöndunarborðum fyrir tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu fór fram á miðvikudaginn en kostnaðaráætlun vegna innkaupanna var 160 milljónir króna.

Bárust tvö tilboð í innkaup borðanna, annað þeirra frá Atendi ehf. upp á rúmlega 181 milljón og hitt frá Exton ehf. sem bauð einni milljón hærra, eða rúmar 182 milljónir.

Á vef Ríkiskaupa kemur fram að opnunarskýrsla feli ekki í sér niðurstöðu útboðs, þar sé einungis birt heildartilboðsfjárhæð en endanlegt val geti ráðist af fleiri forsendum samkvæmt útboðsgögnum.

Harpa opnaði dyr sínar í maí 2011 og voru fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborgarsal hússins haldnir 4. maí.

Áætlanir um byggingu tónlistarhúss fyrir Íslendinga eru töluvert eldri en það hús, sem að lokum reis við Reykjavíkurhöfn. Áskorun um slíka byggingu birtist líkast til fyrst í blaðinu Þjóðólfi árið 1881, einum 130 árum áður en húsið stóð tilbúið og var opnað með viðhöfn.

Komst verkefnið á rekspöl á tíunda áratug síðustu aldar og rétt fyrir aldamót gáfu borgarstjóri og ríkisstjórn það út að áætlað væri að byggja landsmönnum tónlistar- og ráðstefnuhús í miðborginni.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson