Össur Kristinsson stoðtækjafræðingur fæddist í Reykjavík 5. nóvember 1943. Hann lést 6. febrúar 2024.

Foreldrar Össurar voru Kristinn Ólafsson verkamaður frá Kiðafelli í Kjós og Lilja Össurardóttir Thoroddsen saumakona, fædd í Örlygshöfn. Systur Össurar voru Hrafnhildur Thoroddsen, f. 1935, d. 2013, og Ingibjörg Kristinsdóttir, f. 1945, d. 2023.

Eiginkona Össurar var Björg Rafnar læknir, f. 1945, d. 2017. Börn þeirra eru Bjarni, f. 1968, maki Sigrún Þorgeirsdóttir, og Lilja, f. 1969, maki Bjarni H. Ásbjörnsson. Össur og Björg eiga fimm barnabörn og þrjú barnabarnabörn.

Össur nam stoðtækjafræði í Stokkhólmi, Svíþjóð. Hann stofnaði stoðtækjafyrirtækið Össur hf. árið 1971 og bátaþróunarfyrirtækið Rafnar árið 2005.

Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 19. febrúar 2024, klukkan 13.


Einn af mestu velgjörðarmönnum fólks með bæklanir er fallinn frá. Stoðtækjasmiðurinn og hugvitsmaðurinn Össur Kristinsson innleiddi nýjungar, sem ollu byltingu í meðferð fólks sem misst hefur útlimi, ekki aðeins því fólki sem á býr Íslandi, heldur líka um heim allan. Össur festi að auki stefnu í fjárhagsáætlun fyrirtækis síns, Össur h.f., drjúgt árlegt framlag til rannsókna og þróunar á sviði stoðtækja. Sú stefna var öðrum fyrirtækjum til eftirbreytni, ef þau ætluðu sér að vera samkeppnishæf.

Þannig varð fyrirtækið Össur h.f. leiðandi afl í þeim stórstígu framförum í gerð stoðtækja, sem áttu sér stað á síðustu áratugum og þann grundvöll lagði Össur Kristinsson.
Össuri kynntist ég fyrst árið 1976, þegar ég starfaði sem endurhæfingarlæknir á Landsspítalanum en hann var sá stoðtækjasmiður, sem ég leitaði mest til.
Við vorum ekki alltaf sammála um hverjir væru bestu gervilimirnir eða spelkurnar fyrir sjúklinga okkar. Hann hafði hlotið menntun sína í Svíþjóð en ég í Bandaríkjunum á heimsfrægri stofnun, New York University, en þar hafði ég jafnframt kennt stoðtækjafræði.
Því fann ég svolítið til mín, þegar ég var að ræða málin við Össur, en hann hafði þá oft að orði: Já, þetta er líklega í lagi, en það getur verið enn betra.
Á þeim tíma hugsaði ég að það væri nokkuð erfitt að gera honum til geðs. En síðar kom í ljós að hann hafði rétt fyrir sér!

Eftir að ég sneri aftur til starfa í New York, stakk ég upp á því við Össur að hann kæmi á tveggja vikna námskeið fyrir stoðtækjasmiði, við New York University. Hann kom og sótti námskeiðið, hlustaði af áhuga en benti þó prófessorunum á ýmsa vankanta í hönnun gervilima, einkum fyrir fólk sem misst hefur fótlegg ofan hnés. Þeir háu herrar, prófessorarnir, hlustuðu af athygli á Össur og með þeim tókst fljótlega hin ágætasta samvinna. Samstarf þetta leiddi til nýrrar lausnar í hönnun sem skjótt breiddist út um allan heim, hönnun gervilima ofan hnés, kölluð ISNY, (stytting á Ísland-NewYork).
Í kjölfarið fylgdi svo meistaraverk Össurar; þróun og uppfinning sílikon hulsunnar í stað ullarsokkanna til að fylla eða minnka bilið milli húðar og innri hliðar gervilims og þannig minnka eða eyða óþægindum notendans. Þessi uppfinning Össurar olli byltingu í meðferð fólks sem misst hefur útlimi, sem gat nú velflest gengið á eðlilegan hátt.
Óhætt er að segja að Össur Kristinsson hafi afrekað mikið um ævina, en aldrei heyrði ég hann segja eitt orð um afrek sín. Hugur hans var allur við næsta verkefni eða það sem hann var að vinna að þá stundina. Eftir að hann hætti í stjórn Össurar h.f., sneri hann sér að hönnun á skrokki og kili báta og skipa.
Sem læknir og fv. stjórnarmaður í Össuri h.f. til margra ára hafði tjáði ég honum að ég hefði meiri áhuga á framlagi hans til frekari þróunar stoðtækja. Ég sem trúaður maður kom ég inn á það í samtali við hann um þann þanka minn að líklega hafði hann fæðst fyrir atbeina æðri máttarvalda með frávik sem fólst í að það vantaði hluta á öðrum fæti hans neðan við hné. Þannig hafi hann verið fær um að beita hugviti sínu í þágu allra þeirra sem hefðu við svipaðar bæklanir að etja.
Hann tók þessari getgátu minni heldur fálega á þeirri stundu, en þótti hún samt nokkuð áhugaverð!
Utan starfs síns, átti fjölskyldan huga hans allan, eiginkona, börn, barnabörn, tengdabörn, ættmenni. Augljóst var hve náið var á milli þeirra hjóna Björgu Rafnar læknis og hans á meðan hún lifði. Hann hefur því án efa upplifað mikinn söknuð við fráfall hennar.
Hann talaði af mikilli ástúð um börn þeirra Bjargar, þau Bjarna og Lilju. Sem einlægur unnandi íslenskrar náttúru, var Össur hreykinn af því að börn þeirra Bjargar skyldu stofna heimili í íslenskum sveitum, á Barðaströnd og á Skeiðum.
Við Hrafnhildur vottum þeim öllum okkar dýpstu samúð.
Við munum minnast Össurar með hlýju og af þakklæti.

Kristján Tómas Ragnarsson.