Það er útlit fyrir að einhvers konar bölvun hvíli á enska knattspyrnumanninum Harry Kane. Eins og þekkt er hefur Kane, einn besti sóknarmaður heims, aldrei unnið titil á ferlinum. Þegar hann skipti til Bayern München frá Tottenham síðastliðið sumar…

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Það er útlit fyrir að einhvers konar bölvun hvíli á enska knattspyrnumanninum Harry Kane.

Eins og þekkt er hefur Kane, einn besti sóknarmaður heims, aldrei unnið titil á ferlinum. Þegar hann skipti til Bayern München frá Tottenham síðastliðið sumar þótti næsta víst að titlarnir færu loks að raðast inn.

Fyrsta tækifærið kom strax í fyrsta leik, gegn RB Leipzig þar sem keppt var um meistara meistaranna í Þýskalandi. Þeim leik töpuðu Bæjarar.

Bayern hefur verið í áskrift að þýska meistaratitlinum. Liðið hefur unnið hann undanfarin 11 ár!

En nei, sigurgöngunni virðist vera að ljúka einmitt þegar Kane gengur til liðs við félagið. Átta stig skilja nú topplið Bayer Leverkusen og Bayern að þegar 12 umferðir eru óleiknar.

Það getur auðvitað ýmislegt gerst og breyst í 12 leikjum en fátt virðist geta stöðvað eimreið Xabi Alonso í að tryggja Leverkusen sinn fyrsta Þýskalandsmeistaratitil.

Bæjarar féllu úr leik í þýsku bikarkeppninni gegn C-deildarliði Saarbrücken og eina von Kane um titil á þessu tímabili virðist því liggja í Meistaradeild Evrópu. Miðað við frammistöðu liðsins í fyrri leiknum gegn Lazio í 16-liða úrslitum í síðustu viku verður það að teljast hæpið.

Jafnvel þó að Kane grípi í tómt á sínu fyrsta tímabili í Þýskalandi hlýtur hann að minnsta kosti að vinna einn slíkan á næsta tímabili enda óalgengt að Bayern spili mörg tímabil án þess að vinna bikar. Nema máttur bölvunar Kane sé slíkur?