Sighvatur Björgvinsson sendi mér eina litla limru: Dagur er kominn að kveldi, kvöldsólar- brenndur í eldi. Hvert hann svo fer, og hvað ætlar hann sér, þegar hverfur hann undan feldi? Björn Ingólfsson skrifar á Boðnarmjöð: Þegar ég fletti upp í…

Sighvatur Björgvinsson sendi mér eina litla limru:

Dagur er kominn að kveldi,

kvöldsólar- brenndur í eldi.

Hvert hann svo fer,

og hvað ætlar hann sér,

þegar hverfur hann undan feldi?

Björn Ingólfsson skrifar á Boðnarmjöð: Þegar ég fletti upp í Fésbók í morgun dúkkaði upp orðið VALTARI með stóru letri. Ég skoðaði það ekkert nánar og þessi status hvarf í kraðakið. En á morgungöngunni spruttu upp af þessu orði tvær guðhræddar systur vel við aldur:

Lesefni systra er Saltari

á svolitlu altari.

Önnur er helmingi haltari

en hin sem er valtari.

Halldór Halldórsson hafði til margs að hlakka: Við, sem vorum aldrei fremstir í sénsaröðinni á unglingsárunum, fengum stundum símanúmer og heimilisfang á sérvíettu; en …:

Sæll ég hoppað gæti' um grund

og gjarnan skoppa myndi,

til að eiga ástarfund;

ef adressuna fyndi!

Tryggvi Jónsson bætti við:

Framboð af okkur var feikna gott

fyrir allar heimsins snótir.

Þegar við mættum þær flúðu brott

því við vorum svo ljótir.

Þorgeir Magnússon segir: Hér kemur, held ég, úrkast og hringhent afbrigði af ferskeytlu. – Allt ósköp einfalt og saklaust á sunnudegi:

Töluvert það tefjast kann

að tíminn líði.

Stórlega þó styttist hann

við stökusmíði.

Sólin merlar glæ og grund

glöð á ferli sínum,

lýsir Erlu og um stund

öðrum kerlum mínum.

Ingibjörg er aftandigur en örmjó
framan.

Skyldi ekki mega skera 'ana
sundur

og skeyta 'ana saman?

Fuglalimra eftir Pál Jónasson Hlíð:

Eineygður óðinshani

var alltaf á fullu spani

enda skrifari góður

svo skemmtinn og fróður,

og háðfugl á hæsta plani.