Jónas Haraldsson
Jónas Haraldsson
Ég spyr: er framferði sem þetta það sem mun raungerast hér á landi til framtíðar varðandi kröfugerð flóttamanna og stuðningsaðila þeirra?

Jónas Haraldsson

Öllum er í fersku minni 7. október sl., þegar liðsmenn Hamas réðust fyrirvaralaust inn í Ísrael með tilheyrandi drápum og eyðileggingu, svo annar eins skepnuskapur hafði ekki sést. Viðbrögð Ísraelsmanna létu ekki á sér standa, því strax þann 10. s.m gripu þeir til hermdaraðgerða, sem enn standa yfir með hömlulausri eyðileggingu og manndrápum, eins og alkunna er. Þetta leiðir til þess að menn geta ekki framar litið Ísraelsmenn réttum augum vegna þessara óhæfuverka. Þá einnig vegna þess að þetta mun óhjákvæmilega leiða til gífurlegs flótta múslima frá Gasa til Evrópu, m.a. Íslands. Þetta er ekki það sem við Íslendingar þurfum á að halda, að hingað streymi fjöldi múslima, sem virðast hvergi hafa getað aðlagast vegna trúarbragða sinna, menningarsiða o.fl, eins og dæmin sýna frá öllum löndum Evrópu, sbr. t.d. Svíþjóð. Þetta mun ekki breytast.

Tilefni þessara skrifa minna er skandallinn á Austurvelli. Eins og alkunna er höfðu nokkrir Palestínu-Arabar krafist þess að fjölskyldur þeirra á Gasa, sem fengið höfðu landvistarleyfi hér á landi, yrðu sóttar og fluttar til Íslands. Til að fylgja kröfum sínum eftir reistu þeir mörg tjöld á gangstéttinni fyrir framan Alþingi og bjuggu þar í mjög langan tíma. Jafnframt festu þeir m.a. Palestínufána á ljósastaura upp við sjálft Alþingishúsið og að auki á lága ljósastaura við gangstíga á Austurvelli. Þá voru gaskútar tengdir við tjöldin auk lausra vörubretta og ýmislegs drasls og skilta, sem voru í kringum tjöldin. Einnig notuðu þeir íslenska fánann eins og þeim sýndist, en um notkun hans gilda ströng ákvæði laga og reglna.

Ég hef orðið var við það úti um allt, að þessi ósvífni og yfirgangur hefur valdið innfæddum Íslendingum mikilli reiði og um leið ýtt undir neikvæða afstöðu til Palestínu-Araba og trúbræðra þeirra. Sjálfum hefur mér sjaldan verið eins misboðið á ævinni, að sjá þennan ósóma á sjálfum Austurvelli, og þá ekki síður að búið væri að reisa stórt tjald með sófasettum og tilheyrandi drasli við og inni í því tjaldi. Þetta var gert með leyfi þeirra sem stjórna Reykjavíkurborg nú í dag illu heilli. Þessi tjaldborg stóð þarna í rúman mánuð og var um leið niðurlægjandi framkoma gagnvart Reykvíkingum og ekki síst virðingu Alþingis.

Maður spyr sig: Hvað héldu þessir Palestínu-Arabar við Austurvöll að við Íslendingar værum? Til þess að koma sínum persónulegu kröfum á framfæri við stjórnvöld, þá gætu þeir leyft sér með framferði sínu hvað sem væri, þar með talið að smána það sem okkur Íslendingum er kært og skiptir okkur miklu máli sem íslensk þjóð? Við Íslendingar látum ekki bjóða okkur hvað sem er, eins og þessir aðilar virðast greinilega hafa haldið, að þeir gætu gert eins og þeim sýndist með frekju og yfirgangi máli sínu til framdráttar. Helgar tilgangurinn meðalið? Ég spyr: er framferði sem þetta það sem mun raungerast hér á landi til framtíðar varðandi kröfugerð flóttamanna og stuðningsaðila þeirra?

Stjórnvöld hefðu að sjálfsögðu átt strax að láta fjarlægja þessi tjöld af gangstéttinni og sjálfum Austurvelli vegna þeirrar vanvirðingar, sem Alþingi og Íslendingum var sýnt með þessari framkomu. Engir Íslendingar hefðu fengið að mótmæla einu eða neinu með þeim hætti sem þarna átti sér stað, hversu þýðingarmikið sem málið kynni að vera fyrir Íslendinga. Gæti þá ástæðan fyrir því verið sú að þeir væru bara innfæddir Íslendingar og skattgreiðendur, en ekki flóttamenn á opinberri framfærslu, á bísanum, sem um leið eru að skerða möguleika Íslendinga á að fá heilbrigðisþjónustu, menntun o.fl.?

Þessi ræfildómur íslenskra stjórnvalda vegna ofríkis og frekju þessara áðurnefndu aðila og fleiri, sbr. t.d. samtökin No Boarders, leiðir hugann að því hver sé réttur Íslendinga í dag til að fá að lifa í landinu í friði með sín lífskjör og menningu. Á sama tíma er flóttamannastraumurinn að kæfa okkur og er þegar orðinn gífurlegur fjárhagslegur baggi á ríkissjóð og þar með skattborgara landsins. Það ástand mun versna haldi fram sem horfir. Ljóst er að við óbreytt ástand verður ekki lengur unað. Hingað og ekki lengra. Það er komið meira en nóg.

Höfundur er lögfræðingur.

Höf.: Jónas Haraldsson