Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Viljayfirlýsing um að tryggja raforkuöryggi í Vestmannaeyjum og framgang orkuskipta verður undirrituð í Vestmannaeyjum dag, en hún kveður á um lagningu tveggja rafstrengja til Eyja sem liggja munu frá spennistöð í Rimakoti skammt vestan við Landeyjahöfn. Áformað er að strengirnir verði lagðir árið 2025 og hefur verkið þegar verið boðið út.
Þeir sem standa að viljayfirlýsingunni eru Landsnet, innviðaráðuneytið, HS Veitur og Vestmannaeyjabær, ásamt helstu orkunotendum í Eyjum, þ.e. fiskimjölsframleiðendum og landeldisfyrirtækinu Laxey.
Endurnýjanleg orka í Eyjum
„Samvinnan við fyrirtækin í Vestmannaeyjum felst í því að við tryggjum aðgang að rafmagni, en fyrirtækin afla sér orku eftir þörfum og skipta um orkugjafa, færa sig úr jarðefnaeldsneyti en byggja þess í stað á endurnýjanlegri orku. Ef þetta samstarf gengur eftir verður þetta mjög góð lausn og þegar upp verður staðið munu Vestmannaeyjar eingöngu nýta endurnýjanlega orku,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets í samtali við Morgunblaðið.
Verkefnið snýr að lagningu nýrra 66 kílóvolta sæstrengja á milli Rimakots og Vestmannaeyja ásamt tilheyrandi jarðstrengjum á landi og breytingu á tengivirkjum í Eyjum og Rimakoti í Landeyjum.
Eftir er að útfæra nákvæmlega hvar rafstrengirnir munu liggja, en þeir munu þó ekki koma á land í Vestmannaeyjum á sama stað og þeir lagðir eins óháðir hvor öðrum og kostur er og þannig reynt að tryggja orkuöryggi. Áætlað er að verkefnið kosti tæpa fimm milljarða króna, en hinn aukni raforkuflutningur mun standa undir kostnaði við framkvæmdina, að sögn Guðmundar Inga.
Rafstrengurinn til Vestmannaeyja sem kallaður hefur verið strengur nr. 3 er í notkun sem og eldri strengur sem nefndur hefur verið strengur nr. 1, en hann er kominn á síðasta snúning.
Tryggja orkuöryggi
„Þetta gengur út á að tryggja orkuöryggi í Vestmannaeyjum til framtíðar og einnig að nægjanlegt svigrúm sé í strengjunum til að mæta aukinni orkuþörf sem verður til vegna orkuskipta, þannig að Eyjarnar geti orðið óháðar mengandi orkugjöfum, nema í undantekningartilvikum,“ segir Guðmundur Ingi og nefnir einnig að hin aukna raforka sem unnt verður að flytja til Eyja eigi að geta tryggt stórnotendum möguleika á orku, að því gefnu að næg raforka sé til skiptanna í landskerfinu.
„Leiðin verður greið, möguleikarnir til staðar og vilji allra stendur til að láta þetta ganga eftir,“ segir Guðmundur Ingi.