Gísli Pálsson, prófessor emeritus í mannfræði við Háskóla Íslands, fær lofsamlega umsögn um bók sína um síðasta geirfuglinn, The Last of Its Kind, í nýjasta tölublaði tímaritsins Science

Gísli Pálsson, prófessor emeritus í mannfræði við Háskóla Íslands, fær lofsamlega umsögn um bók sína um síðasta geirfuglinn, The Last of Its Kind, í nýjasta tölublaði tímaritsins Science. Í bókinni, sem kom út í Bandaríkjunum 6. febrúar og er mikið breytt og aukin útgáfa Fuglsins sem gat ekki flogið frá 2020, styðst Gísli við heimildir sem tveir Bretar, John Wolley og Alfred Newton, skráðu eftir leiðangur til Íslands 1858.

Í Science segir að Gísla hafi ekki bara tekist „dásamlega“ vel að nýta einstaka frumheimild, heldur einnig að setja efnið í viðeigandi sögulegt samhengi. The Last of Its Kind sé „heillandi, mikilvæg og tímabær bók“ um útrýmingu tegundar. Hnignun annarra tegunda hafi brátt yfirskyggt útrýmingu geirfuglsins, en Gísli minni lesendur á að hvarf hans hafi markað tímamót í að opna augu manna fyrir því sem glatast gæti af mannavöldum í villtri náttúrunni.