Markaskorari Anna Úrsúla Guðmundsdóttir fagnar langþráðu marki fyrir Val gegn Haukum í byrjun mánaðarins.
Markaskorari Anna Úrsúla Guðmundsdóttir fagnar langþráðu marki fyrir Val gegn Haukum í byrjun mánaðarins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handknattleikskonan Anna Úrsúla Guðmundsdóttir tók skóna af hillunni í vetur og hefur verið í lykilhlutverki hjá Íslandsmeisturum Vals. Anna Úrsúla, sem er 38 ára gömul, hefur nokkrum sinnum lagt skóna á hilluna en hún er ein sigursælasta handboltakona sem Ísland hefur átt

Handbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Handknattleikskonan Anna Úrsúla Guðmundsdóttir tók skóna af hillunni í vetur og hefur verið í lykilhlutverki hjá Íslandsmeisturum Vals.

Anna Úrsúla, sem er 38 ára gömul, hefur nokkrum sinnum lagt skóna á hilluna en hún er ein sigursælasta handboltakona sem Ísland hefur átt.

Hún hefur sjö sinnum orðið Íslandsmeistari, tvívegis með Gróttu og fimm sinnum með Val, og þá hefur hún fimm sinnum orðið bikarmeistari.

„Ég var í mjög góðu standi fyrir áramót og ég ákvað að snúa aftur á völlinn þar sem Valsliðið var í meiðslavandræðum,“ sagði Anna Úrsúla í samtali við Morgunblaðið.

Fáliðaðar til að byrja með

„Mariam Eradze sleit krossband og Hildur Björnsdóttir meiddist á fingri þannig að þær voru fáliðaðar til að byrja með. Ég hafði mætt á æfingar hjá þeim og ákvað að slá til og spila með liðinu þegar eftir því var leitað. Það mætti alveg segja sem svo að ég sé komin á fullt en ég mæti í mesta lagi á tvær æfingar í viku enda eru hnén á mér aðeins byrjuð að finna fyrir álaginu. Hugarfarið breytist aðeins þegar maður kemur inn í þetta með stuttum fyrirvara og ég er í raun bara að hugsa um einn leik í einu og að reyna að halda mér í sæmilegu standi.

Mér líður samt ágætlega í líkamanum miðað við allt og þetta snýst meira hjá mér um að aðstoða liðið. Við erum með mjög breiðan og góðan hóp í dag og þjálfararnir horfa meira á mig núna sem leikmann sem getur komið inn í þetta þegar aðrar þurfa hvíld, þá er oft gott að henda gamla jálkinum inn á. Ég er alveg tilbúin að segja þetta gott þegar ég fæ þau skilaboð að þetta sé komið gott og að ég eigi vinsamlegast að koma mér heim,“ sagði Anna Úrsúla í léttum tón.

Ógeðslega gaman í handbolta

Eins og áður sagði hefur hún nokkrum sinnum lagt skóna á hilluna en af hverju gengur henni svona illa að hætta í handbolta?

„Þetta er mjög skemmtileg og góð spurning. Ég ætlaði alltaf að vera þessi týpa, að þegar ég myndi hætta í handbolta þá myndi ég bara hætta og ekki koma nálægt neinu íþróttahúsi en það er ekki alveg staðan. Mér finnst bara svo ógeðslega gaman í handbolta og eins fáránlegt og það hljómar finnst mér mun skemmtilegra að spila handbolta en að horfa á hann.

Ég er alls ekki týpan sem fer út að hlaupa eða synda og satt best að segja finnst mér það hundleiðinlegt. Mér finnst mun skemmtilegra að lyfta lóðum eða vera í CrossFit. Ég er hins vegar til í að hlaupa, ef það er á eftir fótbolta eða handbolta. Ágúst Jóhannsson [þjálfari Vals] veit það vel að ég þarf að vera með bolta til þess að geta hlaupið og hann er duglegur að nýta sér það.“

Hugurinn skrefi á undan

Anna Úrsúla hefur unnið lengi með Ágústi Jóhannssyni þjálfara Valsliðsins og þekkjast þau vel.

„Hann var aðeins að pressa á mig í fyrra að taka skóna af hillunni en það var svona meira undir rós. Liðið var í frábæru standi á síðustu leiktíð, allir leikmenn liðsins voru heilir heilsu og það var ekkert vesen þannig séð. Staðan var önnur núna, eins og ég sagði áðan, og ef ég get minnkað álagið aðeins, með því að standa vörnina á meðan aðrir leikmenn fá hvíld, þá er það lítið mál.

Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá hef ég ekki hugmynd um af hverju hann hefur svona mikla trú á mér, það er í raun hálfóskiljanlegt, en ég held að hann fíli líka kjaftinn á mér inni á vellinum. Það er samt klárt að ég er ekki sami einstaklingur og ég var í gamla daga og skrokkurinn er ekki eins. Það var stór ástæða fyrir því að ég kallaði þetta gott á sínum tíma en það er líka þannig að hugurinn er alltaf nokkrum skrefum á undan líkamanum.“

Mjög gaman að skora

Valskonur, sem hafa aðeins tapað einum leik á tímabilinu, eru í ansi vænlegri stöðu í deildinni en liðinu dugir eitt stig úr síðustu þremur leikjum sínum til þess að tryggja sér deildarmeistaratitilinn. Þá er Valsliðið komið áfram í undanúrslit bikarkeppninnar þar sem það mætir ÍR í Laugardalshöllinni 7. mars.

„Þetta hefur gengið mjög vel hjá okkur í vetur og ég er alveg tilbúin til að klára tímabilið með liðinu ef til þess kemur. Þetta snýst meira um það hvað þjálfarateymið vill gera en ef þeim finnst ég ennþá getað hjálpað liðinu, og skrokkurinn verður í lagi, er ég klár í slaginn. Það getur líka alveg komið til þess að þau þurfi ekki á mér að halda og þá verð ég bara klár í að peppa liðið í klefanum og á hliðarlínunni.“

Anna Úrsúla skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild í langan tíma gegn Haukum í byrjun febrúarmánaðar og var ákaft fagnað af liðsfélögum sínum.

„Það er nú bara þannig að ég fæ lítið að taka þátt í sóknarleiknum og ætli það sé ekki rétt að segja að maður sé sóknarsveltur. Ágúst er alltaf skíthræddur þegar ég fæ boltann í sókninni því oftast geri ég bara það sem mig langar til þess að gera. Hann treystir mér ekki alveg og er alltaf með hjartað í buxunum þegar ég tek þátt í sókninni en ég stalst fram í einu hraðaupphlaupi um daginn og náði að lauma boltanum í netið, sem var mjög gaman.“

Erfitt að hætta

Anna Úrsúla verður 39 ára gömul í maí, kemur til greina að taka annað tímabil með Valsliðinu?

„Ég bara get ekki verið það heimsk að byrja aftur eftir þetta tímabil, ég neita að trúa því. Ef það gerist þá þarf ég að fara að láta krukka eitthvað í hausinn á mér. Ég hef rætt þetta við aðra íþróttamenn í gegnum tíðina, hversu erfitt það er að hætta, og það er mun algengara en fólk gerir sér grein fyrir, held ég.

Það eru einhverjir sem hafa farið vægast sagt óhefðbundnar leiðir, sem ég ætla ekki að nefna neitt sérstaklega, en ég hef aldrei leitt hugann að því. Ég var samt beðin um að taka þátt í rannsókn sem snýr að því af hverju það er svona erfitt að hætta og það segir mér ýmislegt. Ég lofa hins vegar að klára þetta tímabil og svo mun ég aldrei stíga aftur inn á handboltavöllinn. Ég ætla að pína Valsarana í einhverja alvöru kveðjuveislu svo ég mæti örugglega aldrei aftur inn á völlinn,“ bætti Anna Úrsúla við í léttum tón í samtali við Morgunblaðið.