Oleksandr Tarnavskí, yfirmaður herja Úkraínu í suðri, sagði í gær að Rússar reyndu nú að sækja fram í Saporísja-héraði og að þeir hefðu gert margar árásir á þorpið Robotyne, sem Úkraínumenn náðu að frelsa síðasta haust.
Sagði Tarnavskí á samskiptaforritinu Telegram að Rússar sendu fram litla árásarhópa sem studdir væru af bryndrekum, en að Úkraínuher væri að verjast áhlaupum þeirra. Hins vegar mætti varnarlið þorpsins þola þunga stórskotahríð frá Rússum.
Sókn Rússa kemur í kjölfar þess að þeir náðu að vinna bæinn Avdívka í Donetsk-héraði á sitt vald, en það er fyrsti áþreifanlegi sigur Rússa í stríðinu frá því að þeir lögðu Bakhmút undir sig í fyrra.
Tafir Ungverja óviðunandi
Donald Tusk forsætisráðherra Pólverja gagnrýndi í gær stjórnvöld í Ungverjalandi fyrir þær „óviðunandi“ tafir sem orðið hefðu á því að ungverska þingið staðfesti aðildarumsókn Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu.
Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands sagði um helgina að deila Ungverja við Svía væri næstum útkljáð og umsóknin yrði staðfest fljótlega. Fulltrúar Ungverja neituðu að funda með bandarískri þingnefnd um helgina en þar átti m.a. að ræða umsókn Svía.