Vilhjálmur Þór Matthíasson fæddist 20. febrúar 1974 í Kópavogi og ólst þar upp til tíu ára aldurs þegar fjölskyldan fluttist í Mosfellsbæinn.
„Ég held að það sé óhætt að segja að ég hafi verið bæði óþekkur og uppátækjasamur í æsku,“ segir Vilhjálmur. Hann segir að lítil ánægja hafi verið með sum uppátækin, eins og þegar hann ákvað að endurskipuleggja garð nágrannans og fjarlægja allar rósirnar sem að vonum vakti ekki mikla lukku hjá nágrannanum eða foreldrunum. „Við guttarnir vorum alltaf að brasa eitthvað úti. Það var svo mikið af kanínum í Fossvogsdalnum og við fórum þangað og veiddum þær og vorum með þær í búri í garðinum heima.
Erfitt að sitja kyrr heilan tíma
Vilhjálmur segir að hann hafi ekki rekist vel í skóla og hafi oft verið rekinn úr tímum. „Ég er lesblindur og með athyglisbrest, sem ekkert var athugað á þessum árum, og ég bara gat ekki setið kyrr út heila klukkustund, en ég hef oft fengið að heyra að ég sé ofvirkur.“ Tíminn fyrir skólann var miklu betri, en Vilhjálmur bar út Moggann og var með mörg hverfi og segir að það hafi tekið hann um tvo tíma að bera út.
„Ég gat ekki beðið eftir að losna úr skólanum og fara að vinna,“ segir hann, en meðfram skólagöngunni í Mosfellsbænum æfði hann sund af kappi. „Við félagarnir settum nokkur Íslandsmet í boðsundum, sem var mjög gaman.“
Í jakkafötum á djammið
Vilhjálmur hefur alltaf verið orkumikill og hann vissi strax að hann myndi vilja vinna útivinnu þar sem væri mikil hreyfing. „Ég fór að vinna hjá pabba í jarðvinnufyrirtæki og síðan fór ég að vinna við malbikun og völtun og kunni mjög vel við mig þar. Það var mikið að gera sem hentaði mér mjög vel.“ Það var unnið myrkranna á milli og svo var stundum farið í bæinn að djamma. „Við félagarnir dressuðum okkur upp í jakkaföt til að fara í bæinn og féllum ekkert of vel í hópinn, en þá var mikil pönksveifla í höfuðborginni,“ segir hann og hlær að minningunni. „En að vera í jakkafötum auðveldaði okkur að komast inn á skemmtistaðina þar sem við höfðum ekki aldur til.“
Vilhjálmur byggði sér hús aðeins 19 ára gamall í Mosfellsbænum og hélt áfram að vinna mikið. Árið 2004 stofnaði hann Malbikstöðina, en þá var hann búinn að vita lengi að hann vildi vera sinn eigin herra. „Ég myndi nú ekki mæla með þessu við nokkurn mann, því þetta var gríðarleg vinna og 90-110 tíma vinnuvikur algengar. En maður fann ekkert fyrir þessu þegar maður var ungur,“ segir hann og minnist þess að á tímabili þegar hann var 22 ára vann hann fastan vinnutíma og fór þá í ræktina í tvo tíma eftir vinnu til að verða nægilega þreyttur til að geta sofnað á kvöldin.
Stærsta iðngreinin
„Ég hef allt mitt líf unnið við jarðvinnu og í kringum vinnuvélar og hef nú rekið fyrirtækið mitt Malbikstöðina í 20 ár,“ en í dag er Vilhjálmur formaður félags Vinnuvélaeigenda sem er undir regnhlíf Samtaka iðnaðarins. „Ég er stoltur af því að hafa komið að vinnu við að koma af stað námi í jarðvirkjun sem er nýtt nám fyrir þá sem starfa við jarðvinnu á Íslandi. Þetta er líklega stærsta iðngreinin í dag, því það er ekki búinn til nokkur vegur, né byggt nokkurt hús án þess að við komum að því. En það var ekkert nám í boði og fyrirtækin þurftu að vera skólar fyrir nýtt fólk.“
Vilhjálmur bjó í Mosfellsbænum fram til 2021 þegar hann sameinaði fjölskylduna og fjölskyldu konu sinnar og flutti til Reykjavíkur. Þau Lilja eru mikið fyrir útivist, fara mikið út að ganga og í fjallgöngur. „Svo vorum við að byrja að æfa golf, og ætlum að vera á afmælinu að spila golf í Flórída.“
Fjölskylda
Sambýliskona Vilhjálms er Lilja Samúelsdóttir fjármálastjóri, f. 4.6. 1975, og þau búa í Reykjavík. Foreldrar Lilju eru hjónin Samúel Ingimarsson, f. 15.12. 1952, og Ástríður Júlíusdóttir, f. 16.3. 1952, og fagna þau 50 ára brúðkaupsafmæli í apríl nk.
Börn Vilhjálms og Lilju eru Íris Vilhjálmsdóttir, f. 22.11. 1999, Tinna Vilhjálmsdóttir, f. 23.12. 2002, Lísa Vilhjálmsdóttir, f. 9.6. 2004, Samúel Ingi Garðarsson, f. 24.5. 2000, og Ásta Björk Garðarsdóttir, f. 27.5. 2003. Börnin eru öll í námi eða vinnu.
Systkini Vilhjálms eru Svava Matthíasdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 1971, búsett í Reykjavík, Sólborg Matthíasdóttir, ljósmyndari og starfar einnig á skrifstofu, f. 1975, búsett á Laugum, og Matthías Matthíasson, f. 1986, starfar sem verkefnastjóri og er búsettur í Mosfellsbæ.
Foreldrar Vilhjálms eru Matthías Ottósson fv. verktaki, f. 1949, búsettur í Hveragerði, og Svanhildur Vilhjálmsdóttir, saumakona og fv. félagsliði, f. 1951, búsett í Reykjavík. Þau giftust 1971 en slitu sambúð 2005.