Vantage er „litli“ sportbíllinn frá Aston Martin, en að margra mati skemmtilegri í akstri en stóra DB-línan.
Vantage er „litli“ sportbíllinn frá Aston Martin, en að margra mati skemmtilegri í akstri en stóra DB-línan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breski sportbílaframleiðandinn Aston Martin frumsýndi í síðustu viku nýja og bætta útgáfu af Vantage-sportbílnum með mun öflugri vél. Árgerð 2025 af Vantage fær lauflétta andlitslyftingu en augljósasta breytingin er að grillið hefur verið stækkað…

Breski sportbílaframleiðandinn Aston Martin frumsýndi í síðustu viku nýja og bætta útgáfu af Vantage-sportbílnum með mun öflugri vél.

Árgerð 2025 af Vantage fær lauflétta andlitslyftingu en augljósasta breytingin er að grillið hefur verið stækkað svo að meira súrefni komist að enn betri V8 AMG-vél sem er 128 hestöflum kröftugri en gamla vélin og skaffar samtals 656 hestöfl.

Útlitsbreytingarnar eru greinilegri að innan og er umhverfi ökumanns orðið enn stílhreinna og sportlegra, og svipar til vel heppnaðrar innréttingar nýja DB 12 sem kynntur var til sögunnar fyrir tæpu ári.

Verkfræðingar Aston Martin hafa gert ýmsar breytingar sem ekki sjást með berum augum, og er t.d. burðargrindin núna 7% stífari og fjöðrunin betri svo að auðveldara sé að ráða við gríðarlegan kraftinn í vélinni. Hefur Aston Martin reiknað það út að þessi nýja kynslóð Vantage verði aðeins 3,4 sekúndur í hundraðið. Þá er þyngdardreifingin fullkomlega jöfn á milli fram- og afturöxuls og miðað við tölurnar ætti að vera hrein unun að spana um hlykkjótta vegi á nýja Vantage.

Þeir sem vilja heyra hvert smáatriði í uppáhaldstónlistinni geta pantað bílinn með hljóðkerfi frá Bowers & Wilkins sem hefur verið sérhannað til að taka mið af stærð og lögun farþegarýmisins.

Uppgefið verksmiðjuverð er frá u.þ.b. 190.000 dölum, en áætla má að kominn á götuna í Reykjavík verði bíllinn um það bil tvöfalt dýrari vegna hárra innflutningsgjalda. ai@mbl.is