Hagspár Hjalti Óskarsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir að það hafi reynst hagfræðingum erfitt að spá fyrir um verðbólguþróun síðustu ára.
Hagspár Hjalti Óskarsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir að það hafi reynst hagfræðingum erfitt að spá fyrir um verðbólguþróun síðustu ára. — Morgunblaðið/Hallur
Hagfræðingar hafa á undanförnum misserum átt í erfiðleikum með að spá fyrir um hagstærðir og hafa ýmsir þættir – t.d. heimsfaraldurinn, stríð í Úkraínu og nú í Mið-Austurlöndum – gert það að verkum að erfiðara reynist nú en áður að spá fyrir um þróunina í efnahagsmálum

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Hagfræðingar hafa á undanförnum misserum átt í erfiðleikum með að spá fyrir um hagstærðir og hafa ýmsir þættir – t.d. heimsfaraldurinn, stríð í Úkraínu og nú í Mið-Austurlöndum – gert það að verkum að erfiðara reynist nú en áður að spá fyrir um þróunina í efnahagsmálum.

Um þetta er meðal annars fjallað í nýlegri grein hjá fréttaveitunni AFP. Þar kemur fram að nauðsynlegt sé að hagfræðin sé opin fyrir því að taka fleiri fræðigreinar með í reikninginn við gerð hagspáa og nota nýja nálgun.

Hjalti Óskarsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir að það hafi alltaf reynst erfitt að spá fyrir um þróun efnahagsstærða, einkum til langs tíma, og hann telji það ekki endilega erfiðara nú en áður.

„Það er mikil óvissa um þessar mundir eins og til dæmis um hvernig kjaraviðræður muni þróast og staðan í Grindavík, en aftur á móti þá er alltaf eitthvað í gangi. Þannig að ég er ekki viss um að það sé endilega erfiðara nú en áður. Það hefur alltaf verið tiltölulega erfitt að spá fyrir um hagstærðir, sérstaklega til lengri tíma,“ segir Hjalti.

Nokkrir bankar hafa skoðað að endurskoða aðferðafræði við gerð hagspáa. Fram kemur í grein AFP að í júlí síðastliðnum hafi Englandsbanki ráðið Ben Bernanke, fyrrverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna, til að leiða vinnu við að endurmeta ferlana sem unnið er eftir við gerð hagspáa í kjölfar erfiðleika við að spá fyrir um verðbólguna undanfarið. Þá hefur Kanadabanki ákveðið að setja í gang nýja ferla við gerð hagspáa sem séu framsýnni. Haft er eftir Peter Vanden Houte, aðalhagfræðingi ING-bankans, að hann telji að núverandi hagspárlíkön séu ekki lengur fýsileg við gerð góðra hagspáa. Þörf sé á nýrri nálgun og nauðsynlegt að taka fleiri þætti með í reikninginn.

Spurður hvort hagfræðingar ættu að taka fleiri hluti með í reikninginn við gerð hagspáa segir Hjalti að þeir taki ótal hluti með í reikninginn.

„Það er þó breytilegt yfir tíma hvað þarf að taka með í reikninginn, og eins og nú hefur verið mikilvægt að hlusta mjög vel á jarðfræðinga ræða um mögulega þróun mála á Reykjanesinu, enda getur það skipt töluverðu máli upp á framtíðarhorfur í efnahagsmálum hvernig hlutirnir þróast þar í jarðfræðilegu tilliti.“

Hjalti bætir við að það hafi reynst hagfræðingum sérstaklega erfitt að spá fyrir um verðbólguþróun síðustu ára.

„Mögulega verða verðbólguspárnar erfiðari eftir stór sjokk á hagkerfin. Hagfræðingum hefur til að mynda reynst afar erfitt að spá fyrir um þróun verðbólgunnar eftir covid, því þá kom sjokk í hagkerfið sem enginn vissi nákvæmlega hvernig myndi þróast eða hvaða áhrif það myndi hafa. Auðvitað er hægt að gera betur í þessum fræðum, og við erum alltaf að endurbæta og finna leiðir til að bæta spárnar,“ segir Hjalti að lokum.

Hagspár

Hagfræðingum hefur reynst erfitt að spá fyrir um verðbólguþróun eftir covid.

Bankar úti í heimi leita leiða til að bæta hagspárlíkön.

Mikilvægt að taka fleiri þætti með í reikninginn.

Hagfræðingur hjá Landsbankanum segir mikilvægt að leita leiða til að endurbæta spárnar.