Elísabet Lárusdóttir fæddist í Reykjavík 11. desember 1934. Hún lést á Grund hjúkrunarheimili 3. febrúar 2024.
Foreldrar Elísabetar: Lárus Böðvarsson, f. 15.5. 1905, d. 11.9. 1972, lyfjafræðingur, og Sigríður Haraldsdóttir, f. 16.8. 1913, d. 23.7. 1987, húsmóðir. Lárus var sonur Böðvars Stefánssonar söðlasmiðs og Jónínu Stefánsdóttur húsmóður. Þau bjuggu á Seyðisfirði. Sigríður var dóttir Haraldar Guðmundssonar frá Háeyri á Eyrarbakka, bankastarfsmanns í Búnaðarbanka Íslands, og Þuríðar Magnúsdóttur húsmóður frá Árgilsstöðum í Hvolhreppi, þau bjuggu fyrst á Eyrarbakka og síðar í Reykjavík.
Systir Elísabetar: Nína, f. 6.1. 1932 d. 4.6. 2009, afgreiðslumaður í Reykjavík, gift Hans Benjamínssyni, f. 23.8. 1926, d. 1.1. 1982.
Hálfbróðir Elísabetar, samfeðra: Valur Fannar, f. 24.6. 1927, d. 1.10. 2000, gullsmiður, kvæntur Hönnu Aðalsteinsdóttur, f. 16.6. 1930, d. 13.10. 2019.
Elísabet ólst upp á Eyrarbakka til 14 ára aldurs hjá systkinunum Þorkatli Ólafssyni kaupmanni og Jóhönnu Ólafsdóttur.
Elísabet giftist 16.10. 1954 Jóni Friðgeiri Magnússyni, f. 5.2. 1933 d. 4.5. 2023, bifvélavirkja. Foreldrar hans voru Magnús Jónsson frá Bolungarvík og Laufey Guðjónsdóttir. Börn Elísabetar og Jóns: 1) Þorkell Jóhann, f. 31.10. 1953, tæknifræðingur, kvæntur Helgu Hauksdóttur, f. 2.12. 1953, þau eiga þrjá syni, Harald Hauk, Hlyn Hrafn, nú látinn, og Egil Gauta. 2) Sigríður, f. 27.10. 1956, leikskólakennari, gift Sigurbirni Rúnari Guðmundssyni, f. 1.6. 1955, matreiðslumanni, þau eiga þrjú börn, Jón Geir, Evu Maríu og Guðmund Magnús. 3) Magnús, f. 13.12. 1961, d. 8.9. 2023, tæknifræðingur, búsettur í Danmörku, kvæntur Elísabetu Black, f. 9.8. 1957, byggingafræðingi, þau eiga þrjú börn, Vigdísi Blach, Fridrik Jon Blach og Christian Ulrik Blach. 4) Margrét Lóa, f. 29.3. 1967, ljóðskáld og kennari við Tækniskólann, hún á tvær dætur með fyrrverandi sambýlismanni sínum, Jóhanni L. Torfasyni, f. 3.4. 1965, Viktoríu og Maríu Lísu.
Elísabet lauk verslunarskólaprófi frá Verslunarskóla Íslands 1953, stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1986 og BA-prófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands 1994. Elísabet vann við skrifstofustörf áður en hún hóf nám við Háskóla Íslands.
Útför Elísabetar verður frá Árbæjarkirkju í dag, 20. febrúar 2024, klukkan 13.
Elsku mamma. Þá ertu lögð af stað til sumarlandsins. Pabbi og Magnús bróðir nýfarnir og þið munuð sameinast á ný.
Þú fæddist á Eyrarbakka og áttir miklar taugar þangað. Móðir þín veiktist af berklum og var þér komið í fóstur. Fyrst varstu á Silungapolli en við tveggja ára aldur tóku systkinin Keli og Jóa þig í fóstur. Hjá þeim dvaldir þú í góðu yfirlæti og kannski dálítið ofvernduð. Þú sagðir mér að Keli fóstri þinn, sem var verslunarmaður, hefði passað vel upp á þig. Ef hann heyrði í bíl og vissi af þér utandyra setti hann lykilinn í skrána, lokaði búðinni og fylgdist með þér þar til bíllinn var farinn úr þorpinu.
Fjórtán ára fluttir þú með Jóu fóstru þinni til Reykjavíkur. Hún fór að vinna og þú hélst áfram að mennta þig með stuðningi Kela og Jóu. Þú laukst verslunarprófi frá VR vorið '53. Nú var ástin komin í spilin, frumburðurinn fæddist í október '53. Þið pabbi giftuð ykkur í október '54. Námsdraumurinn var lagður til hliðar og við tók barnauppeldi og heimilishald. Þú sagðir mér að veikindi Jóu og fráfall hennar á sama tíma hefði haft mikil áhrif á þig, þú ekki nema 18 ára með kornabarn og hún hafði verið stoð þín og stytta alla ævi.
Þið Nína systir þín vissuð hvor af annarri en hittust ekki fyrr en hún fermdist. Hún var alin upp á Seyðisfirði hjá föðursystur sinni. Dista mamma ykkar fór með þig 12 ára með strandferðaskipinu til að vera við ferminguna. Mikil samskipti voru þó ykkar á milli þegar þið eltust. Þú kallaðir oft í sunnudagskaffi enda félagslynd.
Þegar ég flutti úr foreldrahúsum uppgötvaði ég hversu mikinn bandamann og vin ég átti í þér. Ég gat alltaf komið og rætt við þig um allt. Þú varst stoð mín og stytta, hvattir mig til að læra, sem ég og gerði. Ég var stolt þegar þú lést drauminn um frekara nám rætast, tókst stúdentspróf frá MH og félagsráðgjöf frá HÍ.
Þú varst félagslynd og hugsaðir oft til þeirra sem minna máttu sín og bauðst þeim að borða með okkur á jólunum.
Þú varst alltaf smekkleg og fín. Ekki leist mér alltaf vel á. Eitt sinn komstu heim með poka úr Karnabæ, brúnan kjól. Mér stóð ekki á sama, gamlar konur, 35 ára, versla ekki í Karnabæ. Bara unglingar. Pabbi kunni að meta kjólinn enda viðurkenni ég nú að kjóllinn var flottur.
Þú tókst upp á ýmsu, tína orma til að selja veiðimönnum og selja grásleppu úr hjólbörum svo fátt eitt sé nefnt.
Þú vannst mikið í höndunum, klipptir gömul föt í mottur, rýjaðir, heklaðir kjóla á okkur og saumaðir út. Ekki má gleyma lopapeysunum. Öll fjölskyldan í Danmörku varð að eiga lopapeysu.
Margar stundirnar sátum við og prjónuðum, fyrst hjálpaðir þú mér og ég svo þér.
Þér þótti gaman að ferðast, bæði innan lands og utan. Mér er minnisstæð ferðin okkar, pabbi og fimm af ömmubörnunum um Ísland. Ekki þýddi að bera neitt undir atkvæði; fimm á móti þremur. Ís, sund og leikvellir urðu alltaf ofan á.
Þær voru ófáar stundirnar sem við áttum á Grund, sátum úti í sólinni, fórum í messu eða borðuðum góðgæti inni í herbergi. Yndislegar minningar í minningabankann.
Elsku mamma, ég sakna þín.
Hvíldu í friði. Góða ferð.
Þín dóttir,
Sigríður (Dista).
Elsku mamma.
Enginn er sem móðir. Ekkert var eins og þú og það var ekki einu sinni neitt sem líktist þér. Samt er það nú svo að nánast allt er farið að minna mig á þig. Kökuilmur, fuglar á flugi, heiðskír himinn og um leið kemur þú upp í hugann. Þú varst alsæl með nýja langömmubarnið Snorra, elskaðir molasopa og sól og varst glöð þegar ég heimsótti þig. Við áttum ljúfa daga undir hið síðasta á Grund, sér í lagi úti í sólinni, ekki síður en í Árbænum. Ég man eftir að hafa oft gengið með þér yfir stíflubrúna til að heimsækja vinkonu þína í Breiðholti þegar ég var lítil. Stundum tíndum við blóm og fylgdumst með svönunum sem þú hélst langmest upp á. Þegar ég var unglingur unnum við svo saman í bókabúð og þá hvattirðu mig bæði til náms og til að yrkja ljóð. Spurðir oft hvort ég ætti ný ljóð til að sýna þér, mættir á upplestra og last yfir öll handritin mín.
Mamma og pabbi giftust 1954 og eignuðust fjögur börn. Frumbernska mömmu markaðist af því að fyrstu tvö æviárin var Elísabet, sem alltaf var kölluð Lísa, vistuð á barnaheimili því mamma hennar, Sigríður Haraldsdóttir, veiktist af berklum og gat hvorki sinnt henni né Nínu systur mömmu. Mamma minntist stundum á að þessi fyrstu tvö æviár hefðu markað spor fyrir lífstíð því þarna hefðu börnin engrar hlýju notið. Loks fór hún í fóstur á Eyrarbakka hjá systkinunum Jóhönnu og Þorkeli Ólafssyni sem reyndust henni vel. Mamma var hress og lá hátt rómur. Þegar á leið gerði svarti hundurinn samt vart við sig. Þunglyndinu lýsti hún sem földum eldi, sagði að það væri án efa örðugra þegar það legðist á sig því hún væri í eðli sínu svo lífsglöð. Hún var örlát og góð við þá sem minna máttu sín. Á aðfangadegi bauð hún til sín móðurbróður sínum Guðmundi Haraldssyni sem átti oft ekki í nein hús að venda og angaði stöku sinnum af áfengi. Hún gerði aðeins þá kröfu að hann væri hreinn, og ég man að eitt sinn þegar hann stóð á tröppunum kynnti hann sig á þessa leið: „Þetta er bara ég, einstæðingurinn, kominn í veisluna til ykkar.“
Frábær kona. Góður penni og hafði fallega rithönd. Metnaðargjörn og hóf nám á ný þegar börnin voru uppkomin. Fyrst tók hún stúdentinn og síðan próf í félagsráðgjöf. Hún var líka dugleg að fara með barnabörnin niður að á og gefa fuglunum og átti alltaf eitthvað gott með kaffinu. Flink í höndunum og prjónaði fallegar lopapeysur.
Í fyrravor lést pabbi, nýorðinn níræður, og bróðir minn, Magnús, næstur mér í systkinaröð, lést síðastliðið haust. Þetta voru þung högg og smám saman dró af þér, elsku mamma, þótt hugurinn væri skýr. Ég hef alltaf átt erfitt með að sjá veröldina fyrir mér án þín. Guð geymi þig og allir englarnir eins og þú sagðir alltaf. Ekkert var eins og höndin þín sem leiddi mig gegnum lífið. Ekkert eins og þú.
Svanirnir
og sóleyjarnar mamma
Lítil hönd í lófa
Lísublóm í krús …
Þangað vil ég
fara með þér mamma
(MLJ)
Þín dóttir,
Margrét Lóa.
Elsku amma Lísa. Mér finnst svo óraunverulegt að þú sért ekki lengur meðal okkar. Þú hafðir alltaf svo margt til málanna að leggja og rödd þín ómar enn í huga mér. Ég varðveiti ótal minningar um þig og er þér þakklát fyrir hlýjuna sem þú umvafðir mig. Þú kenndir mér svo margt um hamingjuna, mannlegan breyskleika og ástina. Mér fannst alltaf svo gaman að koma í heimsókn til ykkar afa Nonna í Vorsabæinn. Afi tók alltaf fegins hendi á móti mér því hann vissi að ég gat veitt þér félagsskap. Við vorum miklar vinkonur, amma mín. Ég varði ótal stundum í eldhúsinu ykkar yfir bakkelsi og spádómskaffi. Við gengum meðfram Elliðaánum að stíflunni sama hvernig viðraði. Við böðuðum okkur í sólinni á stéttinni bakdyramegin á góðviðrisdögum. Þú elskaðir sólina eins og enginn annar.
Síðustu ár hrakaði heilsu þinni mikið og þegar afi Nonni lést og svo Magnús sonur ykkar þá dofnaði lífsneistinn í augum þínum. Það veitti þér hina mestu sáluhjálp þegar ég tilkynnti þér að ég væri ófrísk. Þú varst svo glöð fyrir mína hönd. Þú lofaðir mér að þú myndir hitta barnið og ég mun aldrei gleyma hvernig augu þín ljómuðu þegar þú fékkst Snorra sem fæddist sl. nóvember í fangið. Þú varst glæsileg kona með stórt hjarta og það er eins og tíminn standi í stað. Bros þitt og smitandi hláturinn. Skrautlegar perlufestar og litrík klæði. Sögurnar. Takk fyrir allt, elsku amma mín. „Guð geymi þig og allir englarnir,“ eins og þú sagðir alltaf þegar við kvöddumst í síma. Þín
Viktoría Jóhannsdóttir.
Daggir falla, dagsól alla kveður.
En mig kallar einhver þrá
yfir fjallaveldin blá.
(Hulda)
Elísabet frænka mín var ein af systkinabörnum frá Seyðisfirði sem héldu hópinn í lifanda lífi. Meðal þeirra var móðir mín, Þórunn Eva, sem var nokkru eldri, hin voru systirin Nína og frændinn Stefán Már sem féll frá fyrir tveimur árum. Með Lísu hefur síðasta frænkan og skyldmennið kvatt í þessum hópi og um leið af þessari kynslóð.
Lísa var seyðfirsk í sína föðurætt, en móðirin Sigríður kom frá Eyrarbakka. Þar ólst Lísa upp í fóstri þegar móðirin veiktist af berklum og foreldrarnir skildu. Fjölskyldan tvístraðist og systirin Nína fór í fóstur hjá Dísu frænku sinni í Stebbahúsi á Seyðisfirði, hinum megin á landinu. Á þessum tíma var það afar löng vegalengd. Eftir að þær systur fluttu síðar meir til Reykjavíkur frá Eyrarbakka og Seyðisfirði tóku þær aftur upp samband sem hafði rofnað í bernsku.
Í mínum uppvexti voru þessar frænkur mínar og Stefán Már í öllum fjölskylduboðum; Lísa og Nína glaðar og reifar, töluðu mikið og hlógu dátt, en frændinn hæglátur og orðfár. Ég man föður hennar og ömmubróður minn Lárus, lágvaxinn og vinalegan, sem kom stundum á Skólavörðustíginn til að hitta Guðrúnu systur sína.
Á umliðnum árum var gott að heimsækja Lísu og Jón; þau voru gestrisin og trygglynd. Mér er minnisstætt eitt sinn um sumar þegar ég kom til þeirra á Litlu-Grund, þar sem þau sátu úti fyrir í sól og blíðu. Þau höfðu elst mikið, en þessa stundina voru þau glöð.
„En mig kallar einhver þrá.“ Kannski var það eftir fjarlægum heimahögum bernskunnar og systurinni Nínu. Það er í manni tregi þegar síðasta skyldmennið hverfur af seyðfirska frændfólkinu sem var sterkur þáttur í uppvextinum. Ég kveð frænku mína með eftirsjá, megi hún hvíla í friði. Fjölskyldunni sendi ég innilegar samúðarkveðjur.
Berglind Gunnarsdóttir.