Iðunn Andrésdóttir
idunn@mbl.is
Fjögur tilfelli hettusóttar hafa nýlega greinst á landinu. Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir útbreiðslu sjúkdómsins líklegasta meðal fólks sem fætt er á árunum 1985-1987.
„Málið með þessi ártöl er að það var byrjað að bólusetja gegn hettusótt '89 […] og hún hafði gengið svona reglulega á Íslandi fram að '84. Það eru því þessi ár þarna rétt á undan, þessi klemmuár '85-'87, þar sem þessir krakkar sem eru það lítil þarna fengu líklega ekki hettusótt en voru heldur ekki bólusett,“ segir Guðrún við mbl.is í gær.
Hún segir ekki miklar líkur á að faraldur breiðist út hér á landi, þó að auðvitað sé aldrei hægt að fullyrða það. Ekki sé ólíklegt að nokkur tilfelli til viðbótar greinist hjá þeim sem hafi komist í návígi við smitaða.
Guðrún segir einnig vert fyrir þá sem fæddir eru eftir 1980 að athuga hvort þeir séu fullbólusettir við hettusótt, en sumir hafi aðeins fengið einn skammt eða jafnvel ekki verið bólusettir yfirhöfuð. Þeir sem séu fæddir fyrir þann tíma hafi líklegast þegar smitast af hettusótt.
„Við vorum að kíkja á þetta og þeir sem eru fæddir eftir 1980 hafa líka verið að fá hettusótt í þessum faröldrum sem gengu hérna eins og 2015-2016,“ segir Guðrún og bætir við að það sama hafi gilt í faraldri sem reið yfir landið árin 2005-2006.
Mælst sé til þess að fólk sé fullbólusett við veirunni þó að ekki séu miklar líkur á smiti að svo stöddu. Hún segir fullbólusetta ekki þurfa að hafa áhyggjur af smiti þó svo að hjarðónæmi sé ekki algjört.
Hettusótt
Sjaldgæfur sjúkdómur
Hettusótt er öndunarfærasýking og er sjúkdómurinn fremur sjaldgæfur á Íslandi. Fyrstu einkenni eru öndunarfæraeinkenni, slappleiki og hiti.
Sérkenni eru bólga í munnvatnskirtlum en sjúkdómurinn getur einnig valdið heilabólgu, brisbólgu eða bólgu í kynkirtlum. Algengasti fylgikvilli hettusóttar með varanleg áhrif er heyrnarskerðing.