Bjarni Gunnarsson
Bjarni Gunnarsson
Er eðlilegt að stýrivextir Seðlabankans séu 9,25% á meðan neysluvísitalan hefur hækkað um 2,0% síðustu sjö mánuðina?

Bjarni Gunnarsson

Í samningaþrefi aðila vinnumarkaðarins undanfarið hefur verðbólgan og stýrivextir Seðlabankans leikið stórt hlutverk. Seðlabankinn skilgreinir verðbólgustig hvers tíma sem hækkun neysluvísitölu síðustu 12 mánuðina. Stýrivextirnir eru aðalverkfæri Seðlabankans til að lækka verðbólguna og eiga þeir væntanlega að vera í takt við verðlagsbreytingar í landinu.

Þegar Seðlabankinn tilkynnti síðastliðið vor að verðtryggðar bankainnistæður yrðu bara bundnar í þrjá mánuði í staðinn fyrir þrjú ár fannst mér upplagt að notfæra mér það, verðbólgan var jú samkvæmt Seðlabankanum um 8% á þessum tíma. Þegar ég skoðaði þennan nýja innlánsreikning minn fjórum mánuðum síðar sá ég að innistæðan var ekki að hækka í samræmi við uppgefna verðbólgu, heldur hækkaði innistæðan í samræmi við breytingu neysluvísitölunnar og þar var allt annað í gangi og sagði ég því upp mínum verðtryggða reikningi.

Ég var með verðtryggða reikninginn frá júní 2023 til janúar 2024 og hækkaði neysluvísitalan um 2,0% á þessum tíma, en verðbólgan var sögð um 8% á þessu tímabili.

Ég segi hér frá mínum mistökum, að leggja inn á verðtryggðan reikning í minnkandi verðbólgu, til að velta því upp hvort eðlilegt sé að skilgreina verðbólguna sem hækkun neysluvísitölu síðustu 12 mánuðina. Seðlabankinn segist þurfa að bregðast hratt og vel við breytingum verðbólgunnar, en eins og staðan er núna er verðbólgan sögð 6,7% með 9,25% stýrivexti þó að neysluvísitalan hafi aðeins hækkað um 2% síðustu sjö mánuðina og er það vegna þess að verðbólgan var um 9% fyrir átta til tólf mánuðum síðan.

Væri ekki eðlilegra að skilgreina verðbólguna t.d. eftir breytingu neysluvísitölunnar síðustu sex mánuðina og gæti þá Seðlabankinn brugðist hraðar við breytingum verðbólgunnar, hvort sem hún væri að minnka eða aukast, og þá væru stýrivextirnir ekki svona mikið úr takti við verðlagsbreytingar?

Það er allavega vel skiljanlegt að aðilar vinnumarkaðarins séu ósáttir við að stýrivextir séu 9,25% á sama tíma og neysluvísitalan hefur hækkað um 2,0% síðustu sjö mánuðina.

Ef verðbólgan væri skilgreind sem hækkun neysluvísitölunnar síðustu sex mánuði, þá segði Seðlabankinn okkur að verðbólgan væri núna 3,9%.

Höfundur er verkfræðingur og lífeyristaki.

Höf.: Bjarni Gunnarsson