Ægir Kolkrabbinn sem kom um borð í íslenskt rannsóknarskip norðan við Kolbeinsey árið 2017 reyndist vera af áður óþekktri kolkrabbategund.
Ægir Kolkrabbinn sem kom um borð í íslenskt rannsóknarskip norðan við Kolbeinsey árið 2017 reyndist vera af áður óþekktri kolkrabbategund. — Ljósmynd Hafogvatn/Svanhildur Egilsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðm. Sv. Hermannsson gummi@mbl.is

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Líffræðingar hafa greint áður óþekkta tegund af djúpsjávarkolkrabba, sem fengið hefur nafnið Ægir, en einn slíkur fannst í rannsóknarleiðangri Hafrannsóknastofnunar vestan við Kolbeinseyjarhrygg árið 2017. Tegundinni er lýst í grein sem birtist í tímaritinu Zoological Letters í nóvember sl. en meðal höfunda eru Steinunn Hilma Ólafsdóttir, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, og Guðmundur Guðmundsson, flokkunarfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun.

Steinunn Hilma segir við Morgunblaðið að á þessum tíma hafi sérfræðingar í botndýrum verið með í hauströllum stofnunarinnar og þá var allur afli, sem ekki var fiskur, þar á meðal allir kolkrabbar, tekinn til hliðar og greindur. Yfir 50 aðrar botndýrategundir komu upp í sama togi, m.a. krabbadýr, sæköngulær, krossfiskar, sæbjúgu, slöngustjörnur, svampar, kóraldýr, sæfíflar, möttuldýr og kuðungar.

„Við sáum að þessi kolkrabbi leit aðeins öðruvísi út en þeir kolkrabbar sem venjulega komu um borð í rannsóknarskipin. Við fundum ekkert nafn á hann þá en það er mikið af lítið þekktum djúpsjávartegundum og þá þarf að kafa ofan í heimildir til að meta hvort um sé að ræða nýja tegund. Það eru nokkrar kolkrabbategundir líkar þessum,“ segir hún.

Ægir er kaldsjávardýrategund, botndýr sem lifir á allt að 2,5 km dýpi en útbreiðsla þessarar tegundar er talin vera á svæðinu frá Íslandi meðfram landgrunni Noregs til Svalbarða og austur til Karahafs norðan við Síberíu. Á vef hafrannsóknastofnunar Noregs kemur fram að vísbendingar hafi verið um þessa tegund frá árinu 2012. Líffræðingurinn Alexey Golikov, sem starfar hjá stofnuninni GEOMAR í Kiel í Þýskalandi, hóf að rannsaka kolkrabbann nánar. Hann rannsakaði 25 dýr sem fundist höfðu og fór meðal annars til Íslands, Grænlands og Noregs í því skyni.

Steinunn Hilma segir að það taki tíma að lýsa nýrri tegund dýra. Kortleggja þurfi alla mögulega líkamsþætti, meðal annars lengd og breidd líkamshluta og fjölda sogskála á örmum kolkrabbans og bera saman við aðrar þekktar tegundir. Ef vel eigi að vera þurfi að erfðafræðiraðgreina sýni úr dýrinu. Síðan fer það eftir því hve mikið er til í gagngrunnum yfir erfðafræði tegunda hvort hægt er að sannreyna að um sé að ræða nýja tegund. En eftir þessar rannsóknir var niðurstaðan sú, að kolkrabbinn sem fannst í íslenska leiðangrinum væri sérstök tegund og hún hefur nú fengið nafnið Muusoctopus aegir, eins og áður sagði eftir jötninum Ægi, konungi hafsins. „Alexey hefur mikinn áhuga á norrænni goðafræði,“ segir Steinunn Hilma.

Norska hafrannsóknastofnunin segir á vef sínum að nafnið á kolkrabbanum vísi til þess að hann tilheyri ættinni Muusoctopus. Af 12 kolkrabbategundum sem finnist á heimskautasvæðinu tilheyri fjórar þessari ætt. Ægir er frekar lítill kolkrabbi sem getur orðið allt að 23,5 sentímetrar að stærð, sá sem fannst í íslenska leiðangrinum var rúmlega 10 sentímetra langur. Hann er brúnleitur með bleik svæði á búknum og hvítt svæði í kringum munnopið. Hann gefur hins vegar ekki frá sér blek.

Kolkrabbar

800 þekktar tegundir

Um 800 kolkrabbategundir eru þekktar í heiminum og þessi dýr er að finna í öllum úthöfum jarðarinnar en þau lifa ekki í ferskvatni. Nokkrar þekktar tegundir eru í sjónum við Ísland. Kolkrabbar hafa átta arma og fjölda sogskála á hverjum armi.

Flestar tegundir kolkrabba geta sprautað þykku svörtu bleki úr blekkirtlum ef þeir þurfa að verja sig en sumar tegundir eru bleklausar. Minnstu kolkrabbarnir eru innan við einn sentímetri á lengd en þeir stærstu geta orðið allt að 18 metra langir.