Emilía Ellertsdóttir Thorarensen fæddist í Reykjavík 13. febrúar 1930. Hún lést á Hrafnistu Laugarási að kvöldi 4. janúar 2024.
Emilía, eða Millý eins og hún var alltaf kölluð, var dóttir hjónanna Halldóru Lárusdóttur, f. 13.5. 1905, d. 26.4. 1985, og Ellerts Þórarins Þórðarsonar, f. 13.9. 1902, d. 9.9. 1979. Millý á fóstursystur, Huldu Smith, f. 19.4. 1944, sem búsett er í Bandaríkjunum.
Millý ólst upp á Barónsstíg 20a og miðbærinn var hennar heimavöllur. Hún gekk í Austurbæjarskóla og fór síðan að vinna í Feldinum.
Árið 1952 gekk Millý að eiga Hinrik Thorarensen, f. 20.2. 1927, d. 21.9. 2010. Börn þeirra eru: 1) Hinrik Thorarensen, f. 11.11. 1956, d. 17.9. 2023. 2) Andvana fæddur drengur 1959. 3) Svanlaug Dóra Thorarensen, f. 25.4. 1960. Maður hennar er Haukur Harðarson, f. 20.3. 1952. Börn þeirra eru: 1) Haukur Örn Hauksson, f. 21.6. 1981. Kona hans er Tessa Cosenza, f. 28.11. 1984. Þeirra sonur er Felix Örn Hauksson, f. 20.10. 2023. Þau eru búsett í New York. 2) Sara Hauksdóttir, f. 5.5. 1986. Maður hennar er Irfan Zuhair, f. 3.7. 1996. Dóttir þeirra er Svanlaug Savannah Irfansdóttir, f. 16.1. 2020.
Millý og Hinrik hófu búskap á Laugavegi 34a en árið 1960 festu þau kaup á raðhúsi í Álfheimum 20 og bjuggu þar alla tíð. Þau stofnuðu verslunina Tískuskemmuna árið 1953 á Laugavegi 34a og ráku hana í nærri fjóra áratugi. Er börnin uxu úr grasi fór Millý að vinna í Tískuskemmunni og undi hag sínum vel.
Útför Emilíu fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 20. febrúar 2024, kl. 15.
Elskulega mamma mín
mjúk er alltaf höndin þín
tárin þorna sérhvert sinn
sem þú strýkur vanga minn.
Þegar stór ég orðinn er
allt það skal ég launa þér.
(Sigurður Júlíus Jóhannesson)
Fallega og góða mamma mín hefur kvatt eftir langa æfi.
Hún fæddist í kreppunni árið 1930 og var alin upp við llítil efni en mikið ástríki foreldra sinna. Mamma var mikil dama og alltaf vel til höfð. Það hafði hún líklega frá Guðlaugu ömmu sinni sem aldrei fór út úr húsi nema í peysufötum. Þegar mamma sótti um vinnu eftir að skólagöngu lauk fékk hún meðmæli frá skólastjóra Austurbæjarskóla þar sem hann sagðist sannfærður um að hún myndi vinna hvert það starf sem hún tækist á hendur af mestu trúmennsku og dugnaði og ávinna sér hvers manns traust með hæversku sinni og yndisþokka. Og hún fékk starfið í Feldinum sem hún sótti um og stóð sig vel.
Mamma giftist manninum sem hún elskaði af öllu hjarta. Hún var mikil fjölskyldumanneskja og bar mikla umhyggju fyrir okkur systkinunum. Ég verð ævinlega þakklát fyrir það kærleiksríka uppeldi sem foreldrar mínir veittu mér og allar þær góðu stundir sem við fjölskyldan áttum saman. Við ferðuðumst um hálendi Íslands og áttum ógleymanlegar stundir á fjöllum og á fimmtudagskvöldum var ekkert sjónvarp og þá var kveikt upp í arninum og fjölskyldan naut samverunnar.
Foreldrar mínir stofnuðu Tískuskemmuna á Laugaveginum árið 1953 og ráku búðina í hartnær fjóra áratugi. Þegar við systkinin vorum orðin eldri fór mamma að taka meiri þátt í rekstrinum og fara með pabba í innkaupaferðir. Hún hafði alltaf haft áhuga á tísku og naut sin í þessu starfi. Þau byggðu sumarbústað í Hestvík á Þingvöllum og seinna á Sléttu í Fljótum og þar nutu þau lífsins.
Mamma sýndi mikla þrautseigju er pabbi veiktist um sjötugt og hugsaði um hann heima í tólf ár. Eftir andlát hans bjó hún áfram í Álfheimum þar til hún var 93 ára og síðustu mánuðina bjó hún á Hrafnistu í Laugarási.
Eftir að ég stofnaði fjölskyldu bjuggum við Haukur lengi í kjallaranum hjá foreldrum mínum sem umvöfðu börnin okkar ást og hlýju. Fyrir það erum við óendanlega þakklát.
Ég kveð mömmu með hjartað fullt af þakklæti fyrir alla þá ást og umhyggju sem hún sýndi mér og fjölskyldu minni alla tíð. Ég veit að pabbi og Hinrik bróðir hafa tekið vel á móti henni.
Þín dóttir,
Svanlaug Dóra.
Elsku besta amma mín.
Ég man þegar þú sóttir mig í leikskólann og við bjuggum til sögur á leiðinni heim. Ég man þegar þú söngst alltaf fyrir mig úr Vísnabókinni, sérstaklega Stígur hún við stokkinn. Ég man hversu vel þú undir þér á Sléttu í sveitasælunni. Ég man þegar þú leyfðir mér alltaf að leika mér með fallegu skartgripina þína. Ég man hve fallega þú varst ávallt klædd. Ég man hve heitt þú elskaðir afa og okkur fjölskylduna. Ég man að ég gat alltaf leitað til þín, þú varst svo traust. Ég man hve hlýr faðmur þinn var. Ég man blíðuna þína og hjartahlýju.
Þú ert
gullið mitt
sem stirnir á
og skín svo skært.
Bjartasta birtan
sem lýsir fram veginn.
Silfrið
sem ekki fellur á
og aldrei þarf að fægja.
Hjartaþráðurinn
trausti
sem aldrei slitnar.
(Sigurbjörn Þorkelsson)
Ég elska þig svo mikið elsku amma mín.
Þín ömmustelpa,
Sara.
Álfheimar. Nafnið var eitt en að koma í Álfheima 20 var eins og stíga inn í ævintýraheim. Fallegar stofur með sérhönnuðum íslenskum húsgögnum og málverkum sem þöktu veggi. Þar var líka Drápuhlíðararinn og góð lykt sem tók á móti manni.
Millý var drottningin í Álfheimum og ríkti með einstakri ljúfmennsku.
Hún tók brosandi á móti manni og spurði frétta. Hún hafði alltaf áhuga á að vita hvað barnið hefði fyrir stafni og síðar meir unglingurinn. Hún gaf sér tíma til að hlusta og að leggja orð í belg, dæmdi aldrei heldur gaf ráð og hló. Alltaf í jafnvægi og í góðu skapi.
Millý var ekki bara góð heldur var hún sérstaklega glæsileg kona.
Það var ekki sjálfgefið að húsmæður gæfu sér tíma til að sinna vinum barna sinna.
Millý bauð upp á rétti sem sem voru ekki algengir á almennum heimilum og voru framandi en runnu ljúflega niður. Þau Millý og Hinrik voru höfðingjar heim að sækja. En það var ekki bara tekið vel á móti gestum í Álfheimum heldur voru þau hjónin dugleg að ferðast um landið og óbyggðir þess og þau voru rausnarleg að deila upplifuninni með öðrum. Þetta voru ævintýralegar ferðir því þær voru þá ekki eins algengar og nú. Ég minnist líka ferðanna á Þingvöll þar sem Hinrik og Millý áttu sumarbústað og ég sem vinkona Svanlaugar fékk að fljóta með og njóta gestrisni þeirra. Þarna naut Millý sín og ljómaði.
Ég kveð einstaka konu sem átti svo ríkulegan þátt í því að gera bernsku- og unglingsárin góð.
Hera Sigurðardóttir.
Emilía Thorarensen, eða Millý eins og hún var jafnan kölluð, var stór þáttur í lífi mínu allar götur síðan ég kynntist Svanlaugu dóttur hennar og bestu vinkonu minni fyrir hartnær 60 árum.
Vinátta er það dýrmætasta sem við eignumst í lífinu og ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa átt Millý og hennar vináttu að allan þennan tíma. Samskipti okkar einkenndust alla tíð af hlýju, væntumþykju og kímni enda var Millý einstaklega hlý, kærleiksrík og heilsteypt.
Ég mun sakna Millýjar og okkar samverustunda mikið en veit að hún er hvíldinni fegin.
Hvíl í friði, elsku Millý, minning þín mun lifa.
Erna Matthíasdóttir.