Kári Freyr Kristinsson
karifreyr@mbl.is
„Við áttum okkur á því að þetta er tvíeggjað sverð,“ sagði Hjálmar Hallgrímsson, bæjarfulltrúi í Grindavík, spurður hvort bæjarstjórnin óttist ekki að fáir snúi til baka eftir að ríkið kaupir íbúðarhúsnæði Grindvíkinga á íbúafundi Grindvíkinga sem haldinn var í Laugardalshöll í gær. Þar fengu íbúar að spyrja bæjarfulltrúa um stöðu mála og frumvarp fjármálaráðherra um uppkaup á íbúðarhúsnæði Grindvíkinga. „Við trúum því að við getum byggt upp bæinn þannig að fólk vilji koma til baka,“ sagði Birgitta Káradóttir Ramsay bæjarfulltrúi.
Vilja fimm ár í forkaupsrétt
Meðal þess sem fram kom á fundinum var óánægja íbúa með þann tíma sem Grindvíkingar hafa forgangsrétt að íbúðarhúsnæði í bænum. Í frumvarpi fjármálaráðherra segir að forkaupsrétturinn falli niður tveimur árum eftir gildistöku laganna. Vilja íbúar lengja tímann í að minnsta kosti fimm ár.
Kváðust bæjarfulltrúar sammála íbúum um að tímaramminn væri of knappur. „Við komum þeim ábendingum áleiðis,“ sagði Helga Dís Jakobsdóttir bæjarfulltrúi. Hún segir bæjarfulltrúa hafa borið það upp á fundi við efnahags- og viðskiptanefnd í síðustu viku að óvissa væri mikil um hvers eðlis fasteignafélagið verði sem muni taka við eignum Grindvíkinga.
„Fólk er með ónot yfir því hvert það er að fara selja eignina sína, það þarf að koma skýrt fram,“ sagði hún.
Hjálmar Hallgrímsson sagði á fundinum að fundur bæjarstjórnar við efnahags- og viðskiptanefnd hefði gengið vel. „Ég held að við höfum verið mjög dugleg að koma öllum ábendingum til skila.“
Fjórar starfsstöðvar
Ásrún Helga Kristinsdóttir forseti bæjarstjórnar sagði að verið væri að opna aðra starfsstöð þannig að stöðvarnar yrðu samtals fjórar. Sagði hún að þau börn sem væru á biðlista fengju pláss á leikskóla í næstu viku.
„Ég vildi óska þess að ég gæti svarað því að það yrðu skólar, kannski í Grindavík, en þetta er spurning sem við getum ekki svarað,“ sagði hún jafnframt. Næstu vikurnar yrði haldið áfram að vinna þessa vinnu.
„Við verðum að reyna eins og við getum að halda skóla saman. Grindvíkinga saman,“ sagði Hjálmar. Endurkoman yrði miklu betri ef það tækist að halda kennurum og skólum saman. „Þetta er eitt af lykilatriðunum svo fólk komi heim.“
Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar, sagði að tekist hefði að þræða kaldavatnslögn undir nýja hraunið og verið væri að undirbúa að hleypa köldu vatni til bæjarfélagsins. Það yrði þó gert í áföngum.
„Á miðvikudag klukkan tíu, eitt og tvö á að byrja að hleypa köldu vatni á hafnarsvæðið,“ sagði Atli. „Við viljum ekki lenda í tjóni þegar við hleypum vatni í húsin,“ en þess vegna væri mikilvægt að gera þetta í skrefum. Hann sagðist ekki vita nákvæmlega hver staðan væri á dreifikerfinu þar sem ekkert vatn væri á því.
Eru enn að tjónaskoða
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, sagði á íbúafundinum stofnunina ekki vera hætta að framkvæma tjónaskoðanir. Það hefði aftur á móti verið erfitt að mæla sér mót við eigendur fasteigna.
„Við erum byrjuð að bóka skoðanir hjá öllum sem ekki hafa fengið neina skoðun og stefnum á að byrja skoðanir á miðvikudag.“ Hún segir að vonandi verði búið að klára allar skoðanir í næstu viku.
„Það er mjög mikilvægt að ná heildarsýn yfir tjónið og það eru upplýsingar sem við verðum að standa skil á til endurtryggjenda okkar,“ sagði Hulda.
Stefnt er á að skoða á yfir 30 stöðum á dag, fáist friður fyrir náttúrunni.