Sonja Sif Þórólfsdóttir
sonja@mbl.is
Vísindamenn eru viðbúnir því að eldgos gæti hafist við Eldey. GPS-mælingar eru hafnar á eyjunni sjálfri en flóknara er að mæla landris við hafsbotninn, en ekki ómögulegt.
„Þetta er náttúrulega bara eldstöðvakerfi sem heldur áfram út í sjó. Í rauninni er frekar lítill munur á svæðunum á Reykjanesskaganum og þeim sem eru næst landi á Reykjaneshrygg. Þar geta orðið eldgos og hafa orðið eldgos. Við erum að búa okkur undir það, neðansjávargos. Það er ekkert sem segir það að virknin verði bara á landi í þetta sinn og það er ekki langt að fara,“ segir Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, í Dagmálum.
Skjálftavirkni hefur verið við Eldey undanfarna daga. Nokkrir kröftugir skjálftar hafa orðið á milli þess sem smærri skjálftar hafa gert vart við sig. Segir Freysteinn að ef gjósi í eða við Eldey geti það létt á Svartsengiskerfinu. Jörð hefur einnig skolfið við Fagradalsfjall.
Kvika á hreyfingu?
„Það kann að vera að kerfið sé að jafna sig en það getur líka verið önnur skýring að þarna sé ákveðin áraun af kviku að reyna að leita til yfirborðs,“ segir Freysteinn spurður hvað kunni að skýra smáskjálftavirkni við Fagradalsfjall.
Freysteinn segir vísindamönnum tamt að líta til fyrri atburða þegar reynt er að spá fyrir um hvað gerist næst. „Reyndar teljum við flest að það endurtaki sig aftur, eldgos í Sundhnúkagígaröðinni. En einhvern tímann breytist þetta. Einn möguleiki til breytinga er að kvikan finni sér farveg annars staðar. Það er ekki óhugsandi að hún geti leitað aftur í Fagradalsfjall. Það þarf ekki að leita langt aftur,“ segir Freysteinn og vísar þar til atburðarásarinnar sem hófst í október á síðasta ári. Þá var virknin mest við Fagradalsfjall en færðist hún svo skyndilega yfir í Svartsengiskerfið.
Þrýstingur hefur á sama tíma ekki minnkað við Fagradalsfjall og land ekki sigið þar þrátt fyrir þrjú eldgos á tveimur mánuðum.
„Við teljum að það þyrfti einhvern aðdraganda. Sérstaklega af því að skjálftarnir sem hafa orðið undanfarið eru ekki yfir kvikuganginum heldur aðeins vestar. Við höldum að þegar kvikan finnur sér nýja rás til yfirborðs, alveg síðustu fimm kílómetrana, þá munum við sjá augljós merki í jarðskjálftum,“ segir Freysteinn.