Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Á vegum Neyðarlínunnar er nú rýnt hvað fór úrskeiðis þegar símasamband við 112 datt út í um eina klukkustund 9. febrúar sl. Samband fór af þegar unnið var að uppfærslu á eldveggjum sem skýla tölvukerfum Neyðarlínunnar fyrir netárásum og slíku. Neyðarlínan hafði verið upplýst um að nauðsynlega þyrfti að uppfæra veggina, því vart hafði orðið við öryggisgalla í sambærilegum búnaði. Alla jafna ganga uppfærslur fyrir sig án nokkurs rasks. Slíkt gerðist hins vegar nú og af hverju þarf að vera á hreinu.
„Að fólk nái ekki í neyðarsímanúmerið 112 og neyðarboðun fyrir landið detti út er grafalvarlegt mál sem lýtur beinlínis að þjóðaröryggi. Við setjum því kraft í athugun á málavöxtum og hvað þurfi svo þetta endurtaki sig ekki,“ segir Jón Svanberg Hjartarson framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar í samtali við Morgunblaðið. „Einhver hluti símnotenda náði í gegn en aðrir ekki. Fullt símasamband komst aftur á eftir að hafa legið niðri í um klukkustund en á meðan það ástand varði var gripið til þess að beina símtölum í hefðbundna farsíma. Þá var enn ýmislegt í ólagi okkar megin, svo sem gagnagrunnar og tengingar til að boða út lögreglu, slökkvilið, björgunarsveitir og fleira. Þetta var ástand sem varði í alls um þrjár klukkustundir og á meðan fleyttum við okkur í gegnum ástandið handvirkt, ef svo má segja. Góðu heilli virðast þessi alvarlegu frávik ekki hafa haft í för með sér alvarlegar afleiðingar. Tilfinningin sem þessu fylgdi var engu að síður slæm.“
Neyðarvörðum fjölgað
Í umbrotum á Reykjanesskaga að undanförnu hefur mikið mætt á Neyðarlínunni. Því hefur, segir Jón Svanberg, neyðarvörðum á 112 verið fjölgað vegna álags í almannavarnaástandi. Á vettvangi hefur svo verið komið fyrir nýjum fjarskiptasendum og skyldum búnaði svo samband þeirra sem sinna hjálparstörfum á svæðinu sé sem best.