[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kvikmyndin Oppenheimer hlaut flest verðlaun á verðlaunahátíð bresku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, Bafta, sem haldin var helgina. Hlaut hún alls sjö verðlaun en tilnefningarnar höfðu verið þrettán

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Kvikmyndin Oppenheimer hlaut flest verðlaun á verðlaunahátíð bresku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, Bafta, sem haldin var helgina. Hlaut hún alls sjö verðlaun en tilnefningarnar höfðu verið þrettán. Oppenheimer var valin besta kvikmynd ársins auk þess sem leikstjórinn Christopher Nolan var valinn besti leikstjórinn og Cillian Murphy var valinn besti leikari í aðalhlutverki. Þá var Robert Downey Jr., sem einnig lék í myndinni, valinn besti leikari í aukahlutverki. Tónlist Oppenheimer þótti einnig best sem og kvikmyndataka og klipping myndarinnar.

Kvikmynd Yorgos Lanthimos, Poor Things, hlaut fimm verðlaun. Emma Stone, sem þar fer með hlutverk konu með heila barns, var verðlaunuð í flokki bestu leikkonu í aðalhlutverki. Þótti kvikmyndin skarta bestu búningunum og besta hári og förðun.

Beina sjónum að stríði

The Zone of Interest, í leikstjórn Jonathans Glazer, fékk verðlaun fyrir að vera framúrskarandi meðal breskra mynda auk þess sem hún var valin besta myndin í flokki mynda á öðru tungumáli en ensku. Framleiðandi myndarinnar James Wilson vakti athygli á stríðsástandinu á Gasa og í Jemen og hvatti til þess að saklausir borgarar þar væru litnir sömu augum og borgarar Úkraínu og Ísraels en The Zone of Interest gerist á tímum helfarar nasista. Í frétt The Guardian segir að þessum orðum hans hafi verið mætt með hlýju.

Fyrr um kvöldið hafði leikstjóri The Old Oak, Ken Loach, og samstarfsmenn hans borið spjald sem á stóð „Gaza: Stop the Massacre“ á rauða dreglinum.

Úkraínska heimildarmyndin 20 Days in Mariupol var valin besta heimildarmyndin og The Boy and the Heron var valin besta teiknimyndin. Leikstjóri 20 Days in Mariupol, Mstislav Tsérnov, þakkaði í ræðu sinni fyrir að rödd Úkraíunumanna væri efld. „Höldum áfram að berjast,“ sagði hann.

Blakstjarna verðlaunuð fyrir bestu frumraunina

Í flokki bestu frumraunar var fyrrverandi landsliðskonan í blaki og ólympíufarinn Savanah Leaf verðlaunuð fyrir myndina Earth Mama.

Leikkonan Da’Vine Joy Randolph hlaut verðlaun í flokki bestu leikkonu í aukahlutverki fyrir frammistöðu sína í The Holdovers, en The Holdovers var einnig verðlaunuð fyrir bestu hlutverkaskipan.

Hin 26 ára Mia McKenna-Bruce, sem leikur í How to Have Sex, hlaut síðan verðlaun í flokki rísandi stjarna, EE Rising Star, sem almenningur kýs um.

Aðstandendur kvikmyndanna Barbie, Saltburn, Maestro og
Killers of the Flower Moon, sem mikið hefur verið fjallað um á þessu verðlaunahátíðartímabili, fóru tómhentir af hátíðinni.

Hvað bíður á Óskarnum?

Nú beinast sjónir að Óskarnum sem haldinn verður 10. mars
næstkomandi og þá verur forvitnilegt að vita hvort Christopher Nolan og teymið á bak við Oppenheimer haldi sigurgöngunni áfram. Þess má þó geta að kjósendur á Óskarnum og Bafta-hátíðinni eru ekki alltaf sammála eins og sannaðist í fyrra þegar þýska myndin Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum hlaut flest verðlaun á Bafta en Everything Everywhere All At Once hlaut flest Óskarsverðlaun.

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir