Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Helst af öllu myndi Heiða Vigdís Sigfúsdóttir vilja skipta eignarhaldinu á bíl með hópi fólks, frekar en að þurfa að reka bifreið alfarið á eigin spýtur. „Það er gott að hafa afnot af bíl, sérstaklega þegar halda þarf út fyrir borgarmörkin – sem er lífsnauðsynlegur hluti af tilverunni, en raunin er að þegar ég hef átt bíl hefur hann setið óhreyfður stærstan hluta dagsins,“ segir Heiða sem er í augnablikinu bíllaus en búsett í Vesturbænum þar sem alla helstu þjónustu er að finna í göngufjarlægð.
Heiða er rithöfundur, skáld og ævintýrakona, og á föstudagskvöld treður hún upp með góðum hópi fólks á uppistandsviðburðinum „Frábært kvöld“ í Tjarnarbíói.
Sem kaupandi segist Heiða einkum hafa hallast að litlum og krúttlegum Toyota-bifreiðum, en kostnaðurinn verið íþyngjandi fyrir manneskju á þrítugsaldri. „Hér í Vesturbænum bý ég svo vel að það er aðeins fjögurra mínútna göngufjarlægð til foreldra minna og á ég það til að stela frá þeim bíl þegar nauðsyn krefur. Svo á ég agalega góðar vinkonur sem munar ekki um að sækja mig. Strætó nýtist ágætlega til ferða innanbæjar og á köflum hef ég átt í mjög nánu sambandi við Hopp-hlaupahjólin,“ útskýrir Heiða og bætir því við að hún meti það mikils að eiga úr ólíkum kostum að velja þegar kemur að samgöngum, og minnist hún þess með hlýhug að hafa búið í alþjóðlegum stórborgum þar sem öflug almenningssamgöngukerfi voru ein af stoðum samfélagsins. „Í Mexíkóborg er það t.d. upplifun að taka neðanjarðarlestina og hluti af menningu og anda borgarinnar. Oft er kraðak í lestunum en þar eru líka götusalar og söngvarar, blaðsölufólk með nýjustu fréttir og von á alls kyns skemmtiatriðum.“
Gott að vera innan um annað fólk
Samtalið berst út í að hvaða leyti menningarlegir þættir kunni að standa almenningssamgöngum fyrir þrifum á Íslandi og nefnir Heiða að félagsfælni leiki mögulega hlutverk. „En það er einmitt svo hættulegt í íslenska vetrinum að húka einn inni í sínum helli. Ég fann það greinlega eftir kórónuveirufaraldurinn hve gott það var að sitja um borð í strætisvagni og fá að vera innan um annað fólk og leyfa tímanum að líða. Svo getur líka verið bjargráð að nota strætó til að skoða mannlífið þegar Tinder tilkynnir mér að ég sé búin að fletta í gegnum alla flóruna á höfuðborgarsvæðinu.“
Heiða neitar því heldur ekki að það geti tekið á að fara á milli staða fótgangandi þegar veðrið er með kaldasta og blautasta móti, en svo lengi sem hún klæðir sig í samræmi við aðstæður eru óþægindin lítil sem engin. „Þó að ég sé stundum lengur að komast á milli staða gangandi en ef ég færi akandi þá lít ég ekki á það sem tímasóun að ganga, heldur lít á gönguna sem hluta af nauðsynlegri daglegri hreyfingu sem þyrfti að ná með einhverju öðru móti ef ég færi allra minna ferða á bíl,“ segir hún. „Það er skiljanlegt að eftir langan vinnudag vilji fólk komast heim með hraði, og það koma óneitanlega tímabil þar sem hraði samfélagsins gefur ekki rými til þess að fara á milli staða á tveimur jafnfljótum, en það er lúxus sem ég held upp á að hafa örlítið svigrúm í deginum til að fara ferða minna fótgangandi.“