Grindavík Íbúar þurfa nú ekki að halda áfram að tæma húsin heldur geta sofið í þeim og starfað í bænum.
Grindavík Íbúar þurfa nú ekki að halda áfram að tæma húsin heldur geta sofið í þeim og starfað í bænum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Íbúum og fyrirtækjum í Grindavík er nú heimilt frá og með deginum í dag að dvelja og starfa í bænum allan sólarhringinn. Ríkislögreglustjóri gaf út tilkynningu í gær þar sem fallið var frá fyrirmælum um brottflutning úr Grindavík

Viðar Guðjónsson

Freyr Bjarnason

Íbúum og fyrirtækjum í Grindavík er nú heimilt frá og með deginum í dag að dvelja og starfa í bænum allan sólarhringinn. Ríkislögreglustjóri gaf út tilkynningu í gær þar sem fallið var frá fyrirmælum um brottflutning úr Grindavík.

Fellur þar með úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um brottvísun sem síðast var framlengd 4. febrúar síðastliðinn. Ákvörðunin nú gildir til 29. febrúar næstkomandi.

Ekki fyrir barnafólk

Vegna ákvörðunar ríkislögreglustjóra lét Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, fylgja með nokkur tilmæli og ábendingar, eins og að íbúar og starfsmenn verði á eigin ábyrgð í bænum.

„Lögreglustjóri tekur skýrt fram að Grindavík er ekki staður fyrir barnafólk eða börn að leik. Þar eru ekki starfræktir skólar og innviðir eru í lamasessi. Stofnlögn heitavatns til bæjarins lekur, að því er talið er undir hrauni, en leitað er bilunar. Það eru tilmæli til fólks að ekki sé hróflað við stillingum heitavatns í húsum. Kalt vatn er ekki komið á og því ekkert neysluvatn. Aðstæður eru því aðrar en þær sem telja má boðlegar fyrir búsetu í húsum,“ segir í tilkynningu lögreglustjórans.

Þar er ennfremur bent á að jarðsprungur séu víða í og við bæinn og sprungur geti opnast án fyrirvara. Hætta er metin töluverð á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum. Úlfar segir opin svæði í og við Grindavík ekki hafa verið skoðuð sérstaklega. Fólk haldi sig við gangstéttir og götur bæjarins og forðist að fara út á lóðir og önnur opin svæði. Grindavík er lokuð öllum öðrum en íbúum bæjarins, starfsmönnum fyrirtækja og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa.

Opið fyrir fjölmiðla

Lögreglustjóri ákvað einnig í gær að afnema takmarkanir á ferðum fjölmiðlafólks í Grindavík. Fjölmiðlar mega dvelja og starfa í bænum allan sólarhringinn, líkt og íbúar og fyrirtæki.

Höf.: Viðar Guðjónsson