Grindavík Markmiðið er að fyrirtækin geti lifað hremmingarnar af.
Grindavík Markmiðið er að fyrirtækin geti lifað hremmingarnar af. — Morgunblaðið/Eyþór
Um tuttugu umsagnir höfðu í gær borist efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis við frumvarpið um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfaranna í Grindavík. Fram koma fjölmargar athugasemdir og ábendingar um breytingar á þeim úrræðum sem boðuð eru í frumvarpinu

Um tuttugu umsagnir höfðu í gær borist efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis við frumvarpið um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfaranna í Grindavík.

Fram koma fjölmargar athugasemdir og ábendingar um breytingar á þeim úrræðum sem boðuð eru í frumvarpinu. Er frumvarpið sagt vera jákvætt skref í rétta átt en í umsögn atvinnuteymis Grindavíkurbæjar segir þó einnig að það komi að takmörkuðu gagni fyrir mörg fyrirtæki nema úrræðið verði rýmkað. Jafnframt sé þörf fyrir frekari aðgerðir „sem geri fyrirtækjum í Grindavík kleift að lifa af, eftir atvikum með því að laga sig að því erfiða ástandi sem nú ríkir eða með því að flytja starfsemina á annan hentugan stað. Vonir hljóta því að vera bundnar við að frumvarpið sé hluti af heildstæðari aðgerðum,“ segir í umsögn atvinnuteymisins.

Lagðar eru til breytingar m.a. svo að rekstrarstuðningur geti líka farið í að greiða laun, að rekstrarstuðningur verði ekki reiknaður með við útreikning tekjufalls í atvinnurekstrinum og að unnt verði að fá rekstrarstuðning í lengri tíma en frumvarpið kveður á um eða að lágmarki til 30. júní næstkomandi en þó helst umtalsvert lengur.

Komin að þolmörkum

Tekið er undir þetta í fleiri umsögnum þar sem hvatt er til þess að gildistími laganna, sem er til 30. apríl, verði lengdur og áhersla er lögð á að frekari aðgerða sé þörf.

Samtök atvinnulífsins minna á að fram kom í ályktun bæjarstjórnar Grindavíkur í seinustu viku að fyrirtæki í Grindavík væru komin að þolmörkum. Benda SA m.a. á í umsögn að þegar hjólin fari að snúast að nýju í Grindavík sé ljóst að starfsfólk muni þurfa að ferðast lengri leiðir til og frá vinnu. Telja samtökin nauðsynlegt að útvíkka úrræðið og veita einstaklingum styrki til að auðvelda ferðir til og frá vinnu. omfr@mbl.is